Leita í fréttum mbl.is

Að standa fast í fætur fyrir góðar rætur !

Viljum við ekki almennt talað að menn séu sjálfum sér samkvæmir ? Varla er það líklegt til að glæða öryggistilfinningu okkar í mannlegu samfélagi, að fólk segi  eitt í dag og annað á morgun ? Hvers krefjumst við af öðru fólki ?

Og hvernig erum við sjálf ? Erum við sjálfum okkur samkvæm, erum við traustvekjandi manneskjur ? Gerum við þær kröfur til okkar að við séum samfélagi okkar til styrktar og sýnum við með festu í framgöngu að við séum og viljum vera ábyrg og trúverðug ?

Það er nú það ! Oft vill það reynast svo í veruleikanum, að fólk gerir meiri kröfur í samfélagslegu tilliti til annarra en sjálfs sín. Það leiddi til þess sem kom fram í ræðu John F. Kennedys forðum er hann sagði hin fleygu orð: „And so my fellow Americans, ask not what your country can do for you, ask what you can do for your country !"

Þjóðfélagið hagnast eða tapar á samfélagslegum viðhorfum einstaklinganna. Ef allir hugsa bara um eigið skinn og heimta og heimta, en leggja ekkert fram á móti, er það skýrt dæmi um kæruleysi gagnvart þjóðarheill og þjóðarhag. Samfélag sem býr við slík viðhorf í ráðandi mæli er ekki líklegt til að verða framtíðarvænt !

Hvers krefjumst við af kjörnum fulltrúum okkar á þingi og í ríkisstjórn ? Viljum við að þeir séu menn orða sinna ? Eða afsökum við þá þegar þeir svíkja orð og eiða og segjum: „Þetta er nú bara pólitíkin, hún er alltaf svona !" En hvernig verður pólitík til ef ekki fyrir atbeina manna. Erum við ekki enn og aftur að skammast út í áhaldið þegar við tölum þannig, í stað þess að krefjast þess einfaldlega að fulltrúar okkar í stjórnmálum landsins séu ábyrgir og sjálfum sér samkvæmir ?

Menn eru kjörnir til trúnaðarstarfa hjá ríki og sveitarfélögum, stéttarfélögum og félagslegum áhrifablokkum, en það er sjaldan farið mikið ofan í saumana á því hvernig maðurinn er í raun og hvort hann sé líklegur til að vera traustsins verður. Oftast eru menn bornir fram í krafti einhverra pólitískra afla og þá er frekar spurt um það hvort maðurinn sé flokkshollur en hvort hann sé þjóðhollur. Og menntun er auðvitað mikið atriði en langt frá því að vera það úrslitaatriði sem hún er yfirleitt talin í dag. Margt gráðum prýtt fólk hefur reynst afspyrnu illa í lykilstöðum og þá er það oft vegna þess að það er orðið svo sjálfumglatt og yfirmeðvitað um  eigið gildi að hrokinn fellir það. Það kann ekki lengur að umgangast aðra á eðlilegum mannlegum grundvelli. Það tekur háskólapróf í þessu og hinu en fellur svo kylliflatt við prófborð lífsins. Þess eru jafnvel dæmi að siðfræðimenntaðir menn hafi komið út með þeim hætti - þveröfugt við væntingar !

Traust er grundvallaratriði í öllum mannlegum samskiptum. Hefur þú velt því eitthvað fyrir þér hvernig þú átt að fara að því að umgangast mann með „eðlilegum hætti" sem engin leið er að treysta ? Hvernig þú átt að leysa samskiptamál við mann sem virðist gjörsneyddur ábyrgðarkennd ?

Færðu það ekki strax í andlitið að þú sért með fordóma ef þú sættir þig ekki við allt ? Er ekki bókstaflega verið að því að sérlaga nútímann að þörfum þeirra sem virða ekki neitt og brjóta allar reglur og þykjast samt stöðugt boðendur frelsis, víðsýnis og mannréttinda ? Og ef þú dirfist að andmæla einhverju af því sem veður uppi í dag fyrir tilverknað slíkra aðila og telur það ekki gott framlag til samfélags-uppbyggingar, færðu bara fordómastimpilinn um leið þvert yfir fésið á þér og það gæti jafnvel gerst á Fésbók !

Nú virðist nefnilega svo komið að „fordómaleysið sjálft" sé farið að framkalla fordóma algerlega fyrir eigin vélarafli og það bara í talsverðum mæli. Ég hef kallað slíkt  „rétttrúnaðarfordóma", en það þýðir að það er talið allt í lagi að þú sért með bullandi fordóma, ef þeir eru bara á réttri línu, ef þeir lyfta því upp sem virðast ráðandi sjónarmið á leikvelli lífsins í dag !

En það getur komið að því - og fyrr en nokkurn varir, að bresturinn í hjarta samfélagsins verði svo mikill að hann verði ekki bættur. Að við verðum komin svo langt út á villugöturnar að við verðum endanlega úti, að við náum ekki aftur heim til föðurhúsanna. Og við skulum átta okkur á því, að þegar sá sem alltaf hefur leitað hins eina, hefur verið sniðgenginn og forsmáður og honum úthýst úr hjörtum okkar, þá er ekki neitt öryggi lengur til staðar, ekki neitt traust sem varir lífið út og lengra en það !

Viljum við samfélag sem leiðist af þeim sem hæst hrópa og vilja í stöðugri uppreisn úthýsa Guði og góðum siðum ?

Ég held ekki og við þurfum því sannarlega, hvert og eitt, að sýna í verki að við viljum halda í okkar eigin rætur og treysta þær á Bjargi aldanna, sem er hinn Lifandi Guð ; að við viljum að Guð vors lands sé og verði áfram Guð vors lands og veiti þjóð okkar þá leiðsögn sem hún er, að minni hyggju, í meiri þörf fyrir nú en nokkru sinni fyrr !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 365493

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 508
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband