Leita í fréttum mbl.is

,,Silfurskeiðungar samfélagsins´´ !

Það er stundum býsna fróðlegt að lesa eða heyra það sem auðmenn og taglhnýtingar þeirra segja um samfélagsmál á Íslandi. Það segir manni ýmislegt þegar maður les efni eftir fólk eða heyrir í fólki, sem aldrei hefur þurft að dýfa hendi í kalt vatn, en telur sig þess samt alltaf umkomið að tala inn í aðstæður sem það þekkir ekkert til. Og það sem verra er, sem það kærir sig ekkert um að þekkja til !

Það fólk sem nú mætti kalla hérlendis háborgaralegt slekti, er yfirleitt í þessum gír. Þar er um að ræða einstaklinga sem eru af efnafólki komnir, búa að ættarauði og forréttindastöðu frá fyrri tíð og ganga þar inn í gefnar aðstæður, þekkja ekkert til þess hvað það er að þurfa að hafa fyrir lífinu eða heyja lífsbaráttu og líta í mörgu niður á það fólk sem þarf að standa í slíku og hafa fyrir hlutunum.

Fólk af þessu tagi virðist ekki hafa neina aðra sýn á þjóðfélagið en þá að það eigi að reka það með hagsmuni ríkustu 10 prósentanna að leiðarljósi. Og þannig hefur íslenskt samfélag verið rekið að miklu leyti, vegna valda og áhrifa hinna „íslensku aðalverktaka allsnægtanna"  fyrir sérhagsmuni topps tíu, og væri rekið það að öllu leyti - ef svonefndir félagshyggju-flokkar eða stjórnmálaöfl til vinstri - hefðu ekki þvælst nokkuð fyrir í þeim efnum og stundum náð marktækum árangri - í almennings þágu !

En nú er orðið býsna erfitt fyrir fólk að vita hvað er vinstri og hvað hægri, það er eins og allir fulltrúar í íslenskri pólitík séu orðnir sama „skítapakkið," eins og ein virðingarverð kona á miðjum aldri orðaði það nýlega við mig, talandi um íslensk stjórnvöld, og sú var nú reið !

Danski rithöfundurinn Martin Andersen-Nexö segir frá því að hann hafi eitt sinn, í upphafi ferils síns, lesið sögu sem hann skrifaði, fyrir háborgaralega en mjög góðhjartaða vinkonu sína. Hún þagði langa stund á eftir, en sagðist svo ekki vilja taka afstöðu til sögunnar sjálf, kvaðst ekki alveg höndla hana, „þetta er of erfitt fyrir mig", sagði hún, en vildi fá að senda söguna til systur sinnar til umsagnar. Síðan kom sú umsögn og hún var á þessa leið: „ Ég hef verið andvaka á næturnar út af þessari sögu, það ætti að banna mönnum að skrifa svona um fátæklingana!"

Og systirin góðhjartaða sagði við Nexö: „ Ég skal segja þér Martin, þú verður aldrei skáld ef þú heldur svona áfram, þú verður að skrifa eitthvað klassískt !"

En Nexö mat þessi viðbrögð á sinn hátt og var ánægður með þau. Hann hafði nefnilega náð tilgangi sínum. Honum fannst ekkert að því að geta skrifað þannig að góðborgurum fataðist bæði svefn og matarlyst. Og það gerði hann sannarlega eftirleiðis, í Pella sigurvegara, Dittu mannsbarni og öðrum verkum sínum. Það er ekki af engu sem hann var talinn taka við af Maxim Gorky sem helsta skáld verkalýðsstéttarinnar !

Hin meinta velferð hérlendis sem náðst hefur út fyrir þá sem ekki tilheyra toppi 10, hefur aðeins náðst fyrir mikla og fórnfúsa baráttu verkafólks, í gegnum þá samstöðu sem tókst að skapa meðal vinnandi fólks á öldinni sem leið. Þar voru þeir menn yfirleitt í forustu sem mest hafa verið níddir í þessu landi fyrr og síðar. En þeir stóðu vaktina samt með fullum sóma meðan þeir gátu.

Þó verkalýðshreyfingum sé í tröllahöndum sem stendur, þarf baráttan fyrir almennum mannréttindum að halda áfram, því þar verður enginn ávinningur öruggur til lengdar ef ekki er staðið stöðugt á verði yfir honum. Þar þarf maður að taka við af manni og halda kyndlinum uppi. Afætuliðið er nefnilega alltaf til staðar og tilbúið að éta frá þeim sem afla hlutanna hvar og hvenær sem er. Það er eðli þess og art og hefur alla tíð verið, eins og Abraham Lincoln undirstrikaði í kappræðunum við Stephen Douglas forðum, en fyrir þær varð hann kunnur sem málsvari almennra mannréttinda um öll Bandaríkin.

Ég hef alltaf verið andvígur því að einhver klíka í mannlegu samfélagi eigi að njóta forréttinda. Ég hef alltaf verið á móti allri mismunun og því að auðgildi eigi að ráða ofar manngildi. Ég er á móti því að sjálfskipað afætulið sitji við kjötkatla samfélagsins og blóðmjólki þar allt fyrir sig og sína. Ég er á móti öllu Mammonsvaldi !

Ég vil kalla þetta lið sem ég er að tala hér um, þetta afætulið þjóðfélagsins, - silfurskeiðunga ! Þeir eru að mínu mati siðferðilega vanhugsandi á svipaðan hátt og María Antoinette var á sínum tíma. Þeir skilja ekki lífsaðstæður venjulegs fólks  og eigin forréttindi eru helgur réttur í þeirra augum, þó þau hafi nánast alltaf áunnist með ranglæti og svikum, kúgun og yfirgangi  gagnvart öðrum !

Ég heyrði í gleiðmynntum Guðlaugi Þór á Bylgjunni um daginn. Hann var eitthvað að skíta í verk Steingríms J. og fyrri stjórnar, venju samkvæmt. Þá fór útvarpsmaðurinn, aldrei þessu vant, að tala um framferði manna fyrir hrun, græðgi  í bankakerfi og víðar, og ástæðurnar fyrir því hvernig fór !

Þá fór Guðlaugur Þór allt í einu í þann gírinn að fara að tala afsakandi um mannlegt eðli og breyskleika manna. Hann vissi sem var að þegar umræðan var komin í þetta far, þurfti hann að verja sitt lið og þá fannst honum sjáanlega nærtækast að gera það með þessu móti.

En Steingrímur J. átti sér greinilega enga vörn eða afsökun í mannlegum breyskleika, enda leit Guðlaugur Þór augljóslega þannig á, að mæla þyrfti hans gerðir með allt öðrum og harðari hætti. Er þar ekki á ferðinni rétt einu sinni dæmigerð saga um flísina og bjálkann?

 „Ja, mikill er andskotinn"  sagði maðurinn forðum,  ,,það þjóna svo margir undir hann !"

Ég vil ljúka þessum pistli með einfaldri vísnaþrennu sem Enginn Allrason orti nýlega um hið óíslenska forréttindalið :

Stöðug rækt við lygar lögð

leitar gegn því sanna.

Sagan kynnir svikabrögð

Silfurskeiðunganna !

 

Þeir sem böðlar bræðralags

bót og rétti granda.

Sýna í ferli sérhvers dags

sjálfselskunnar anda !

 

Arðránsklíkan græðgisgjörn

gæðum vön að spilla,

leikið hefur landsins börn

löngum hart og illa !

................................

                                           

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 598
  • Frá upphafi: 365496

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 511
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband