Leita í fréttum mbl.is

Evrópu skortir skilvirka forustu !

Leiðtogar Evrópu eru ekki stórbrotnir menn og það leynir sér ekki að sýn þeirra fyrir nútíð og framtíð er mjög takmörkuð. Flestir þeirra virðast vera á daglegum vinsældaveiðum og sumir eru greinilega dauðhræddir við að ímynd þeirri bíði skaða af þessu og hinu. Geta þeirra til að bregðast við aðsteðjandi vandamálum er því ekki mikil að vöxtum og álfan sem heild líður fyrir það !

Frakkland hefur til dæmis ekki átt sæmilega frambærilegan forseta síðan Mitterrand var á dögum og Bretland hefur lengi vel haft úr gosum einum að spila. Líklega er núverandi kanslari Þýskalands sterkasti leiðtogi Evrópu í dag bæði með hliðsjón af persónulegri stöðu og ríkisstöðu. En þar er heldur ekki allt sem sýnist og sumt brothættara en margir myndu ætla.

Angela Merkel er búin að vera kanslari Þýskalands í um áratug. Hún hefur sem fyrr segir þótt nokkuð skeleggur leiðtogi en ég er ekki viss um að hún eigi eftir að bæta nokkru við orðstír sinn úr þessu. Kannski ætti hún að fara að huga að því að hætta, svo hún venjist ekki svo völdunum að hún geti ekki hugsað sér að missa þau. Það er mjög nauðsynlegt fyrir stjórnmálamann að vita hvenær best er fyrir hann að víkja – og það þarf að gerast áður en það verður til krafa um að hann fari – eins og til dæmis varð í tilfelli svonefndrar Járnfrúar !

Varðandi efnahagsmálavandann í Grikklandi virtist Merkel kanslari lengi vel mjög tvíátta og sýndi ekki þann styrk sem hún hafði þó stundum áður virst hafa til að bera. En nú varðandi flóttamanna-flóðölduna virðist hún vera komin niður á eitthvert kvótakerfi fyrir þjóðir Evrópu um viðtöku á fólki og talar jafnframt um fordóma og mannfyrirlitningu ef menn eru ekki sammála henni !

Það er hreint út sagt mitt álit - að Merkel kanslari ætti sem leiðtogi Þýskalands að tala varlega um mannfyrirlitningu. Við þurfum ekki að fara langt aftur í söguna til þess tíma þegar einhver mesta mannfyrirlitning sem mannkynssagan kann frá að greina þreifst og dafnaði innan Þýskalands og það fyrir atbeina stjórnvalda þar. Þegar valdhafar fara að tala með þeim hætti, að þeir séu ekki í húsum hæfir eða á vetur setjandi sem ekki eru sammála þeim, eru þeir ekki lengur að tala á lýðræðislegum forsendum og Angela Merkel mætti vel hafa þá staðreynd í huga !

Það er hinsvegar stórt og stækkandi vandamál á okkar tímum hvað það virðist mikið stundað að reyna að þagga niður í fólki með andstæðar skoðanir með því að ásaka það um fordóma – og þá jafnframt líklega mannfyrirlitningu ! Þegar einhver einn ásakar annan um fordóma, er hann í raun sjálfur að sýna fordóma gagnvart skoðunum viðkomandi manns. Hann er í raun að segja: „Ég er með réttar og viðurkenndar skoðanir, en þú ekki, athugaðu það, þessvegna ættir þú bara að skammast þín og hafa vit á því að þegja !“ Ég spyr, hvar er lýðræðið í svo hrokafullri framkomu ?

Þjóðverjar eru í allt annarri stöðu en Bretar og Frakkar gagnvart yfirstandandi flóttamanna-vandamáli. Hinir síðarnefndu fengu yfir sig gífurlegan fjölda innflytjenda á forsendum samveldislaga á sínum tíma. Þar kom nýlendukúgunin gamla með afleiðingum sínum harkalega í bakið á móðurlöndunum og líklegast áttu þau það bara skilið, en hið svo til nýlendulausa Þýskaland þurfti ekki að glíma við slíkan vanda. Bretar og Frakkar voru því komnir með innflytjendur í tugþúsundatali áður en Þjóðverjar vissu eiginlega hvað innflytjendur væru – eða hvað hugsanlega gæti fylgt þeim til landsins !

Þegar hið svokallaða þýska efnahagsundur fór að framkallast um 1960 – mest fyrir bandarískt fjármagn, vantaði hinsvegar vinnuafl í Vestur-Þýskalandi og fjöldi fólks frá Tyrklandi og ýmsum öðrum ríkjum sem ekki stóðu vel efnahagslega, streymdi inn í auðsæluríki þeirra Adenauers og Erhardts. Síðan hefur gengið á ýmsu í Þýskalandi, ósameinuðu sem sameinuðu. Kanslarar hafa komið og farið við misjafnan orðstír og þriðja kynslóð þýskra Tyrkja eða eigum við að segja tyrkneskra Þjóðverja er komin á sviðið ?

Aðlögun að þýsku samfélagi er hinsvegar lítt sem ekki mælanleg. Upprunalandið ræður enn sem fyrr öllu en viðkomulandið litlu sem engu. En þýsk stjórnvöld eru í klemmu milli arískrar kynþáttahyggju fyrri tíma og vandamála í seinni tíma sem hafa orsakast af ótta við að taka af festu og einurð á þessum málum. Og meðan það er ekki gert heldur vandinn skiljanlega áfram að aukast ! Stjórnvöld reyna að finna einhvern milliveg og koma þannig til móts við sem flesta en slíkur millivegur er því miður ekki til.

Leiðtogar Evrópu vita því ekki sitt rjúkandi ráð gagnvart flóttamanna-innrásinni í álfuna og engin áætlun er til hvað gera skuli. Meðan streymir annarra þjóða fólk í þúsundatali inn í evrópsk samfélög og það mun hafa sín áhrif á það hvernig málefnum álfunnar verður stjórnað á komandi árum. Vægi þeirra sem fyrir eru, rýrnar stöðugt í augum stjórnmálamanna sem vita ekki lengur hverju þeir eiga að þjóna og hafa enga þjóðlega sýn á framtíðina. Þjóðir Evrópu eru að missa frelsi sitt í hendur aðkominna afla !

Forustulaus heimsálfa, með stefnuleysið eitt að kjölfestu, andlega fjötruð í áttleysu fjölmenningar og sífellds undanhalds í eigin gildismálum, getur hvergi endað nema í því kviksyndi sem gera mun alla evrópska þjóðmenningar-arfleifð að engu á næstu fimmtíu árum ! Vei Evrópu, ef svo fer !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 246
  • Sl. sólarhring: 246
  • Sl. viku: 1051
  • Frá upphafi: 356947

Annað

  • Innlit í dag: 215
  • Innlit sl. viku: 847
  • Gestir í dag: 208
  • IP-tölur í dag: 207

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband