Leita í fréttum mbl.is

Borg græðginnar !

„Ef hæst gala raddirnar ágirndar óðar

og ofbeldið ræður um götur og torg,

þá sést það er ógæfa íslenskrar þjóðar

að eiga sér þvílíka höfuðborg !"

Margar borgir heimsins eru kenndar við einhver sérkenni sín og við Íslendingar sem erum þó það gæfusamir að ekki skuli vera nema ein borg í landinu, ættum trúlega að geta séð fyrir okkur ýmislegt sem gæti sem best verið sérmerking á Reykjavík !

Einhverjum gáfnaljósum á „hámenningarsvæðinu syðra", og þá á ég við Reykjavíkurtorfuna eins og hún leggur sig, hefur víst helst hugnast að tala um höfuðborg Íslands sem Sódómu og vel má vera að það heiti geti verið einna markvissast til að undirstrika sérkenni þessa eina óðaþéttbýlisstaðar landsins. Á árunum fyrir hrunið þótti líka sumum veglegt og við hæfi að tala um Davíðsborg eða Babylon norðursins en eftir hrunið var mörgum efst í huga að tala um höfuðborgina sem borg óttans !

Bæði var þar vísað til þess að borgin væri full af óttaslegnu fólki sem væri hrætt um sinn hag fyrir óþjóðlegum yfirvöldum og siðspilltum skíthælum í fjármálalífinu, sem að sið ofalinna gulldrengja glefsuðu í allar áttir - og svo til þess - að fólk um allt land væri hrætt við það hvað ráðandi öfl í Reykjavík gerðu af sér næst þjóðinni til óþurftar og skammar !

Við skulum nefnilega ekki gleyma því að efnahagshrunið var að öllu leyti afsprengi þess valds sem hefur hreiðrað um sig í stofnunum og sorabælum kerfisins syðra, í krafti spillingar þeirrar sem vex og hefur vaxið þjóðinni til vansa í Reykjavík og sendir enn þann dag í dag hugarfars-eitrun sína eins og andlega gasárás út um Íslands byggðir frá þessari alræmdu tauhálsatorfu landsins !

Það Holuhraungos spillingarandans í Reykjavík er búið að vera þjóðinni dýrt, enda hefur það umsnúið heilbrigðum gildum í þessu landi svo hrikalega á tiltölulega skömmum tíma, að það er vandséð hvenær sá skaði verður bættur að einhverju marki í manngildislegum skilningi.

Allt þjóðfélagið er nú - sem lengi undanfarið - svínbeygt í þá stöðu, að þjóna undir reykvíska spillingu, þannig að landsbyggðin er í raun stöðugt arðrænd til að hægt sé að metta þá blóðsuguhít sem þenst sífellt út í höfuðborginni og er þegar orðið siðvillumein og andlegt krabbameinsæxli á þjóðarlíkamanum !

Ég sem Íslendingur er því hreint ekki stoltur af Reykjavík og þeim anda sem þessi höfuðborg okkar gengst fyrir. Ég fyrir mitt leyti gæti helst hugsað mér að Reykjavík væri nefnd eftir einu helsta framkomu-sérkenni sínu, því hún er sannarlega réttnefnd borg græðginnar !

Það er skrítið að í höfuðborg landsins skuli nánast alfarið ráða þau óþjóðlegustu öfl sem þekkjast hérlendis og ég vil meina að þar ríki á valdsins vegum -  óíslenskur andi !

Sú var tíðin að Íslendingar voru ein þjóð og samhjálp og samstaða voru boðorð sem mikils voru metin. Í árdaga fullveldis og síðan sjálfstæðis voru menn almennt samhuga um það að hafa bæri heiðarleg og réttsýn gildi að leiðarljósi og kristin sjónarmið varðandi breytnina við náungann. Nú er öldin önnur !

Dansinn í kringum gullkálfinn sem leiddi til efnahagshrunsins og skipbrots hags þúsunda landsmanna, virðist ekkert hafa kennt þeim sem með völdin fara í þessu landi. Ýmis spillingarmerki græðginnar eru sýnilega á uppleið á ný og enn sem fyrr er ljóst að andavaldinu í Reykjavík er stýrt og stjórnað frá ónefndum stað. Og þrátt fyrir slíkan ófögnuð eru dæmin til um það, að ráðamenn slegnir blindu biðji - og það fyrir augum þjóðarinnar - Guð að blessa allt svínaríið !

Hinn ráðandi andi í höfuðborginni er sýktur af yfirgengilegri græðgi, óþjóðlegri hugsun sem gengst fyrir sálarlausri fíkn í peningalegan hagnað. Það snýst allt um arð og ávinning í borg græðginnar. Sanngirni í viðskiptamálum er þar á sextugu djúpi. Traust verður fljótt óþekkt fyrirbæri þar sem græðgin ríkir og aldrei hefur traust á milli manna verið minna hér í þessu landi en það er nú í innmúruðum og innvígðum heimareit höfuðborgarhrokans !

Venjulegt fólk sem býr í Reykjavík fær engu um þetta ráðið. Það er í sömu stöðu og allir aðrir sem verða fórnarlömb græðgisandans, kerfishrokans og banka-blóðsuganna. Það vill vafalaust fá að lifa í heilbrigðu umhverfi, en það er bara ekki boðið upp á slíkt í Reykjavík - á handrukkunar siðleysusviðinu syðra !

Hin svörtu höfuðborgaröfl  æpa stöðugt - í algleymi frjálshyggjunnar - á meira fé og meiri gróða, kalla á annað hrun og aðra kollsteypu. Við þær aðstæður sjá þau sér til fagnaðar og hagnaðar skapast forsendur fyrir meiri eignatilfærslur en nokkurntíma væri unnt að framkalla við eðlilegar forsendur. Eftir slíku tækifæri horfir hákarlamafían allar stundir með augun rauð af ágirnd og blóðþorsta !

Þá er hægt að ræna og rupla og ganga frá almennum fjárhag venjulegs fólks í eitt skipti fyrir öll. Mammonsvald markaðshyggjunnar skal öllu ráða og tryggja það að fjármagn sé þar sem það á að vera - að áliti hinnar svörtu mafíu. Þar er ekkert þjóðlegt eða gott á ferðinni !

Er hægt að breyta þessu ? Er hægt að skapa á ný þjóðlegar og heilbrigðar stoðir mála í höfuðborg þar sem svartnætti græðgi og ótta ríkir, þar sem ekkert traust er til staðar í samskiptum og enginn kærir sig um að þekkja annan á stigagangi í fjölbýlishúsi, þar sem sú skoðun virðist orðin ríkjandi að samskipti við aðra bjóði aðeins upp á vandræði ?

Ég veit það ekki, en ég veit að við verðum að reyna allt til að breyta þessu, því hugarfar græðginnar má ekki ráða í höfuðborginni með gjörspilltum anda sínum og eitra frá sér út um allt land eins og verið hefur. Það væri bein ávísun á endanlegt hrun íslensku þjóðarinnar !

Reykjavík má ekki halda áfram að vera eitt allsherjar arðránskýli á líkama þjóðarinnar. Það verður að skera á meinið og rista hið illkynjaða æxli burt með þeim sársauka sem því mun óhjákvæmilega fylgja. Íslendingar verða að endurheimta höfuðborg sína sem fyrst úr höndum hinnar svörtu hákarla-mafíu !

Þjóðarheill er í veði !

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.12.): 206
  • Sl. sólarhring: 377
  • Sl. viku: 1062
  • Frá upphafi: 358533

Annað

  • Innlit í dag: 201
  • Innlit sl. viku: 911
  • Gestir í dag: 199
  • IP-tölur í dag: 199

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband