Leita í fréttum mbl.is

Um háborgaralega leikfangasýki !

Það er alkunnugt hvað orður og titlar hafa mikið að segja fyrir þann hluta mannkynsins sem aðhyllist hégóma og því miður er sá hluti líklega býsna stór. Íslensk yfirvöld ákváðu á sínum tíma, eftir að fullveldið var fengið í höfn, að það þyrfti að koma til móts við þessa fordildarþörf með því að stofna til Fálkaorðunnar !

Sú staða var nefnilega komin upp, að þeir sem höfðu hlotið dönsk heiðursmerki fram að þeim tíma og voru enn á lífi, sátu uppi með medalíur, sem voru svona síðustu 20 árin fyrir fullveldi frekar taldar þeim til gildislækkunar en hitt !

Það varð því að finna upp nýja framköllunarleið til metnaðarsvölunar orðusoltinna embættismanna og annarra sem helst hafa þjáðst af þessari borgaralegu sýki hérlendis og Fálkaorðan var svarið. Í þeim gjörningi var komið fótunum undir riddarastétt hins nýja tíma og í opinberum veislum eftir það gátu embættismenn því gengið um orðum skreyttir og háleitir með þanin brjóst, sem ekki voru lengur þakin Dannebrogsorðum heldur alíslenskum heiðursmerkjum, sem voru auðvitað talin til gildishækkunar í alla staði og að sjálfsögðu veitt sem viðurkenning á þjóðlegum forsendum !

Svo við nýjar og breyttar þjóðfélagsaðstæður fengu sem sagt stéttarlegir staðgenglar þeirra sem áður höfðu fengið Dannebrog nú fínpússaða Fálkaorðu og það þótti auðvitað miklu frambærilegri viðurkenning, enda gerði hún til að byrja með mörgum tauhálsum embættismannakerfisins það kleyft að þykjast talsvert meiri menn en þeir nokkurntíma voru í raun !

Annars var nú ekki langt í Dannebrog á upphafsárum Fálkaorðunnar því það var nú Kristján X Danakóngur sem stofnaði orðuna og var fyrsti Stórmeistari hennar. En eftir lýðveldisstofnunina tók Forseti Íslands náttúrulega við því embætti ásamt þeim konunglegu skyldum sem því fylgdu.

Eiginlega vil ég hvetja hvern mann til að lesa Forsetabréf um hina íslensku fálkaorðu, sem tók gildi 7. janúar 2006, því mér varð hálfvegis flökurt þegar ég las það og er mér þó ekki klígjugjarnt !

Þegar farið er yfir þessi orðumál, kemur skýrt í ljós að það eru sannarlega ekki bara börnin sem vilja eignast leikföng ! Löngunin til að skreyta sig með einhverju virðist mörgum hugföst fylgja og einkum vill hún oft beinast að því að menn vilja komast yfir eitthvað sem getur virkað sem einhverskonar manngildis-viðbót - ekki síst þegar persónulegar nauðvarnaraðstæður virðast krefjast þess !

Núverandi forseti Íslands er, eftir því sem ég best veit, riddari af dönsku fílaorðunni og „fílar" það eflaust í botn, enda náttúrulega í hágöfugum félagsskap þar. Hann þekkir því áreiðanlega vel gildi þess að hafa eitthvað dinglandi á brjóstinu. Það hefur líklega leitt til þess að hann hefur verið mjög duglegur við að fjölga þeim sem geta hampað Fálkaorðunni, enda er þar orðið um afskaplega fjölskrúðugan hóp að ræða.

Ég hef eiginlega oft undrast það, að orðuhandhafar skuli ekki vera búnir að stofna fyrir löngu sérstakan Riddaraklúbb hinnar íslensku Fálkaorðu. Þar mætti t.d. hafa þrjár deildir, Undirdeild þar sem almennir Fálkaorðuriddarar sætu, Yfirdeild þar sem stórriddarar Fálkaorðunnar ættu sæti og Æðstudeild þar sem stórriddarar Fálkaorðunnar með stjörnu ættu sín helgu vé !

Nú er vitað að hégómi er nokkuð sem líka getur smitað vinstrisinnað fólk. Svo það er því miður ekki bara hægri sinnað borgaraslekti sem er ginkeypt fyrir fálkaorðum og öðru slíku dinglumdangli, margt fólk sem talið hefur verið vinstrisinnað virðist ekki síður sólgið í orður og titla !

Við skulum líta aðeins á eitthvað af þessu vinstra fólki sem myndi þá eiga sæti í Undirdeild Riddara-klúbbsins. Í þeim hópi eru Arnar Jónsson, Árni Bergmann, Bjarnfríður Leósdóttir, Bubbi Morthens, Böðvar Guðmundsson, Einar Már Guðmundsson, Einar Kárason, Grétar Þorsteinsson, Helgi Seljan, Páll Bergþórsson, Skúli Alexandersson, Smári Geirsson, Svanfríður Jónasdóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir, Þorsteinn frá Hamri og Þórhildur Þorleifsdóttir..! Með þessu fólki sætu svo í undirdeildinni, svona til að nefna einhverja, Björgólfur Guðmundsson, Ellert B. Schram og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, ásamt mörgum öðrum sambærilegum aðilum af hinu háborgaralega bláa blóði !

Í Efri deild Riddaraklúbbsins, sem bókaðir stórriddarar, myndu svo eftirtaldir ætlaðir vinstri menn eiga sæti, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson, Svavar Gestsson og Vigdís Finnbogadóttir. Með þeim sætu þar svo Björn Bjarnason, Guðni Ágústsson, Halldór Blöndal, Ingibjörg Pálmadóttir, Salome Þorkelsdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Sturla Böðvarsson, Valgerður Sverrisdóttir svo einhverjir séu nefndir.

Í Æðstu deild riddaraklúbbsins þar sem menn væru handhafar að stórriddarakrossi með stjörnu o.s.frv., sætu svo ýmsir þeir Íslendingar sem taldir eru hafa gert einna mest fyrir þjóðina, þar mætti tilgreina menn eins og Geir H. Haarde, Halldór Ásgrímsson, Karl Sigurbjörnsson og Ólaf G. Einarsson !

Og það rignir fálkaorðum sí og æ og allir þeir sem eru í orðunefnd eru sjálfir með riddarakrossa í bak og fyrir. Og segja má að bandarískir aðmírálar, finnskir herforingjar, danskir sænskir og norskir embættismenn, gætu gengið um í hópum með íslenska fálkaorðu. Og kirkjunnar menn virðast ekki síður sólgnir í orður en þeir veraldlegu, þó maður hafi kannski ímyndað sér í sakleysi að þeir væru að vinna starf sitt af köllun og í þágu ríkis sem væri ekki af þessum heimi.

Allt er þetta svo prumpað að það er með ólíkindum og fólkið sem dansar í kringum þetta upptrekkta sjónarspil mannvitleysunnar, er beinlínis hlægilegt þar sem það buktar sig og beygir og þiggur þessar einskisverðu viðurkenningar !

Sumir gætu náttúrulega sagt sem svo: „Er þetta ekki allt í lagi, úr því að fólk gengst svona mikið fyrir þessu ?" En því er til að svara að allt er þetta gert í nafni íslensku þjóðarinnar, í nafni okkar allra. Það er verið að hengja allt þetta dótarí á embættismenn hér heima og erlendis í massavís - á ábyrgð okkar, við Íslendingar eigum að vera að heiðra allt þetta lið !

Það ergir mig óneitanlega sem Íslending, sem vill vera frjáls maður í frjálsu landi, að allt er þetta gert með þeim hætti. Öll þessi uppstillingar-árátta tildurs og hégómleika, sem er ekkert nema óskemmtilegur arfur frá gömlu konungsríkjunum í Evrópu, og virðist einkum og sér í lagi miða að því að upphefja hroka og sýndarmennsku í mannlegu fari, er tengd við okkur, venjulegt íslenskt fólk. Fálkaorðan er því alfarið í mínum huga ömurlegt dæmi um andíslenskan snobbarahátt  !

Ég lít meira að segja svo á, að það sé búið að veita svo mörgum þessa orðu, að þeir hinir fáu sem hugsanlega hafa fengið hana - segjum - fyrir raunverulega verðleika, séu komnir í þá stöðu að líklega sé orðuveitingin - þegar allt kemur til alls - vanheiður fyrir þá !

Jóhannes Kjarval hafði, eins og menn vita, sína sérstöku sýn á lífið og fyrirleit alla yfirborðsmennsku og hverskyns froðuhátt framagirninnar. Siðferðilega var hann þannig stemmdur, að hann afþakkaði Fálkaorðuna á sínum tíma og taldi hana tákn fyrir nokkuð sem hann kærði sig ekkert um, og það hefðu fleiri mátt gera og einkum það fólk sem telur sig hafa barist fyrir jöfnuði manna og heilbrigðu manngildi og verið þar af leiðandi til vinstri í íslenskum stjórnmálum !

Slík orða gerir nefnilega enga manneskju meiri á nokkurn hátt og aðeins í hugsun sem sýkt er af snobbi og svokölluðu goggunarraðargildi getur svona sýndarmennska haft sín ætluðu áhrif !

Ég fyrir mitt leyti fyrirlít allt svona tildur af öllu hjarta, og vildi óska þess að við Íslendingar hefðum haft  þann mannþroska í árdaga fullveldisins að hafna því að sleikja upp slíkar siðvenjur erlendis frá, þegar við töldumst orðin frjáls og fullvalda þjóð !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 176
  • Sl. sólarhring: 221
  • Sl. viku: 745
  • Frá upphafi: 365643

Annað

  • Innlit í dag: 171
  • Innlit sl. viku: 656
  • Gestir í dag: 171
  • IP-tölur í dag: 169

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband