Leita í fréttum mbl.is

Um keisaraföt og klára nekt !

Einu sinni var það svo að fólk þráði menntun til þess fyrst og fremst að gera sig hæfari til þjónustu við land sitt og þjóð. Það var sem sagt hugsjón á bak við menntaþrána, löngun til að verða að liði. Oftar en ekki tengdist þessi hugsjón persónulegri sýn til þjóðlegra verðmæta og vilja til þess að auka þau og gera þau meira gildandi í lífi hvers og eins.

Þannig eignuðumst við sem aðrar þjóðir hugsjónaleiðtoga með heilbrigð samfélagsleg viðhorf, menn sem höfðu hjarta fyrir framtíð eigin þjóðar. Slíkir menn sáðu vel fyrir málum í samtíð sinni og fyrir framgöngu þeirra vissum við löngum fyrir hvað við stóðum og fyrir hvað við ættum að standa og vildum standa í nútíð og framtíð.

Það voru sem betur fer alltaf einhverjir sem vildu takast á við það verkefni að leiða þjóðina að góðum áföngum til almenningsheilla og margir gerðu það af fyllstu trúmennsku og óeigingirni í hvívetna.

En nú er öldin önnur ! Það virðist beinlínis orðið sjaldgæft að hugsjón búi að baki því að fólk sæki til mennta. Það eru allt önnur sjónarmið sem eru drifkraftur mála þar í dag. Það er hinn persónulegi ávinningur, í peningum talinn, það er hið aukna tekjustig sem dregur, það eru fjárhagslegar forsendur og fíkn til frama sem ráða för að langmestu leyti. Í stuttu máli sagt, það er hin vanhelga goggunarröð í samfélagi yfirborðsmennskunnar sem krefst menntunarstigsins nú til dags sem staðfestingar á mannlegu gildi !

Þannig er þjóðfélag okkar í dag. Allir dansa þar sífellt í kringum nýju fötin keisarans sem eru auðvitað engin, en samt þorir ekki nokkur maður að segja sannleikann varðandi hlutina því þá getur verið að hann styggi einhvern sem vís er þá til að bregða fæti fyrir hann síðar á vegferðinni. Allir reyna því að vera allra vinir en enginn er öðrum trúr. Hin fölsku viðhorf fá að ráða alfarið í samskiptum manna á milli !

Kannast menn ekki við sviðsmyndina ? Hún er í sjálfu sér ekki ný frekar en annað í heimi okkar manna, sem byggist á framkomu okkar og ferli á lífsleiðinni. Þar er allt meira og minna endurtekið efni !

En er hið menntunarkrefjandi samfélag að færa okkur eitthvað áleiðis í betri siðmennt og til móts við meiri velferð í mannlegum skilningi ? Nei, verð ég því miður að segja, við erum miklu frekar að deila samfélaginu upp í harðsvíraða réttargæsluhópa sem standa gráir fyrir járnum hver gegn öðrum og sjá ekkert nema eigin hagsmuni. Hjá slíkum sjónarmiðum hinna þröngu eiginhagsmuna er ekkert til sem gefur samfélaginu sem heild gildi. Það viðhorf sem veður yfir allt annað og er til dæmis orðið allsráðandi í sérréttindageiranum er hið eigingjarna síbylgjustef: „ Ég, um mig, frá mér, til mín – annað skiptir ekki máli !“

Við erum með öðrum orðum farin að stunda niðurrif samfélagsins í gegnum það sem átti að vera því til uppbyggingar. Við erum að ofmennta fólk, langt umfram þjóðfélagslegar þarfir og þannig gröfum við í reynd undan framleiðslugreinunum, stórum hluta þess starfssviðs sem stuðlar að vinnuframlagi sem skapar verðmæti og fjölgum stórlega í þeim stéttum sem taka til sín framlag af þessum verðmætum en skila oftast litlu sem engu í staðinn. Samfélagsbyggingin vex sem pýramídi á hvolfi eins og ég hef áður bent á og sem slík er hún dæmd til að falla. Það er bara spurning um tíma !

En græðgisfull gráðuhjörðin sér þetta ekki ! Allir sem dansa með og virðast hafa þá skoðun eina, að þeir megi ekki skemma veisluhöldin í kringum háskólabatteríin, horfa annað þegar staðreyndir mála sýna fram á eitthvað sem þeim líkar ekki. Og í dag verða þeir hinir sömu að horfa að mestu leyti annað, því til þess að sjá ekki sjúkdómsmerki samfélagsins verða þeir að einbeita sér að slíku áhorfi.

Og sóunarstefna þjóðlegra verðmæta heldur því áfram eins og ekkert mæli þar á móti og háskólasamfélagið sem eitt sinn átti að vera háborg og varnarþing íslenskra þjóðfélagsverðmæta og menningar, er nú til dags orðin afskræming þeirra miklu málefna sem það átti að standa fyrir, ekkert nema innantómur fílabeinsturn öfugsnúinnar framadýrkunar !

Hvernig er lýsing Gríms Thomsens á gömlum veisluhöldum ? „Hjá Goðmundi á Glæsivöllum /gleði er í höll, / glymja hlátra sköll, / og trúðar og leikarar leika þar um völl /en lítt er af setningi slegið.“ Og síðar í sama kvæði segir : „ Á Glæsivöllum aldrei /með ýtum er fátt, /allt er kátt og dátt; /en bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt, / í góðsemi vegur þar hver annan.“

„Við krefjumst launa í samræmi við menntun“ er slagorð háskólahópanna, en þar er ekki vikið einu orði að hæfni. Menntunarstig segir í raun afar lítið um hæfni. Þó einhver hafi komist í gegnum skóla með einum eða öðrum hætti, er ekki þar með sagt að hann hafi í rauninni mikla hæfni til að bera. Það kemur í ljós þegar starfið er hafið hver hæfnin er og hver getan er til verka !

Það ætti að sannast þegar viðkomandi menntamaður fer að takast á við verkefnin í lífinu hver hæfni hans er, ef hann fær þá ekki einhverja vel launaða stöðu í krafti menntunar sinnar – sem gerir engar kröfur til hans nema að hirða kaupið sitt. Þannig virðist það nú því miður vera með marga sem flagga óspart menntunarlegu gildi sínu, að þeir eru í gervistöðum, ekki síst hjá ríkinu, að sinna gerviverkefnum, en laun þeirra eru sannarlega ekki nein gervilaun !

Og sá peningur sem fer í slíkt gervilið er tekinn frá okkur hinum sem vinnum og erum ekki gervilið. Þessvegna er aldrei hægt að veita okkur sómasamleg launakjör. Það er yfirleitt lítið sem ekkert eftir þegar kemur að okkur, því venjulegt launafólk er auðvitað það fólk sem síst fær að njóta virðingar í samfélagsbyggingu sem er pýramídi á hvolfi og það fær því ekki að koma að borðinu fyrr en mylsnan ein er eftir. Fyrst þarf græðgisliðið að fá sitt og það ríflega, svo afæturnar, og þessar afætur sem leggja ekki neitt til þjóðfélagsins eru sannarlega orðnar allt of margar á Íslandi !

Keisarinn er kviknakinn og berrassaður í öllum birtingarmyndum veruleikans hérlendis og sérhver ímynd hans er til bölvunar fyrir land og þjóð, ekki síst í háskólalegu samhengi. Það þarf sem fyrst að hverfa frá þessu oflætisfulla og eyðileggjandi menntasnobbi og fólk þarf að einbeita sér að því að bera virðingu fyrir manngildi hvers og eins !

Gráður eru ekki mælikvarði á manngildi og manneskja sem sér um þrif í háskólanum getur haft tvöfalt manngildi samanborið við einhvern uppskrúfaðan prófessor við sama skóla. Það þarf að skúra snobbið burt og það verður bara að hafa það þó það kunni að koma niður á einhverjum litlum sálum sem þarfnast mikilla umbúða um lítið innihald og eru því ekki búnar með masterinn sinn !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 119
  • Sl. sólarhring: 299
  • Sl. viku: 899
  • Frá upphafi: 357080

Annað

  • Innlit í dag: 107
  • Innlit sl. viku: 715
  • Gestir í dag: 107
  • IP-tölur í dag: 106

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband