Leita í fréttum mbl.is

Endurreisn verkalýðshreyfingarinnar !

Það er löngu orðið knýjandi mál að endurreisa verkalýðshreyfinguna, byggja hana upp aftur og blása lífi í hana á ný. Við almennir þegnar þjóðfélagsins megum ekki við því að hreyfingin sé áfram í tröllahöndum eins og verið hefur og öll barátta fyrir velferð og viðgangi launafólks í landinu sé eyðilögð í aðalstöðvum hreyfingarinnar sjálfrar, af fölskum forustumönnum sem aldrei hefðu átt að komast þar inn fyrir dyr. Öll samningagerð síðustu ára fyrir almennt launafólk hefur verið svikin af þeim sem síst skyldi og þar hefur ekkert fæðst nema óburðir óburða, hvert steinbarnið af öðru !

Það fólk sem er í forustu verkalýðshreyfingarinnar nú, og hefur verið um allt of langt skeið, er gjörsamlega gagnslaust lið og frá mínum bæjardyrum séð ekkert nema blygðunarlausar afætur fyrir hag hreyfingarinnar. Það þarf að vísa því á dyr fyrir fullt og allt og því fyrr því betra. Bestubitahjörðin í kringum Gylfa Arnbjörnsson og aðra manngjörða innanstokksmuni í höfuðstöðvunum er nógu lengi búin að verða sér til skammar í forustu verkalýðshreyfingarinnar. Vesaldómurinn innan stjórnar Alþýðusambands Íslands er svo mikill og alþekktur orðinn, að margir halda víst að ASÍ skammstöfunin standi fyrir Aðal Svínarí Íslands !

Það þarf að rjúfa samtryggingu mafíunnar í vítisturni vélráðanna og valdaeinokun hennar á samningamálunum og færa samningsvaldið aftur út til félaganna. Það verður að virkja launafólk á ný til starfa í hreyfingunni með því að gefa því kost á að semja fyrir sig sjálft. Stóra samflotið er aðeins ávísun á spillta starfshætti og pólitískar millifærslur. Það er löngu orðið úrelt fyrirkomulag og vinnur nú gegn því sem því var ætlað að gera í upphafi.  Lygaáróðri þjóðarsáttarkjaftæðis og öðru slíku verður að vísa til föðurhúsanna. Slíkt blekkingartal er markleysa og bara sett fram til að breiða yfir þá staðreynd, að vangefin stjórnvöld ætlast alltaf til að almenningur borgi brúsann af öllu misferli sem á sér stað í málum þjóðarbúsins vegna spillingar kerfisklíkunnar, og þegar verkalýðshreyfingin er í tröllahöndum verst hún hvorki né berst !

Núverandi forseti ASÍ, sem er innvígður og innmúraður fyrsti umboðsmaður lífeyrissjóðakerfisins, á enga samleið með almennu launafólki í landinu, skoðið bara hvað hann hefur í laun og hvernig hann og hans líkar halda á málum ? Hann er fyrst og síðast í því hlutverki að gæta hagsmuna fjármagns sem af fólkinu er tekið, en skilar sér varla í mýflugumynd til þess aftur.

Lífeyrissjóðakerfið er í einu orði sagt skítlegt kerfi og hefur líklega skaðað hagsmuni launafólks meira en flest annað. Það er skoðun mín að það sé engin siðferðileg hlið til varðandi það kerfi - að mínu mati er það einfaldlega siðlaust. Tilvist þess er byggð á ranglæti og þjónar því markmiði fyrst og fremst að framlengja launamisréttið í landinu út yfir gröf og dauða !

Það er með ólíkindum hvað margir voru blekktir með þessu kerfi og héldu í upphafi og fram eftir árum að það væri gott fyrir almennt launafólk. Ég segi bara - fjandinn hirði lífeyrissjóðakerfið í heilu lagi - og öll þau skítlegheit sem skapast hafa í kringum það. Það er ekkert nema enn eitt arðránskerfið sem níðir skóinn niður af almenningi og  er þeim frekast til bölvunar sem það þykist vinna fyrir !

Verkalýðshreyfingin þarf að vera undir stjórn almenns launafólks, hún þarf að byggja líf sitt á þeim grundvallartengslum því hún er fólksins vegna til. Sérhver tilhneiging  í stjórnunarmálum þar, sem gengur út á að skapa valdakerfi til einkanota, er andstæð hugsjónum hreyfingarinnar og gengur þvert á almenn mannréttindi og á ekki að líðast.

Verkalýðshreyfingin er sem stendur í tröllahöndum og það þarf að leysa hana úr fjötrum forhertrar fjármagnselítu og höggva niður þann steingerða flækjuskóg sem hún situr í. Menn sem hafa setið sem verkalýðsfélagsformenn áratugum saman, fyrir spillingarkraft samtryggingar og sérhagsmuna, og eru löngu liðin lík í hugsjónalegum skilningi, verða að víkja svo ferskir vindar geti blásið á ný.

Það þarf að gera 1. maí aftur að kraftmiklum baráttudegi í þágu þeirrar fjöldahreyfingar sem hann er vígður og sýna með því og sanna að almennt launafólk eigi aftur sitt varnarþing - frjálst, mikilfenglegt og umfram allt mannheilt, - lifandi samtök sem voru sköpuð til þess í upphafi og eiga að vera til þess að standa á þeim meginrökum mannlegs samfélags að velferð fólksins séu æðstu lögin !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 365493

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 508
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband