Leita í fréttum mbl.is

"Alþjóðasamfélagið" ?

Á síðari árum hefur komið upp það hugtak sem er fyrirsögn þessa pistils - alþjóðasamfélagið ! Það er ýmislegt sem liggur að baki því hugtaki sem ætti að geta sagt okkur vissa hluti, ef við vildum á annað borð vega og meta mál og hugleiða hvað í gangi sé hverju sinni.

Á sínum tíma var Þjóðabandalagið stofnað og það átti náttúrulega að vera rödd alþjóðasamfélagsins og trygging fyrir því að deilur milli þjóða leiddu ekki til stríðs. En á nokkrum árum lék evrópska stórpólitíkin þetta bandalag þannig, að enginn tók nokkurt mark á því þegar fram í sótti.

Stórþjóðirnar sem stóðu að stofnun þess, gengu á undan í því að grafa undan bandalaginu og það var aldrei fært um að leysa nokkurn hlut. Bandaríkin sviku til dæmis Wilson forseta og stefnu hans eftir Versalafundinn 1919 og jafnframt hugsjón þá sem Þjóðabandalagið var byggð á. Það var vægast sagt hrópleg framkoma !

1945 kom svo taka tvö ! Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar og nú voru Bandaríkin að vísu með, en það breytti litlu varðandi þá misnotkun stórveldanna sem tíðkaðist strax frá byrjun innan samtakanna. Neitunarvald þeirra innan Öryggisráðsins gerði það að verkum að stundum voru stríð búin og afgreidd áður en nokkuð gat komist í gang innan þessa „ætlaða friðartækis" mannkynsins !

Og þegar komið var framyfir 1970 voru allir sem á annað borð vildu sjá og skilja, farnir að sjá og skilja að Sameinuðu þjóðirnar voru bara eitt sýndarmennsku-prumpið í viðbót og vita gagnslausar varðandi heimsfriðarmál, enda að mestu pólitískt útibú frá Bandaríkjunum. Vonirnar sem risu á legg um 1945 höfðu fljótlega dáið hver af annarri, og eftir 1970 stóð bara eftir risastórt skriffinsku-batterí, staðnað og steingelt !

Og upp úr 1980 og einkum þó eftir 1990 var farið að tala um alþjóðasamfélagið ! Það átti að vera eitthvað alveg nýtt fyrirbæri sem hreinsaði út allan sora í milliríkjasamskiptum og héldi heiminum stöðugum á rás friðarins. En eins og fyrri daginn komu sömu, gömlu meinsemdirnar fljótt í ljós. Bandaríkin gátu áfram gert hvað sem þeim þóknaðist og það jafnvel í háheilögu nafni alþjóðasamfélagsins ! Íraksstríðið kom með sínum skelfingum í Abu Ghraib og víðar, Afghanistanmálið fylgdi þar á eftir með fjöldamorðunum í Dasht-el-Leili og margskonar öðrum hryllingi, menn voru og eru kvaldir og pyntaðir í Guantanamo og víðar o.s.frv. !!!

En Bandaríkin vinna allt sitt á þurru, sama hvað þau gera. Þau eru eina ríkið í heiminum sem hefur nánast alþjóðlegan réttindapassa upp á það að þau fremji ekki og geti ekki framið stríðsglæpi. Samt er það svo enn í dag, eftir meira en 60 ára sögu kjarnorkuvopna, að Bandaríkin eru eina þjóðin í veröldinni sem varpað hefur kjarnorkusprengjum á annað land, en slíkur verknaður er ekkert nema svívirðilegur stríðsglæpur í mínum huga. Rússadjöflarnir hafa haft slík vopn nánast jafnlangan tíma og aldrei notað þau ? Hvernig stendur á því, jafn slæmir og þeir eru sagðir vera - af andstæðingum sínum ?

Bandaríkin hófu afskipti af málefnum Kosovo og tóku upp hanskann fyrir Albani í héraðinu, sem voru að vísu í meirihluta þar, en í algjörum minnihluta innan viðkomandi ríkis. Þar breyttu Bandaríkin algerlega fastri stefnu sinni, að einhliða úrsögn eða uppreisn landshluta innan sambandsríkis væri ólögleg. Ritstjóri blaðs í Houston í Texas sagði þá í grein í blaði sínu, að hefði stefnu Bandaríkjastjórnar verið slík árið 1860 hefði aldrei þurft að koma til borgarastríðsins og Suðurríkin bara fengið að sigla sinn sjó. Það hefði þá bjargað lífi 600.000 manna í Norður-Ameríku sem létu lífið á vígvöllunum í því stríði.

En eins og William Fulbright sagði svo eftirminnilega um 1970, þá er erfitt að átta sig á utanríkismálastefnu Bandaríkjanna, enda sveigist hún ekki lengur eftir neinu hugsjónalegu grundvallarmáli eins og var upphaflega í mörgu, heldur eftir mjög svo misvísandi hentistefnu-hagsmunum auðhringa landsins !

Og nú er þessi Krímsskagadeila í algleymingi. Og hver eru málsefnin þar ? Land sem hefur verið rússneskt í aldir, fram að pólitískum millifærslu-gjörningi innan sambandsríkis 1954, land sem er byggt hreinum meirihluta rússa, sem virðast flestir heldur kjósa að fylgja Rússlandi en Úkraínu, er allt í einu orðið eitthvað sem Úkraína á að hafa fullan rétt til, bara vegna einhvers sem Nikita Kruschev gerði fyrir 60 árum, þá líkast til alveg sannfærður um að Sovétríkin yrðu eilíflega til ? Og alþjóðasamfélagið er um leið látið hoppa fram á sviðið og grenja yfir brotum á lýðræði og ég veit ekki hvað !

Og nú er ekki minnst á blóðsúthellingarnar í Sýrlandsstríðinu í fjölmiðlum, öll drápin og viðbjóðinn þar, sem alþjóðasamfélagið hefur ekki getað afstýrt með neinu móti og er líklega alveg sama um. Þar er bara verið að drepa eitthvað þriðja heims pakk en ekki súperborgara í hinum eftirsótta Evrópugeira !

En á Krímsskaga takast á gömlu kaldastríðsöflin og þar gegnir allt öðru og meira máli. Þar verður hin vestræna áróðursvél að skila sínu svo „Pax Americana" geti að lokum ríkt um heim allan, öllum þjóðum til blessunar eða þannig !

Mér ofbýður gjörsamlega hræsnin og yfirdrepsskapurinn í þessu öllu saman og svarti friðarverðlaunahafinn í Hvíta húsinu fær ekki háa einkunn hjá mér fyrir frammistöðuna frá því hann steig þar inn fyrir dyr. Það mætti einna helst halda að eina takmark hans í embætti væri að gera Bush yngri góðan, nokkuð sem flestir héldu að hlyti að vera algerlega ógjörningur, en Obama virðist samt miða nokkuð þokkalega varðandi það, en ekki er hægt að segja,að hann setji markið hátt !

En fátt er þó svo slæmt að það fylgi ekki eitthvað gott með. Íslenski utanríkisráðherrann er nú á leiðinni til Kænugarðs og á döfinni er víst „að Ísland beiti Rússa efnahagsþvingunum". Kannski bjargar Gunnar Bragi Úkraínu og Krímskaganum undan mannætunum í Kreml, svona svipað og Jón Baldvin bjargaði Eystrasaltslöndunum sællar minningar !

Áróðurshugtakið um alþjóðasamfélagið skiptir kannski ekki svo miklu máli í þjóðadeilum þegar allt kemur til alls, ekki þegar Ísland er mætt á völlinn.....

Það er alltaf munur að mannsliði !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 89
  • Sl. sólarhring: 136
  • Sl. viku: 658
  • Frá upphafi: 365556

Annað

  • Innlit í dag: 85
  • Innlit sl. viku: 570
  • Gestir í dag: 85
  • IP-tölur í dag: 83

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband