Leita í fréttum mbl.is

Hugleiðing um hégóma !

Fjölskyldumynstrið á Íslandi hefur breyst mjög hin síðustu ár. Hin fyrrum hefðbundna fjölskylda virðist nánast á förum og að mörgu leyti mun flóknari samsetning komin í staðinn. Föður og móðurímynd er á hverfanda hveli og hlutverkum þar skipt í andstæðu sína, ef svo má að orði komast !

Allt þetta vekur miklar spurningar um það hvernig búið sé að börnum og uppeldi þeirra í þeirri fjöleðlisútgáfu sem virðist vera á þessum málum núna. Stöðumynd heimilisaðstæðna í nútímanum er sannarlega orðin miklu losaralegri en hún var og ég fæ ekki betur séð en hún sýni flöktandi ferli í flestu !

Við erum líklega komin á þann stað, að kalla fram ókostina við þá dýrkun einstaklingshyggjunnar sem í gangi hefur verið undanfarin ár. Þegar sjálfið hefur algeran forgang í lífi fólks verður fjölskylda, hjónaband, heimili og annað að líða fyrir það. Maður sem er bara í því að umfaðma eigið sjálf missir smám saman frá sér allt sem gefur lífinu raunverulegt gildi !

Það er ljóst að staða mannsins í nútímanum er slík að hún undirstrikar mikið öryggisleysi, enda hafa menn lengi verið í því hlutverki að höggva allar þær rætur frá sér sem hafa veitt bindingu við gömul og góð gildi. Uppsöfnuð sannindi í reynslu liðinna kynslóða hafa verið meira eða minna hundsuð og í nútímanum virðast menn helst uppteknir af því að hrokast upp og líta smáum augum á allt sem áður hefur verið !

En einu sinni var ort : „Það voru kallar á þeirri tíð/en þeir eru allir dauðir !" Og svo mun enn verða, að við núlifandi fólk munum safnast til feðra okkar og mæðra á sama hátt og fyrirrennarar okkar hafa gert, en spurning er hvernig eftirmælin verða um okkar lífsskeið ; munu þeir sem eftir okkur koma sjá mikla ástæðu til að meta verk okkar eða þakka fyrir okkar framlag í þeirra þágu ? Ég verð því miður að segja, að ég sé ekki að við séum yfirleitt að gera góða hluti með tilliti til hags þeirra sem á eftir koma, en það eru skiljanlega þeir sem mest eiga skilið af okkur, börn okkar og afkomendur !

Það er sannarlega ærið margt sem ég skil ekki en vildi þó feginn geta skilið. Ég get til dæmis aldrei skilið hvað menntun, sem í eðli sínu ætti að teljast til þess sem gott er, virðist oft snúist upp í það að fylla fólk af yfirlæti og heimskulegum hégóma ?

Ætti aukin þekking og menntun ekki að vera vörn gagnvart slíkum ókostum í mannlegu fari, og ef svo er, af hverju skilar það sér þá jafn illa og raun ber vitni ? Eða er mannlegt eðli virkilega þannig - að það vinni með öfugum hætti úr því sem ætti að vera því til ávinnings ? Það virðist að minnsta kosti koma þannig fram hjá býsna mörgum !

Þegar minnst er á hégóma, og þá ekki hvað síst í tengslum við menntahroka, kemur í ljós að fólk sem þjáist af þeim andskota er mjög upptekið af því að sérmerkja sig og sitt skyldulið með einhverjum þeim hætti sem athygli getur vakið. Þetta kemur til dæmis skýrt fram í mannanafnavali nú um stundir, því geysileg tilhneiging er til staðar hjá mörgum þar að sýna frumlegheit sjálfsins þegar eigin nöfn eru túlkuð og framsett og ekki síður þegar nöfn eru valin á afkvæmin !

Það er jafnvel svo komið að fyrrum góð og gild málfræði verður að víkja þegar nafnaval er annarsvegar. Karlkynsorð og kvenkynsorð eru þá bara gerð að samkynsorðum því allt skal vera frjálst í þessum efnum og vera skýr og lifandi vitnisburður um víðsýna og fordómalausa hugsun, samkvæmt tíðarandanum. En slíkt atferli gegn reglu og skikkan mála getur aðeins átt sér stað í samtíma sem einblínir á orsakir til ávinnings í augnablikinu en hirðir ekkert um afleiðingar til lengri tíma litið. Og í því sambandi skal það undirstrikað, að niðurrif gilda verður aldrei neitt sem á skylt við uppbyggingu !

Í dag er ekki óalgengt að sjá fjölskyldulýsingu með eftirfarandi hætti: „ Sigurlína Sóldís Sigurhjartar og Margrétardóttir  er í sambúð með Kjartani Goða Geirþrúðarsyni og saman eiga þau soninn Kolbjörn Skugga og dótturina Kolgrímu Skímu. Áður átti Sigurlína soninn Eldgrím Orra og Kjartan dótturina Mildu Mánadís. Sigurlína starfar sem menningarfulltrúi með sérfræðiþekkingu og Kjartan er yfirumsjónarmaður kerfisfræðimála hjá ríkinu !"

Það virðist mega lesa út úr texta af þessu tagi, að þarna sé eitthvað stórkostlega flott á ferðinni, eitthvað óbundið af öllu því sem er gamaldags og ekki forsvaranlegt í glæstu núinu !

En ekkert er nýtt undir sólinni og fólk í dag hefur ekkert fram yfir það fólk sem áður hefur lifað í þessum heimi. En það hefur sýnilega í mörgum tilvikum skammtað sér svo ríflega meðgjöf af hroka og gráðutengdum hégóma, að það yfirgengur líkast til allt það sem áður þekktist í hliðstæðum efnum ! Í arf af því taginu frá fyrri tímum hefðu menn þó eiginlega síst átt að sækja, því þar leiðir ekkert til göfgunar mannsandans en hinsvegar allt til FALLS !

Margt varðandi hégómadýrð fólks og mikillæti er auðvitað afar hlægilegt í sjálfu sér og sýnir hvern sem upphefur sjálfan sig í raun enn aumingjalegri en ella, í andlegri vesöld og nöktum yfirborðshætti. Þeir eru nefnilega margir sem sífellt eru að burðast við að verða meiri menn sem aldrei hafa náð því að verða menn !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 120
  • Sl. sólarhring: 167
  • Sl. viku: 689
  • Frá upphafi: 365587

Annað

  • Innlit í dag: 116
  • Innlit sl. viku: 601
  • Gestir í dag: 116
  • IP-tölur í dag: 114

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband