Leita í fréttum mbl.is

Svik við Evrópu frá vinstri - og hægri !

Nýlega las ég fróðlegt efni á bloggi Halldórs Jónssonar, sem er kynnt sem þýðing á bréfi frá múslimakonu, en efnið var upphaflega sett fram á síðu Valdimars Jóhannessonar sem þýddi það. Það er reyndar skrítið að segja, að bréf þetta sé frá múslimakonu því það kemur skýrt fram að konan tilheyrir söfnuði kopta í Egyptalandi, sem hefur orðið fyrir alls konar ofsóknum og ágangi múslima þar í landi, eins og yfirleitt allt kristið fólk sem býr í löndum múslima hefur fengið að reyna.

Margt í umræddu bréfi er allrar athygli vert og sérstakt þótti mér að lesa í því um viðbrögð múslima í Egyptalandi við fréttunum af hryðjuverkaárásinni á tvíburaturnana 2001. Þá kom nefnilega nokkuð í ljós sem sýnir mynd sem oftast er reynt að loka á. Það varð almennur fagnaðardagur í landinu, ókeypis almenningssamgöngur, ókeypis matur á matsölustöðum, kvikmyndahús og skemmtigarðar með ókeypis aðgang, útvarpsrásir sendu stöðugt út sigursöngva o.s.frv. Þannig tóku 80 milljónir „hófsamra múslima“ í Egyptalandi fréttunum af hryðjuverki sem olli dauða 3000 almennra borgara í Bandaríkjunum !

Já, efni þessa bréfs býður vissulega upp á ákveðna heildarmynd af því sem er að gerast í þeim átökum sem yfir standa milli þeirra menningarheima sem mótast hafa á umliðnum öldum, annarsvegar af kristindómi og hinsvegar af Múhameðstrú. En það vill því miður býsna oft brenna við, að þegar fjallað er um stór mál í víðu samhengi, fer oft svo að sitthvað er látið fara með sem ekki er allskostar rétt, og tekur oft meira mið af persónulegum skoðunum en raunverulegri atburðarás. Ég vil af þeim sökum gera nokkrar athugasemdir við meðferð efnis í umræddu bréfi !

Fyrst er að nefna það, að ég mun seint neita því að vinstrisinnaðar hreyfingar hafi átt mikinn þátt í fjölmenningarstefnunni og því að sú arfavitlausa innflytjendastefna var tekin upp sem nú er að verða óleysanlegt vandamál í löndum Evrópu. Það er talað um í þessu bréfi sem hér er til umræðu að vinstri menn eigi þá nafngift með réttu í sambandi við þessi mál að vera nytsamir fávitar. Þeir eru kallaðir undansláttarmenn og staðhæft að þeir verði meðal fyrstu fórnarlamba islam. Síðan er sagt, „að sættast við illskuna er gunguskapur !“

Þarna er líklega verið að leika sér með hugtakið „fellow traveller“ sem oft hefur verið þýtt sem nytsamur sakleysingi, en í þessu tilfelli er talað um fávita, trúlega vegna þess að þýðandi hefur getað þjónað lund sinni með því að tengja þá umsögn til vinstri. En því miður fyrir lífshagsmuni evrópskra þjóða og menningu okkar sem álfuna byggjum er fávitahátt í þessum efnum miklu víðar að finna en til vinstri.

Staðreyndin er nefnilega sú, að staðan í þessum innflytjendamálum út um alla Evrópu væri að öllum líkindum töluvert betri ef hægri menn hefðu ekki gugnað og gert þar sinn sáttmála við illskuna af algjörum gunguskap. Samkvæmt sínum yfirlýstu forskriftum hefðu þeir átt að standa í gegn framgangi þessara mála, vera sjálfum sér samkvæmir og trúir sinni íhaldsstefnu. En það var nú eitthvað annað, þeir drógust með og voru að því leyti verri en vinstri menn að þeir gerðu það jafnvel gegn betri vitund !

Árið 1968 flutti breski íhaldsþingmaðurinn Enoch Powell „Rivers of Blood“ ræðu sína um innflytjendastefnu stjórnvalda í Bretlandi og gagnrýndi hana harkalega. Hvernig brást flokkur hans við ? Powell var vikið úr skuggaráðuneyti Edward Heaths og var sniðgenginn af valdaklíku flokksins eftir það. Samt var talið að um 74% íbúa Bretlands á þeim tíma hefðu verið Powell hjartanlega sammála og hver veit hvort Edward Heath hefði orðið forsætisráðherra Bretlands 1970 ef þessi ræða hefði ekki verið flutt. En Heath var gunga og þorði ekki að taka á innflytjendamálunum og því fór sem fór. Svipaða sögu er að segja um aðra leiðtoga hægri manna út um alla Evrópu. Þeir þorðu ekki að taka á þessum málum og hafa ekki þorað því fram á þennan dag. Ég sem er vinstri maður, harma það mjög að þeir skyldu ekki hafa þá manndáð í sér að vera í raun þeir varðmenn um gömul þjóðgildi sem þeir hafa þó alltaf talið sig vera. En þarna fannst mér sannast að það eina sem ég hef talið virðandi við þá var svikið þegar á reyndi !

Ekki er Angela Merkel vinstri maður og sem formaður CDU ætti hún líklega að standa fyrir annarri stefnu í innflytjendamálum en hæfði vinstri fávita. Boðskapur hennar um flóttamannakvóta og viðtöku múslima út um alla Evrópu er ljóslega til marks um það að ekki er við vinstri valdamenn eina að sakast varðandi varnarskortinn og sofandaháttinn á heimavígstöðvunum í álfunni. Og það er segin saga, að þegar vinstri menn og hægri menn fallast í faðma með eitthvað eru meiri líkur en minni á því að þá sé ekki gott í efni !

David Cameron formaður Íhaldsflokksins breska hefur margoft tekið það fram að hann sé hliðhollur inngöngu Tyrkja í Evrópusambandið. En strax árið 2002 lýsti hægrimaðurinn Valery Giscard d´Éstaigne, fyrrverandi forseti Frakklands, því yfir að ef Tyrkir fengju inngöngu í sambandið myndi það þýða endalok þess. Það er stórt bil á milli þessara manna í yfirlýsingum þó báðir teljist til hægri í stjórnmálum !

Sést af þessum dæmum að ýmsir valdamenn á hægri kanti evrópskra stjórnmála hafa ekki síður en vinstri menn brugðist mjög víða varðandi varnarhagsmuni Evrópu og þrætt sömu villugöturnar þar í innflytjendamálum af þrælslund gungunnar ! Og eins og ég sagði hér að framan, hafa þeir raunverulega svikið meira og verr en vinstri menn, því hefðu þeir fylgt stefnumiðum sínum frá fyrri tíð af hollustu, hefðu þeir verið viðspyrnumenn í þessum málum en ekki taglhnýtingar !

Að svo mæltu ætla ég ekki að fjalla frekar um þetta bréf eða auka óvinafagnað með því að hlúa að einhverjum ágreiningi varðandi efni þess. Hin raunverulegu málsefni eru nógu skýr og þörf á að sem flestir geri sér fulla grein fyrir því að evrópsk menning og saga er á örlagasnúningi í dag !

Spurning dagsins er því ósköp einföld: Ætlum við að gefa áfram allt eftir í hendur annarra aðila og það fjandsamlegra aðila, varðandi framtíð okkar og barna okkar, í heimsálfu þeirri sem er réttmætur arfshluti okkar ?

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 50
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 856
  • Frá upphafi: 356701

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 661
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband