Leita í fréttum mbl.is

"Við erum fjölmenningarsamfélag" ?

Oft heyrir maður þessa staðhæfingu sem er yfirskrift þessa pistils. Um daginn var hún viðhöfð enn einu sinni í umræðuþætti í Kastljósi. Ég spyr hvenær urðum við fjölmenningarsamfélag, hvenær samþykkti íslenska þjóðin í frjálsum almennum kosningum að hér yrði upptekið svokallað fjölmenningarsamfélag ? Mér vitanlega liggur engin þjóðfélagsleg samþykkt að baki þessari síendurteknu staðhæfingu !

Og ég vil spyrja, er hægt að gjörbreyta samfélagslegum áherslum og gerð og grunni íslensks þjóðfélags með einhverjum hundakúnstum fámennrar valdaklíku sem virðist að mestu með bæði augu sín bundin við sýn út til Brussel, en sér lítið sem ekkert til mála hér innanlands ?

Ég er ekki fjölmenningarsinni og verð það áreiðanlega aldrei. Ég þekki fullt af fólki sem vill bara fá að rækta íslenska þjóðmenningu í friði á þeim grunni sem reistur var af fyrri kynslóðum. Það er að minni hyggju fátt í þessari svokölluðu fjölmenningu sem mun verða landi og þjóð til heilla í framtíðinni. Ávextir fjölmenningarstefnunnar eru þegar farnir að birtast með ýmsu móti um alla Evrópu og þar er margt ískyggilegt á ferð svo ekki sé meira sagt.

Múslímar í hundraðatali sem flykkst hafa frá friðsamlegum lífskjörum í evrópskum löndum til að berjast með öfgahreyfingum heilags stríðs í Sýrlandi og víðar, eru afsprengi og sjálfgefin niðurstaða fjölmenningarstefnunnar – hins ósjáandi umburðarlyndis ! Framferði þeirra sýnir ljóslega við hverju má búast, þegar fram í sækir, í evrópskum „heimalöndum“ þeirra. Þessir menn fóru hollustulausir við þau lönd „að heiman“ og koma enn skemmdari til baka !

Það hefur aldrei þótt vitræn afstaða að fljóta sofandi að feigðarósi, en það er einmitt það sem mörg Evrópuríki eru að gera um þessar mundir og þar eru Norðurlöndin ofarlega á blaði. Það er fjölmenningarstefnan sem hefur á undanförnum árum rist öryggishjúpinn öðru fremur frá þessum ríkjum og skilið þau eftir berskjölduð á víðavangi vitleysunnar fyrir hættum sem nú vaða uppi. Þær hættur voru ekki áður til staðar vegna þess að þá voru ráðamenn vakandi fyrir hagsmunum landa sinna og því sem dómgreindarlegast verður talin eðlileg þjóðarheill !

Nú virðast sumir vilja rífa allt niður sem ætti að eiga samleið með eðlilegri þjóðarheill. Það er stöðugt ráðist á allt varnareftirlit í þeim efnum, af þeirri ábyrgðarlausu menntaelítu sem veitir fjölmenningar-stefnunni brautargengi, til að auglýsa eigið víðsýni, frjálslyndi og fordómaleysi. Þar er um að ræða tækifærissinnað stundarhagsmunafólk sem alltaf er tilbúið að teyma þjóðfélagið fram af ystu nöf og þykist svo eftir á þegar það sér illar afleiðingarnar aldrei hafa komið nálægt neinu. Það er fólkið sem er svo haldið af hinni samevrópsku kratabakteríu varðandi þessi mál, að það gleymir fyrir hverja það á að starfa og verður óþjóðlegt fyrir bragðið. Fulltrúa slíkrar samfélagssýkingar virðist hægt að finna í öllum flokkum nú til dags !

„Við erum fjölmenningarsamfélag“ segir þetta fólk æ ofan í æ, líklega í þeirri von að það geti kæft öll andmæli með því að endurtaka þetta nógu oft. En þessi staðhæfing á sér enga lýðræðislega staðfestingu á Íslandi og ég sem íslenskur ríkisborgari neita að taka hana gilda nema þjóðin staðfesti hana með jáyrði í frjálsum almennum kosningum !

Ég er sannarlega orðinn hundleiður á þeim lygafrösum og því lýðskrumi sem er orðið daglegt brauð hérlendis og hef megnasta ógeð á þeirri samtryggingarelítu sem mylur allt undir sig í sölum valdsins hjá þessari litlu þjóð. Og ég spyr enn og aftur, ætlum við aldrei að eignast frambærilegt forustufólk ?

Það er sama hvort um karl eða kellingu er að ræða í opinberri stjórnmálaumræðu dagsins, þar virðist allt hið ráðandi lið ofurselt einhverjum sýndarveruleika sem á enga samleið með lífi og starfi fólksins í landinu. Við erum ekki staðfest fjölmenningarsamfélag, en það er svo að sjá og heyra sem andi fjölmenningarstefnunnar hafi drottnað á alþingi til margra ára og þvegið úr þingmönnum alla sjálfstæða, þjóðlega hugsun, svo þeir virðast haldnir af síbylgjustefi sem gengur út á eitt og tónar stöðugt : – Vegir liggja til allra átta, enginn ræður för !

Og það er kjarni málsins ! Fjölmenningarsamfélag er nefnilega stefnulaust viðrini. Það sér vegi til allra átta, en enginn þeirra ræður för, ekki fyrr en eitthvað tekur yfir sem markar ákveðna stefnu. Og það verður líka með einhverjum hætti fyrr en síðar. En þá er það spurningin, hvernig verður sú yfirtaka, hvernig umpólast þjóðfélagið þá, verður það í formi borgarastyrjaldar, valdaráns eða hvernig gerist það - að einhverjir taka völdin - í samfélagi sem snýst ekki lengur um hollustu við sameiginleg gildi ?

Er ekki kominn tími til þess, að menn geri sér almennilega grein fyrir því hvað fjölmenningarstefnan þýðir og til hvers hún muni leiða fyrir land og þjóð - til lengri tíma litið - ef fer sem horfir  ?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 48
  • Sl. viku: 806
  • Frá upphafi: 356702

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 633
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband