Leita í fréttum mbl.is

Er gerlegt að segja gleðilegt sumar ?

Þá er dagatalið að segja okkur að vetur sé liðinn ! Það er fagnaðarefni því flest erum við líklega sólskinsbörn í hjörtum okkar. Veðurfarið í vetur hefur óneitanlega verið nokkuð sviptingasamt og heldur þreytandi. Það hafa gengið stöðugar lægðir yfir landið. Það er því flestum farið að lengja eftir sól og blíðu og gott væri að sumarið ætti sem mest af slíku fyrir landsfólkið.

Það eru hinsvegar ýmis skuggaský á himni lífs okkar og margt sem segir okkur að þrátt fyrir mikið tal um miklar auðlindir lands og sjávar sé það enn sem fyrr ákveðin stefna auðvaldsafla landsins að venjulegt fólk eigi ekki að njóta þeirra í neinu. Almennir launþegar virðast nánast eins og þrælar í augum gróðapunga sem hafa erft auð og allsnægtir og hafa aldrei kynnst því hvað það er að heyja lífsbaráttu. Lífskjaralægðir eru því sem löngum fyrr almenningsfylgja á Íslandi.

„Ákvarðanir sem teknar eru á stjórnarfundum eru óafturkallanlegar, þetta er búið og gert,“ sagði nýlega einn úr slíkum gróðapungahópi um tiltekið mál. Það er beinlínis eins og að ætlast sé til að hnötturinn fari út af brautinni að fara fram á eitthvað slíkt. Það er sjáanlegt á öllu að íslenskur hroki stendur erlendum hroka hvergi að baki !

Og fjármálaráðherrann veit nákvæmlega hvað hægt er að skenkja láglaunafólki og hvað landið þolir í þeim efnum, alveg upp á krónu. Þar er um að ræða sama manninn og vissi hvað hann þurfti að skenkja útgerðinni eftir að hann komst til valda og beið ekki boðanna með það. Samt sagðist hann hafa komið að ríkisbúinu í mun verra horfi en hann hefði búist við ?

Hann var bara fúll yfir því að Steingrímur skyldi ekki vera búinn að skíthreinsa ríkisgeirann að fullu eftir sukkið og svínaríið hérna um árið – sem vel á minnst - hverjir stóðu fyrir ?

Það er eins gott að slíkir menn ráða ekki sól og sumri. Ég er hræddur um að almenningur þessa lands sæi ekki mikið af þeim lífshlunnindum ef silfurskeiðungastjórnin ætti að deila þeim gæðum út. Þá yrðu sól og sumar strax gerð að sérhagsmunavöru – fráteknu yndi útvalinna !

En það er hinsvegar ekki gott fyrir fólk að ganga inn í sumarið með allt ástand á vinnumarkaði eins ótryggt og það er nú um stundir. Það er í rauninni hábölvað mál fyrir land og þjóð. En nú er fólki loksins nóg boðið. Nú hefur deigt járn verið brýnt svo það fer að bíta !

Ráðamenn með hugarfari Lúðvíks XVI eru tímaskekkja, meira að segja á Íslandi ! Það er gjörsamlega óþolandi og ómögulegt fyrir almennt launafólk að sitja áfram undir þeirri fyrirlitningu sem því er sýnd með framkomu Samtaka atvinnulífsins og bakhjarls þeirra - ríkisstjórnarinnar. Íspinnastefnan - sem ein virðist í boði – er móðgun við fólk og eins og hráki hrokans á allt sem mennska stendur fyrir. Ef slík stefna á að gilda mun hún granda mun fleiru hérlendis en gott mun þykja !

Samtök atvinnulífsins spila á gamla strengi og reyna enn sem fyrr að hræða fólk með verðbólgutali. Og enn er sagt að verið sé að vinna að því að koma hér upp aðstæðum sem tryggt geti viðunandi kaupmátt ! En þeir hafa sagt þetta í áratugi og aldrei meint neitt með því, enda kemur aldrei neitt út úr þessu jarmi þeirra. Þarna er alltaf verið að vísa til einhvers sem aldrei mun koma fyrir þeirra tilverknað !

Og hvernig á líka að byggja eitthvað heilbrigt upp í landi þar sem engin vitræn fjármálastjórn er til staðar, aðeins sérhagsmuna-fyrirgreiðslupólitík út í eitt !

Það vita áreiðanlega allir almennir launþegar í landinu fyrir hvað núverandi fjármálaráðherra stendur og eins að forsætisráðherrann er ekki fjarri sömu miðum. Það þarf enginn að halda því fram við mig að þessir menn séu með hjarta fyrir almannahagsmunum. Og það er raunköld staðreynd, að aldrei er eins erfitt að semja um mannsæmandi laun við atvinnurekendur eins og þegar þeir vita að andlegir blóðbræður þeirra eru við stjórnvölinn á ríkisfleyinu !

En fólk þarf að hafa eðlileg mannréttindi í þessu landi og það getur verið erfitt fyrir það að njóta sólar og sumars þegar allt annað segir því með bláköldum staðreyndum að engin velferðarstefna í mannfélags-legum skilningi sé til í neinni mynd hjá íslenskum yfirvöldum. Þar stjórni öllu auðklíka sem krefst þess með öllum athöfnum sínum dags daglega að almenningur fái aldrei hlutdeild í auðlindum lands og sjávar.

En við almennir launþegar höfnum íspinnastefnunni og mismununarkerfinu sem enn einu sinni er verið að trekkja upp og krefjumst þess að við okkur verði samið um laun á heilbrigðum grundvelli. Að það sé viðurkennt að við séum manneskjur og að við höfum fyllsta rétt til að njóta sómasamlegra lífskjara í þessu landi – ekki síður en aðrir !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 19
  • Sl. sólarhring: 278
  • Sl. viku: 799
  • Frá upphafi: 356980

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 626
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband