Leita í fréttum mbl.is

"Týr er að bjarga !"

Enn er okkur Íslendingum boðið að heyra með hreyknum brag í sjónvarpsfréttum að varðskip frá okkur – að þessu sinni Týr - sé að bjarga flóttafólki suður á Miðjarðarhafi. Það er í sjálfu sér ágætt mál að verið sé að bjarga fólki hvar sem er og auðvitað eins á þessum slóðum, fólki sem líklega er að flýja einhverja slæma hluti í heimalöndum sínum og vill komast eitthvað þangað sem betur getur farið um það.

Ítalska strandgæslan hefur til dæmis verið að standa sig vel í þessum hlutum, enda er það mjög skiljanlegt að hún sé til staðar á Miðjarðarhafi, í sinni lögsögu, en mér er spurn, hvað er íslenskt varðskip að gera þarna, hvað er íslenska landhelgisgæslan, fiskveiðilögsöguliðið okkar að starfa á þessum slóðum ?

Eru engin verkefni hér heima, er ekki lengur nauðsyn á því að vakta okkar lögsögu, voru varðskip okkar ekki ætluð til þess ? Og ef ekki þarf að hafa skip til að fylgjast með málum í okkar lögsögu til hvers erum við þá með þessi skip ? Er ekki staða ríkisfjármála þannig að við ættum að halda sparlega á málum og selja þau skip sem ekki sýnist nauðsynlegt að reka hér heima fyrir ?

Jú, staðan þar er auðvitað eins og allir vita, búið að ræna og rupla vítt og breitt og eignir ríkisins hafa margar hverjar horfið ofan í hákarlakjafta, en fyrirhyggjusnauðir ráðamenn virðast líta svo á að einhver veldisbragur þurfi samt að vera á hlutunum þó engin séu efnin til þess.

Og því virðist sem skipum frá gæslunni sé haldið úti á fjarlægum höfum og tilgangurinn sé að afla tekna svo við höfum efni á því að reka þau. Þau er ekki varðskip fyrir okkur og okkar lögsögu meðan svo er, það er engin íslensk strandgæsla í fullum gír meðan svo er.

Þessi tilhögun á málum, þetta rekstrarlag á skipum gæslunnar, er enn eitt talandi dæmið um þá mikilmennsku íslenskra yfirvalda sem endar jafnan í glórulausum aumingjaskap !

Og til þess að breiða yfir þá staðreynd að varðskip okkar eru ekki notuð hér til þess sem þau eru ætluð fyrir, er sífellt verið að kynna það í gegnum fréttir hvað „við“ séum að gera góða hluti þarna suðurfrá á Miðjarðarhafinu ! En það er forðast að tala um það hversvegna í ósköpunum við séum á þessum þvælingi þarna niður á „mare nostrum“ með strandgæsluskipin okkar ! Það ætti bara að bjóða Sameinuðu þjóðunum að reka skip sem eru orðin flóttamannaskip með þessum hætti ! Það ætti sannarlega að vera í þeirra verkahring en ekki okkar !

Nýi Þór sem hafin var smíði á í Chile 2007 og var ekki tilbúinn fyrr en síðsumars 2011, var sagður við komuna til landsins vera tákn um nýja tíma. Mikil slepja og yfirlýsingagleði var viðhöfð af ráðamönnum við það tækifæri. En líklega hefur aldrei verið eðlileg, fjárhagsleg geta að baki því að láta smíða þetta nýja skip, enda var byrjað á því fyrir hrun meðan skýjaborgavitleysan var enn í fullum gangi og við Íslendingar, örþjóðin við ysta haf, þóttumst vera stærstir, mestir og bestir í öllu – ekki síst fjármálum !

Við eigum náttúrulega að hætta öllum leikaraskap og blekkingum og skýra frá málum eins og þau eru í veruleikanum. Íslenskt varðskip er ekki staðsett á Miðjarðarhafi af mannúðarástæðum eða í kærleiksskyni. Það er þar algjörlega á forsendum efnishyggju sjónarmiða, af fjárhagslegum hagsmunaástæðum, af því að rekstrarbatteríið er með tómahljóð í kassanum !

Í stað þess að fækka skipum gæslunnar sem sjáanlega eru engin efni til að reka með heimafengnum böggum, er gripið til þessa – mér liggur við að segja - örþrifaráðs. Þar er verið að teygja sig langt til að ná í peninga fyrir stofnun sem er greinilega svo fjársvelt að hún er varla fær um að sinna opinberu hlutverki sínu !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 200
  • Sl. sólarhring: 207
  • Sl. viku: 1005
  • Frá upphafi: 356901

Annað

  • Innlit í dag: 174
  • Innlit sl. viku: 806
  • Gestir í dag: 167
  • IP-tölur í dag: 166

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband