Leita í fréttum mbl.is

Að lifa sjálfum sér og öðrum !

Eitt af því sem virðist standa ungu fólki fyrir þrifum í nútímanum er að möguleikarnir til mennta eru svo margir. Það er undarlegt að þurfa að segja það, en þannig virðist staðan vera. Margur einstaklingurinn býr að hæfni sem getur tekið yfir nokkur svið. Hvað á hann að læra, það er kannski tvennt eða þrennt sem togast á í huga hans ? Og hann getur valið hvað af því sem hann vill, en ekki allt. Og hann hefur heldur ekki svo ýkja langan tíma til að ákveða sig. Árin í kringum tvítugsaldurinn skipta miklu og hvernig þeim er varið. Hver sá sem er kominn með fastmótað markmið á þeim aldri er líklegri en aðrir til að ávaxta vel sitt pund í lífinu. Hann hefur þá tekið ákvörðun um takmark og stefnu.

En margir slá slíkri ákvörðun á frest og eiga erfitt með að komast þar að niðurstöðu og stundum fer svo að þessi mikilvæga ákvörðun er aldrei tekin og líf viðkomandi fer inn á einhverja rás sem aldrei var ákveðin sem slík. Síðar verða menn svo fórnarlömb hinna glötuðu tækifæra og fyllast beiskju og vonbrigðum yfir því hvað lífið hefur leikið þá grátt ? Svo tekur kannski við óregla og önnur vitleysa í framhaldinu sem rekur endahnútinn á það skipbrot sem aldrei hefði átt að verða !

Það er alltaf slæmt til þess að hugsa hvað mannlegt atgervi fer oft fyrir lítið. Og á Íslandi hefur það mannauðstap löngum verið mikið. Fámenn þjóð í stóru landi þarf á öllu sínu að halda og menntun og þroski einstaklinganna ræður jafnan úrslitum um það hvernig til tekst hverju sinni. Það getur valdið mörgum erfiðleikum að ákveða hvaða starfsvettvang skuli velja þegar svo er komið, að vegir virðast liggja til allra átta. Þó að gott sé að eiga völ á kostum getur það ruglað marga í ríminu þegar margt er í boði og tvennt eða þrennt togast á um völdin í huganum og hæfileikar eru til staðar fyrir það allt.

Í gamla daga voru valkostirnir hinsvegar of fáir. Marga langaði til að verða þetta og hitt, en þess var ekki kostur. Margar sagnir eru til um menn sem vildu verða efnafræðingar, eðlisfræðingar,verkfræðingar, náttúrufræðingar, hagfræðingar eða jafnvel steingervafræðingar. En svo ákváðu þeir bara að fara í prestinn, því það var sögð ódýrasta leiðin. Þar urðu slíkir menn svo, eins og að líkum lætur, efnafræðisinnaðir, eðlisfræðiþenkjandi, náttúruáhugasamir,  hagfræðihugsandi  „prestar" ! Og að því viðbættu að sjálfsögðu, steingervingar gagnvart trúarlegum og andlegum verðmætum !

Svo það er engin furða þó kirkjunni hafi ekki farið fram á seinni tímum, því henni bættist aldrei eðlilegur liðsauki í slíkum mönnum og stundum fékk hún þar bara vandræðabörn sem spilltu orðstír hennar.

Það á auðvitað enginn að „fara í prestinn" nema hann hafi köllun til þess. Prestsstarfið er fyrst og fremst köllunarstarf, ekki eitthvað sem menn fara í vegna þess að annað sé ekki í boði. Ástand trúar og kirkju í dag er ekki hvað síst í hnignun vegna þess að köllunarkvaddir hirðar eru þar líklega ekki margir. Þar hefur líka guðfræðin algerlega kaffært trúna hjá mörgum, enda hafa margir sagt að Satan hafi verið fyrsti lærði guðfræðingurinn. Ef trú er gerð að fræðigrein, deyr trúin smám saman og fræðileg kerfishugsun tekur yfir. „Því fleiri guðfræðingar þeim mun betra" hugsar sálnaóvinurinn því með sér og glottir við.

Trú er nokkuð sem manninum er meðfædd fylgja, að sveigja þá eðlislægu fylgju undir fræðilega kerfishugsun er andstætt þeim anda sem knýr trúna fram í brjósti mannsins. Hrein og falslaus trú verður því aldrei beygð undir nein kerfislögmál því hún er líftaug andans af Guði gefin til sálar mannsins. Svokölluð guðfræði er því ekkert sem getur orðið sannri trú til framdráttar, hún verður þvert á móti hefting fyrir hverja þá hugsun sem vill beint og milliliðalaust treysta Guði.

Gildi einstaklinganna markast oft best af því hvernig þeir þjóna samfélagi sínu. Og því er það svo mikilvægt að menn finni hvar þeir geti helst orðið að liði og bætt þjóðfélagið með sínu framlagi, samfara því að finna sig sem einstaklinga í stöðu sem veitir uppfyllingu persónulegum áhugaefnum og einlægum framfaravilja. Hafa ber í huga að menn eru menn og enginn öðrum merkari í Guðs augum.

Sú óheilbrigða afstaða sem ræður býsna mikið framkomu manna í svokölluðum mannfélagsstiga, að sleikja upp fyrir sig en hrækja niður fyrir sig, er meinsemd sem skaðar bæði þá sem hegða sér þannig og samfélagið sem þeir eru hlutar af.  Ef hugsun einstaklinganna nær því að vera að mestu leyti heilbrigð, þurfum við ekki að hafa miklar áhyggjur af samfélagssáttmálanum því hann er þá ekki í neinni hættu.

Það er yfirleitt hugarfarseitrun sem byrjar hjá einstaklingunum sem smátt og smátt sýkir samfélagið og breytir undirstöðum þess og gildum. Og þegar slíkt er í gangi sem nú á tímum er samfélagið í hættu. Þá er líka meiri þörf á því en á nokkrum öðrum tímum að menn gangi í sig og geri sér grein fyrir því hvað þeir vilja búa við persónulega og hvernig þeir vilji að samfélag þeirra sé, og hlynni síðan að því sem þeir sannfærast um að sé gott og gilt og stuðlað geti að almennri velferð.

Einn liður í því er að menn taki ákvörðun á réttum tíma varðandi lífsstefnu og helgi sér takmark sem þjónar þeim vel sem einstaklingum og styrkir samfélag þeirra um leið. Í því gilda þau sannindi, að maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur. Fyrir atbeina annarra og samskipti við gott fólk, opnast oft í okkur uppsprettur nýrra hæfileika og þannig þroskumst við sem einstaklingar fram til þess að finna aukna þörf í sálum okkar til að veita blessun inn í annarra líf.

Það gefur sanna ávexti, jafnt inn í líf einstaklinga sem samfélags og veitir hverjum manni sem þannig getur tekið á málum, hugarfarslega gleði þeirrar fullvissu, þegar dregur að lokum lífsgöngunnar, að vita  - að þrátt fyrir allt - hafi hann ekki lifað til einskis !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 80
  • Sl. sólarhring: 127
  • Sl. viku: 649
  • Frá upphafi: 365547

Annað

  • Innlit í dag: 76
  • Innlit sl. viku: 561
  • Gestir í dag: 76
  • IP-tölur í dag: 74

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband