Leita í fréttum mbl.is

Litli fingur aurapúkans - sjálfstæðisflokkspassinn !

En hvað það er ónáttúruleg niðurstaða, enda fædd af sérgæðingsanda sjálfstæðisflokksins, að ætla að láta þjóðina borga fyrir að fá að sjá sínar eigin náttúruperlur. Og þetta er flokkurinn sem segist yfirleitt berjast fyrir lækkun skatta. Og svo á að skattleggja almenning í landinu með þessum hætti ?

Ég spyr, hefur íslenskur almenningur valdið einhverjum sérstökum átroðningi á umræddum stöðum ? Er það ekki viðkoman utan frá sem gerir það, fólkið sem kemur hingað frá öðrum löndum, þúsundum saman, er það ekki það sem veldur þessum allt of mikla átroðningi !

Og ættu þá ekki þeir sem eru gerendur að þessu ásamt þeim sem eru að græða á þessum hlutum að greiða fyrir átroðninginn ? Allt ferðamálabatteríið sem vill bara stinga hverri krónu í vasann en ekki borga fyrir neitt, vill bara plúsa og enga mínusa !

Æ, ekki fara að tala um hvað þjóðin græði á þessu, það er ekki málið, það er ekki það sem er höfuðatriðið, aðalmálið er miklu frekar, eins og löngum áður, að hygla einkaaðilum – að þessu sinni í ferðamennsku - á kostnað þjóðarinnar. Að þjóðin borgi sérskatt en einkaaðilarnir fitni eins og svín !

Svo er þetta nafn náttúrupassi alveg fáránlegt ! Það mætti halda að þetta væri eitthvað sem menn þyrftu að hafa með sér á fund léttlætiskvenna ? Auðvitað ætti þetta að heita einhverju öðru nafni sem undirstrikað gæti beinskeytt hvað þarna er á ferðinni, sem nýr kafli í aukinni skattheimtu !

Það mætti kalla þetta sjálfstæðisflokkspassann eða skattinn, svo það gleymist nú ekki hver flokkurinn var sem kom þessu á, já eða Ragnheiðarpassann, svo það minni á ráðherrann sem þjónustaði gráðugt sérhagsmunaliðið með þessu undir yfirskini þjóðarþarfar. Það væri gott að hafa það á hreinu svona seinna meir, þegar mikill meirihluti þjóðarinnar verður farinn að skilja hvílík della þetta var og rangt að byrja á þessu. Þetta mun nefnilega vefja upp á sig vitleysuna og hlaða skömm ofan á skömm !

Það hafa fyrr verið teknir upp skattar sem hafa átt að vera um takmarkaðan tíma, vegna einhverra tímabundinna aðstæðna, en niðurstaðan hefur oftast orðið sú að þeir hafa orðið fastir í kerfi sem heimtar alltaf meira og meira fé til sinna þarfa þó það skili sér oftast afar illa til fólksins og almenningsþarfa. En á Íslandi er fjárheimta til hyglingar einkaaðilum alltaf sett fram undir því fororði að það sé verið að gera eitthvað fyrir þjóðina. Slíkar álögur byrja alltaf með blekkingar-aðferðum !

Þetta náttúrupassadæmi gæti verið litla fingurs byrjunin á því að þjóðinni verði bara úthýst frá sínum náttúruperlum fyrir fullt og allt. Að auðmenn kaupi upp fossa og flottar lendur og svo komi ígildi hinna amerísku skilta upp hér og þar um Ísland : „No Trespassing !“, „Private property !“ and so on !

Já, þá verður gaman að eiga heima á Íslandi eða hitt þó heldur þegar ALLT er endanlega orðið FALT og uppkeypt og komið í eigu íslenska blóðsuguaðalsins, kvótagreifanna, landgreifanna, fjármálamafíunnar, skilanefndasjakalanna og kerfissóðanna og allra erlendra félaga þeirra !

Íslenskur almenningur verður þá náttúrulega rúinn öllu nema kannski sinni eigin innanhúðar náttúru – ef hún verður þá ekki lögheft eins og í gamla daga, þegar fátækt fólk mátti helst ekki fjölga sér, svo það kæmi ekki óorði á sveitina eða hreppinn, að áliti drullusokkanna sem réðu á þeim tíma og níddust á öllum smælingjum mannlífsins !

Það er vitað mál að skattur sem sjálfstæðisflokkurinn vill koma á, er til að styðja einkaframtakið á kostnað almennings. Þannig hefur alltaf verið haldið á málum af hálfu Stóra þjóðarógæfuflokksins. Komugjald til landsins væri miklu rökréttari leið, því þá væru þeir að borga sem ættu að gera það, en það vilja fjarstýrðir valdamenn ekki heyra og bera jafnvel fyrir sig að reglur erlendis frá komi í veg fyrir það.

En það er virkilega skrautleg afsökun frá valdhöfum sem hafa brotið reglur erlendis frá hvenær sem það hefur þjónað sérhagsmunum einkavinanna hérlendis. Sú spurning liggur líka í loftinu - hverjir skyldu nú halda í raun og veru um taumana í þessu skítamáli sem er auðvitað kallað þjóðþrifamál ?

Ég myndi aldrei fara á Þingvöll og borga fyrir það ! Ef þetta er náttúruperla þjóðarinnar þá á mér sem Íslendingi að vera frjáls að fara á Þingvöll hvenær sem ég vil. Og ég vil ekki vera arðrændur á slíkum stað. Ef það á að fara að selja aðgang að svona stöðum þá hætta þeir að vera náttúruperlurnar OKKAR, þá glata þeir smám saman gildi sínu í augum fólks, þá verða þeir bara náttúruperlurnar ÞEIRRA, aðilanna sem stefna að því að koma sem víðast upp skiltunum BANNAÐUR AÐGANGUR – og þá er átt við að venjulegt fólk eigi ekki að ganga þar um – authorized persons only – takk fyrir !

Við borgum skatta og skyldur sem íslenskir borgarar, en skattur af þessu tagi, viðbótarskattur, á þjóðina fyrir átroðning annarra, er óþjóðleg krafa og runnin undan rifjum þeirra sem aurapúkinn á með húð og hári. Það virðist sem græðgishugsunin frá fyrirhrunsárunum sé enn að velta sér á Valhallarplussinu ?

Það á að senda náttúrupassann, sjálfstæðisflokkspassann, Ragnheiðarpassann, hvað sem menn vilja kalla þessa dellu, þangað sem menn sendu þegnskylduvinnuna á sínum tíma, inn í fortíðina með stimplinum - VÍTI TIL VARNAÐAR !

Enginn verður af því sæll

eftir reglugerðum,

að lifa hér sem lotinn þræll

með landsins þunga á herðum !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 43
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 849
  • Frá upphafi: 356694

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 659
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband