Leita í fréttum mbl.is

Hvað hefur orðið um landhelgina okkar og aðrar þjóðareignir ?

Það er kunnara en frá þurfi að segja að öll einkavæðing fer fram með þeim hætti að fyrst er rekinn áróður fyrir því að allt muni batna fyrir neytendur, fyrir allan almenning, þegar slíkt fyrirkomulag er orðið að veruleika. Það komist á eðlileg samkeppni sem muni leiða til þess að þjónusta lækki í verði og allir njóti góðs af !

En þetta hefur aldrei sannast og það sem verra er, niðurstaða mála hefur alltaf orðið þveröfug. Græðgin sem liggur að baki kröfunni um einkavæðingu er svo hömlulaus að hún kann sér ekkert hóf. Verðlagning verður því aldrei eins og gyllingar upphafsins hljóða upp á, samkeppnin verður aldrei raunhæf og flestir Íslendingar vita núorðið að markaður er miklu meira tengdur við samráð en samkeppni.

Átta árum eftir lok landhelgisbaráttunnar var búið að einkavæða landhelgina til ágóða fyrir eina svívirðilegustu og hrokafyllstu auðklíku sem þekkst hefur í þessu landi. Hverjir stóðu að því, af hverju finnur enginn fræðingurinn hvöt hjá sér til að rannsaka það ? Er ekki löngu tímabært að almenningur átti sig á þeirri aðför sem þar var gerð með lúmskum hætti - að heildarhagsmunum landsmanna ? En nei, þeir eru færri en fáir sem vilja fara í það að rannsaka slíkt. Það þýðir allra handa kostnað og óþægindi og auðvaldsherrar landsins verða nú ekki par hrifnir af slíku verkefnavali. Svo fræðingarnir snúa sér að öðru, einhverju sem verður auðveldlega verðlaunað af þeim sem ekki má anda á og skapar enga hættu á misgengi á ferlinum !

Og peningar samfélagsins safnast stöðugt á færri hendur í litlu Ameríku eins og í þeirri stóru. Samfélagsþjónustan dregst saman því það er svo margt í þeim geira sem ekki þykir arðvænlegt og er jafnvel klofið frá upphaflegri rekstrareiningu þegar einkavæðingin er þar að baki. póstþjónustan var þannig skilin að frá Símanum svo hámarka mætti gróðann hjá þeim síðarnefnda. Áður efldi Síminn póstþjónustuna í þágu samfélagsins, öllum til hagsbóta en græðgisandi einkavæðingarinnar leyfði ekkert slíkt. Og nýjum starfsháttum var komið til skila, jafnvel í stórum sendingum. Allt varð þar að þjóna Mammoni !

Og pósthúsum hefur verið lokað og verður áfram lokað, bankaútibúum er lokað og áður sjálfsögð þjónusta er ekki lengur sjálfsögð því markmiðið er nú aðeins eitt – að græða sem mest. Það er ekki lengur þjónusta við fólkið sem er í fyrirrúmi, enda ekki verið að stela eignum fólksins til þess að auka hana eins og gefur að skilja. Nei, ríkið á að koma rekstri á með tilheyrandi stofnkostnaði, svo á að yfirtaka og fleyta rjómann ofan af öllu !

Og hvað er það sem stendur heilbrigðiskerfinu okkar mest fyrir þrifum ? Það - að í raun er búið að einkavæða það, líklega að meira en hálfu leyti. Helmingur þjónustunnar er kominn út í bæ, inn á stofur sérfræðilækna. Sjúklingum er jafnvel ráðstafað þangað frá spítala af sama aðila og tekur á móti þeim þar. Og allt er að sjálfsögðu orðið miklu dýrara því græðgi er líka sest að í heilbrigðiskerfinu, eins og sveppir og annað sem þar til vansa er. Það styrkir ekkert kerfi sem sett hefur verið upp til almenningsheilla að allur ágóði fari í einkavasa. Jafnvel mislukkaðar lýtalækningar eru bókaðar á almannatryggingar svo kostnaður sé þar sem kostnaður á að vera en ágóðinn þar sem hann á að vera. Þannig hugsa afætur samfélagsins !

Og í raun fækkar þeim gildum stöðugt sem eiga að undirstrika að hér sé rekið mannvænt samfélag, miklu heldur má segja að hér sé búið að setja á valdakoppinn hrokafulla elítuklíku sem étur allt frá öllum og kann ekki að skammast sín fyrir eitt né neitt. Þar er bölvun lands og þjóðar á ferð enn á ný, uppvakningur frá fyrirhrunsárunum, viðbjóður alls sem gott getur talist !

Og hvort sem við tölum um yfirstandandi mál Landsbankans og Borgunar, þar sem sumir vissu greinilega allt en aðrir lítið sem ekkert eftir því sem þeir segja, eða milljónabónusamál til gæðinga hjá gjaldþrota fyrirtækjum sem farið hafa í nauðasamninga, sjáum við glöggt hvernig ákveðinn frjálshyggjuhugsandi hópur ráðamanna í viðskiptalífinu hegðar sér. Þar sést ekki neinn lærdómur af hruninu, síður en svo. Þar sést hinsvegar einbeittur brotavilji gagnvart öllu eðlilegu siðferði. Og fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi tala hver um annan þveran um að þetta og hitt sé kannski löglegt en samt algerlega siðlaust !

Hverjir setja lög í þessu landi ? Er það ekki hlutverk þingmanna að sjá til þess að lög þjóðarinnar séu í samræmi við siðvitund okkar og mælikvarða á það hvað sé rétt og hvað sé rangt. Af hverju eru æ fleiri lagasetningar orðnar þannig að það er eins og þær hafi verið sérpantaðar af ákveðnum hagsmunaaðilum ? Er það ekki vegna þess að þeir sem eiga að sjá um að slíkt gerist ekki, hafa ekki gætt skyldu sinnar ?

Hvernig er landkynning sumra ferðaþjónustuaðila, erlendum ferðamönnum er uppálagt að drekka vatn úr sérmerktum hótelflöskum í höfuðborg hins hreina ferðamannalands ? Og hótel geta sjáanlega reynst helmingi stærri við athugun en leyfi er fyrir ! Víðasthvar virðist græðgin setja sín óþverraspor og margir reyna að hámarka gróða sinn með lögleysu og svínaríi !

Og maður spyr sig jafnvel nú orðið, hvað víða skyldi mansal vera til staðar í landinu ? Hvað getur ekki viðgengist í landi þar sem yfirvöld eru meira og minna sofandi sauðir og sérhver opinber stofnun virðist á stöðugum flótta frá sérhverri ábyrgð sem hún á að axla ? Jafnvel neyðarlínan er farin að klikka !

Það mætti halda, að unnið væri fyrst og fremst að því takmarki, innan kerfisins í óðaþéttbýlinu syðra, að koma alfarið í veg fyrir að landsmenn geti verið stoltir af því að vera Íslendingar !

Og því miður, það virðast öll teikn á lofti með það að því takmarki verði náð innan tíðar !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 49
  • Sl. viku: 805
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 632
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband