Leita í fréttum mbl.is

Evrópusambandskleppurinn !

Evrópusambandið má heita undarlegur kleppur ! Það hefur í raun aldrei verið auðvelt að sjá í hverju stefna þess hefur verið fólgin. Hún er ýmist út og suður og í vestur, en líklega lítið í austur. Þegar öllu er á botninn hvolft hefur Evrópusambandið lengst af verið lítið annað en nokkurskonar afleggjari og leyndarútibú hins bandaríska auðvaldsheims.

Það er að vísu stöðugt að sýna sjálfstæða takta til að auka gildi sitt, en í reyndinni er því meira og minna fjarstýrt að vestan. Þessvegna er líka svo erfitt að henda reiður á stefnu þess, því stundum eru menn búnir að segja eitt og jafnvel byrjaðir að gera annað þegar fyrirmæli koma að vestan og setja allt í steik. Allt gerist það auðvitað að tjaldabaki og í skuggaveröldinni þar - því enginn vill yfirleitt viðurkenna að hann sé annars leppur – eða kleppur !

Þegar Sovétríkin hrundu gengu Rússar út frá því að fyrri samningar um áhrifasvæði yrðu lagðir til grundvallar nýrri heimsskipan. En málið var ekki svo einfalt. Rússar áttu að vísu kjarnorkuvopn og því þótti skynsamlegt að herða ekki mikið að þeim, en ásælnin byrjaði samt fljótt með ýmsum hætti. Það varð bara að nota hið einstæða tækifæri til að skipa málum upp á nýtt !

Meðan Jeltsin var við lýði var hægt að dylja eitt og annað nokkuð vel vegna þess að hann virtist oft og tíðum varla vitandi þess sem fram fór í kringum hann. Á síðustu valdaárum sínum var hann gjörsamlega út úr korti og alls kyns lið óð uppi og stal öllu steini léttara af eigum ríkis og þjóðar. Spillingin var yfirgengileg og afglöpin sem gerð voru legio. Þá risu hinir illræmdu oligarkar til auðs og valda og engum var þá meira skemmt en hugarfarslegum lagsbræðrum þeirra í Wall Street !

Og þótt Jeltsin væri nánast að verða eins og lifandi lík, þótti nauðsynlegt að notast við hann sem lengst og læknar voru jafnvel sendir frá Bandaríkjunum til að hressa upp á karlinn. Þannig tókst að koma honum í gegnum síðustu kosningarnar sem hann stóð í en þá var hann í raun og veru óframbærilegur valkostur fyrir þjóð sína, heilsulaus og farinn maður. Fyrri vinsældir hans héldu stöðugt áfram niður á við og voru nánast að engu orðnar þegar hann var látinn segja af sér. Sagt var að hann hefði valið sinn eftirmann og velþóknun Vesturlanda og þá sérdeilis Bandaríkjanna fylgdi því vali. Vladimir Putin kom þá á sviðið, lítill og snaggaralegur - og að menn töldu - til þjónustu reiðubúinn !

Svo átti spilið bara að halda áfram, grafið skyldi undan málum hér og þar og stefnt að aukningu áhrifasvæða fyrir vestræna pólitík, allt á kostnað áhrifa Rússa. En nú var komið að því að mönnum innan rússneska stjórnkerfisins, og það hreint ekki svo fáum, var ekki farið að lítast á blikuna, það virtist eiga að smækka Rússland niður í eitthvað afskaplega lítið og þeim hugnaðist það enganveginn. Menn fóru að bera stöðuna saman við fyrri daga þegar Sovétríkin voru og hétu og samanburðurinn var alls ekki mönnum að skapi. Sagan sýnir líka að það er ekki til það ríki í heiminum sem hægt er að svínbeygja öðruvísi en það hafi sínar öfugu afleiðingar !

Ný staða kom upp og Rússar fóru í auknum mæli að standa í lappirnar gagnvart áganginum að vestan og þeir sem fleiri lærðu að nýta sér „War against Terror“ með ýmsum hætti sínum málum til framdráttar. Og mörgum til furðu kom allt í einu upp sú staða að Vladimir Putin fór að verða einhverskonar rússnesk ímynd um styrk og ósveigjanleika, og sennilega hefur það komið honum sjálfum í fyrstu allra mest á óvart. En hann varð nokkuð skyndilega nánast eins og samnefnari við De Gaulle þegar Frakkland var komið í skítinn 1940. Sá stórfranski gíraffi þrástagaðist þá á því að Frakkland væri stórveldi þó allt mælti því í mót og með þráanum hafði hann sitt í gegn. Rússland var eiginlega samsvarandi komið í skítinn um tíma, en hernaðaraðgerðir í Tsjetsníu og fleira kom Rússum til að endurheimta hluta af sínum fyrri valdsmannsbrag. Þeir fóru að hugleiða það í alvöru að þeir væru nú enn stórveldi og öðrum þjóðum bæri að viðurkenna það og sýna þeim hæfilega virðingu – með góðu eða illu !

Og síðan hafa mál þróast með þeim hætti að ný gjá hefur verið að myndast milli Vesturveldanna og Rússlands og viðhorfið til Putins hefur versnað að sama skapi. Hann sem var áður vinur og félagi, álitinn nokkurskonar Little Putin eða Lilliput er nú talinn verstur allra manna og skuggaráðherrar Vesturlanda naga sig í handarbökin fyrir að hafa talið hann vera ákjósanlegan lepp á rússneskum valdastóli á sínum tíma. Það snúast víða vopn í höndum !

En áróðurinn fer einatt að lyktum í hringi eins og sagan sýnir. Krímskagamálið er mjög athyglisvert í sögulegu samhengi. Þar er um að ræða landssvæði sem er byggt hreinum meirihluta Rússa og tilheyrði lengi Rússlandi, en það var fært undir stjórnskipunarlegt forræði Ukrainu 1954 að skipan Nikita Kruschevs. Kannski var Kruschev þar að hygla eitthvað Ukrainu, en flestar heimildir segja hann hafa átt þar sinn uppruna, en sögulega hefur Krímskaginn lengi verið landfræðilegur hluti Rússlands.

En það var eins og við manninn mælt, að Vesturlönd tóku upp hanskann fyrir Ukrainu í Krímskagamálinu og allt í einu var tiltekin geðþóttaákvörðun Nikita Kruschevs þess umdeilda manns, orðin ómótmælanleg að gildi og svo fór vitleysan að vefja upp á sig eins og gjarnan gerist og snúast í pólitíska þráskák. Auðvitað lá fyrir að ætlun Bandaríkjanna og Brusselklíkunnar var að gera Ukrainu að sínu fylgiríki og bitinn þótti auðvitað enn girnilegri meðan Krímskaginn var með í dæminu. En Rússar sáu hvað var á döfinni og hugsuðu líklega með sér : „Hvernig sem fer, látum við aldrei Krímskagann í kjaftinn á þeim !“

En í framhaldi skákarinnar er ljóst að samkvæmt vestrænu mati eiga íbúar vesturhluta Ukrainu að hafa margfaldan lýðræðisrétt gagnvart íbúum austurhluta Ukrainu og Rússar eru stöðugt sakaðir um ásælni gagnvart málum grannríkis....! En hver er að auka áhrifasvæði sitt á kostnað fyrri stöðu í Ukrainu, í Georgíu og nánast hvar sem er á þeim landssvæðum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og þar sem áhrif Rússa voru jafnan sterkust ? Hver er að sækja á og hver er að verjast ?

Af hverju er alltaf verið að veifa lýðræði af hálfu Vesturlanda þegar í raun er verið að skapa sér nýjar nýlendur og áhrifasvæði ? Er einhver staða önnur fyrir hendi í Ukrainu en að landið skiptist í Austur og Vestur Ukrainu ? Ef fólkið í landinu vill ekki eiga samleið á jöfnum forsendum þá er vandséð að önnur lausn sé þar í sjónmáli en skipting landsins ?

Evrópusambandið sem framhandleggur Bandaríkjanna í málefnum gömlu álfunnar, skilgetið afkvæmi Marshallhjálpar og annarra bandarískra valdstryggingarákvæða liðinna tíma, hefur einblínt svo um hríð á Ukrainu að brestir í Brussel-kastalaveggina vestar í álfunni hafa orðið að bíða viðgerðar. Yfirgangssemin hefur þó víða komið fram, svo sem í löndunarbanni á Færeyinga, tilraun með að kúga Íslendinga til að vera lítilþæga í skiptingu makrílkvóta o.s.frv.

Síðasta útspilið var svo auðvitað þrýstingsverkun á að fá fram íslenska Nató-ákvörðun um samstöðu með viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum vegna deilnanna um Ukrainu. Það lá í hlutarins eðli að þeirri hjörð yrði haldið til aga þó það myndi hafa miklar og slæmar afleiðingar fyrir viðskiptahagsmuni Íslands !

En nú bregður svo við að sumar raddir heyrast sem eru ekki alveg sáttar við það hvernig áralöng uppbygging viðskiptalegra samskipta og hagsmuna er sprengd í loft upp og gjörsamlega lögð á altari svokallaðrar vestrænnar samvinnu, án þess að nokkuð virðist eiga að koma til og bæta íslensku þjóðarbúi upp meintan skaða !

Á meðan blómstra ýmis viðskipti milli deiluaðila á stóra sviðinu og áfram streymir gasið frá Rússlandi til Þýskalands og ekkert breytir þeim miklu viðskiptum. Þjóðverjar munu tæplega til viðtals með að skrúfa fyrir gaskranana til að hegna Rússum, enda er það þeim mjög mikilvægt að þeir skili áfram sínu. Þýskir neytendur vilja fá sitt gas hvað sem tautar og raular. Litlu bandamönnunum má blæða en ekki þeim stóru !

Núverandi ríkisstjórn Íslands þykist kannski ekki ginkeypt fyrir því að ganga inn í Evrópusambandið, en þegar vald Bandaríkjanna talar í gegnum Nató og Evrópusambandið, rennur íslensku kaldastríðsliði blóðið til skyldunnar og það hleypur umhugsunarlaust út í eld og vatn og vill fórna öllu fyrir heilaga samstöðu Vesturlanda !

Slík uppákoma sást líka í landhelgismálunum forðum og sýndi þjóðhollustu sumra Íslendinga í afskaplega einkennilegu ljósi svo ekki sé meira sagt. Þegar slíkt gerist kemur það skýrt fram að furðu lítið hefur breyst frá fyrri tíð og draugar fortíðarinnar ganga enn um sviðið í ljósum logum !

Til hvers er að hafna aðild að Evrópusambandskleppnum og þykjast sýna sjálfstæða þjóðlega tilburði, ef það á svo að hlaupa eftir geðþóttaákvörðunum í Brussel varðandi valdapólitík stórveldanna, sem hefur ekkert með lífsbaráttu lítillar þjóðar við ysta haf að gera sem á allt sitt undir viðskiptafrelsi og friði við allar þjóðir ?

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 23
  • Sl. sólarhring: 282
  • Sl. viku: 803
  • Frá upphafi: 356984

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 629
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband