Leita í fréttum mbl.is

Ísland í dag !

Þegar Íslendingar hlutu fullveldi 1918 og eins þegar lýðveldið var stofnað 1944 voru flestir á því að hér mætti skapa forsvaranlegt smáríki sem ætti að geta haldið stöðu sinni með sóma í samfélagi þjóðanna. Og það vantaði ekki að þjóðin ynni og erfiðaði til að svo gæti orðið. En snemma fór að bera á gömlu meini frá fyrri tíð. Forréttindakolin voru ekki útbrunnin og sérgæskan og sjálfselskan komu fljótt á sviðið. Sumir voru ekki með þá hugsun að leggja sitt af mörkum, sumir hugsuðu eingöngu um að skara eld að eigin köku, að njóta ómælt ávaxtanna af annarra striti !

Slíkir menn gáfu strax skít í ungmennafélagsandann, fyrirlitu samvinnustefnuna og hræktu á allar verkalýðshugsjónir. Það eina sem bjó þeim í huga var að þjóna sjálfum sér og þeir komu að öllum samfélagslegum hugsjónamálum með sérgæskuna innprentaða í merg og bein. Þau eru ófá málin sem menn vildu framkvæma og hefðu getað orðið landi og þjóð til blessunar en voru eyðilögð fyrir tilverknað slíkra hrægamma sem alls staðar voru og eru til ills og bölvunar !

Snemma sáu margir einstaklingar af þessu tagi að best myndi vera að hreiðra um sig hjá ríkinu. Þar yrði alltaf tryggast að vera og nóg um æti. Og þannig byrjaði kerfið að draga að sér eins og risastór segull fjölmarga sem þóttust hafa vilja til að þjóna fólkinu en voru í raun og veru aðeins með það í huga að þjóna sjálfum sér. Og oftar en ekki fór svo að sú þjónusta varð beinlínis á kostnað fólksins með ýmsum hætti. Og eins og uppmögnunar-apparat hinnar öfugu þjónustu í sjálfvirkum gír, fór ríkiskerfið að þenjast meira og meira út, þar sem fleiri og fleiri fundu sér spena í þjónustubákni sem varð brátt þess eðlis að það snerist aðallega um þjónustuna við eigin launaliði.

Íslenska farsældaríkið varð því aldrei að veruleika. Og aðrir lærðu af þeim sem komu sér fyrir í ríkiskerfinu. Það var svo sem hægt að hafa það náðugt víðar. Þegar frumherjar verkalýðshreyfingarinnar féllu frá, tóku aðrir við sem fóru að iðka sérgæskusiðina þar á bæ og týndu öllum áttum varðandi hugsjónir og annað. Samvinnuhreyfingin lagði upp laupana því þar var ekki lengur um neina samvinnu að ræða – bara sérvinnu. Og jafnvel ungmennafélagshreyfingin og íþróttahreyfingin smituðust af uppdráttarsýki sérhyggjunnar og þar fór allt að snúast um afreksfólk og peningalegan gróða en ekki hin upprunalegu markmið - ræktun lands og lýðs !

Já, ríkiskerfið fór á undan á ófarnaðarbrautinni og lagði línurnar og eftir höfðinu dansa limirnir. Og við þekkjum afleiðingarnar og það kerfi sem fyrir löngu er orðinn andfélagslegur ófagnaður. Við finnum að velferð fólksins í landinu er orðið aukaatriði en velferð fólksins í ríkiskerfinu aðalatriði. Við finnum að þjóðræktarleg viðmið eru ekki virt lengur í íslenskri stjórnsýslu og þykja gamaldags og úrelt. Auðhringur sérgæskunnar hefur sogað inn í græðgishít sína fyrri þjónustulund og fórnarvilja manna og tortímt heilbrigðum samfélagsmiðum.

Í landfræðilegri viðmiðun er ríkiskerfið eins og versta þúfnastykki. Þar eru mosavaxnar þúfur út um allt. Þó það hafi alltaf verið sagt og sé sagt enn í dag, að verið sé að slétta og rækta fallegt heimatún fyrir okkur öll, já, íslensku þjóðina eins og hún leggur sig, þar sem ríkiskerfið er, fjölgar þúfum þar jafnt og þétt og ekki síst þeim mosavöxnu.

Það er erfitt að rækta eitthvað gott þar sem ræktarleysi við land og þjóð virðist beinlínis í hávegum haft og óháðir sérfræðingar valta yfir allt í vaðandi lærdómshroka og af fullkomnu ábyrgðarleysi.

Og þegar kostnaðarsöm mistök eru gerð í málefnum þjóðarbúsins sem gerist nú býsna oft, er engum sagt upp, en sama vandræðaliðið fær að halda áfram að verja það sem ekki er hægt að verja, með tilheyrandi útgjöldum fyrir land og þjóð. Við þekkjum Landeyjahafnarvitleysuna, tölvukerfiskaupa-klúðrið, ríkiseignasölumálin þar sem gleymdist að innheimta söluverðið, fjármálaeftirlits-eftirlitsleysið o.s.frv.o.s.frv. Og milljarðar sem ættu með réttu að fara í að bæta velferð fólksins, fara eins og eftir föstu lögmáli í alls konar vitleysu og hafna oftast að lokum eftir flókna færibandaleið í vösum alikálfa og sérgæðinga sem eiga sér pólitíska verndaraðila sem hafa komið sér vel fyrir innan ríkiskerfisins.

Þannig er Ísland í dag ! Hér treystir enginn neinum lengur, allra síst yfirvöldum, sem eru síðasta sort. Silfurskeiðungastjórnin mun brátt renna sitt skeið og þjóðin bíður eftir að losna við forréttindagaurana Bjarna og Simma. Svo langt er vantraustið gengið að píratar eru það eina sem menn virðast binda vonir við nú um stundir. Og raunar ætla margir greinilega að kjósa þá til þess eins að lýsa frati á hina !

Eitt sinn var talað um að ekki væri hægt að sjá skóginn fyrir trjám. Það er eins með spillinguna á Íslandi, hún er orðin svo mikil og alltumlykjandi að menn koma ekki auga á hana, hún er orðin samofin öllu og daunninn finnst ekki því hann er alltaf í nösunum svo enginn virðist vita lengur hvað hreint loft er í kerfislegum skilningi. Menn verða smám saman háðir því sem þeir anda að sér og hér anda menn aðallega að sér andlegum spilliefnum. Og aðalspillingin þrífst auðvitað í aðalkerfinu – þar sem heilbrigð, þjóðleg hugsun er löngu hætt að þrífast !

Af hverju fæddist maður ekki sem Færeyingur !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 112
  • Sl. viku: 837
  • Frá upphafi: 357105

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 680
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband