Leita í fréttum mbl.is

Um siðferði í orðum og verkum !

Margt hefur gerst á þjóðmálasviðinu að undanförnu og umræða um pólitík og siðferði hefur aukist mjög samfara því. Það virðist liggja fyrir að íslenska þjóðin vilji ekki sætta sig við tvöfeldni kerfisþjóna sinna í siðferðilegum efnum, að minnsta kosti ekki þegar á reynir og upp um þá kemst. Hið almenna lýðræðisafl hefur því líklega enn á ný sýnt að það er ekki hægt að bjóða því hvað sem er.

Forsætisráðherra landsins hefur þannig verið knúinn í krafti mikillar mótmælaöldu til að segja af sér embætti. Við skulum hafa það hugfast að hann steig ekkert til hliðar eins og sagt er, hann neyddist til að segja af sér. Að morgni sama dags og það gerðist sagðist hann ekki ætla að segja af sér og taldi það fráleitt. Svo við skulum sleppa þessari lygakurteisi og fylgja sannleikanum umbúðalaust.

En sumir sjá ekkert athugavert við hlutina og vorkenna aumingja Sigmundi og sýta vegtyllumissi hans. Slík afstaða segir eiginlega meira um siðferðilega stöðu þeirra sem þannig tala en nokkuð annað. Trúnaðarmenn samfélagsins verða að vera sjálfum sér samkvæmir, orð þeirra og verk verða að fara saman.

Þegar siðferðilegur trúnaðarbrestur verður milli þjóðar og eins helsta valdsmanns hennar hlýtur valdsmaðurinn að víkja. Annars mun samfélag sem líður slíkan trúnaðarbrest veiklast siðferðilega og verða í framhaldi mála miklu auðveldara fórnarlamb frekari spillingar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talaði hér manna mest um þjóðlega samstöðu og hreint borð. Fjöldi kjósenda valdi að trúa á hin fögru fyrirheit sem hann fjölyrti svo um og hann fékk árið 2013 raunverulega umboð til að verða forsjármaður íslenska ríkisins næstu fjögur árin – hann varð svo forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar, forstjóri hins sameinaða fyrirtækis þjóðarinnar. Og það vantaði ekki að Sigmundur vildi keyra upp traustið, traustið á fyrirtækinu, láta alla fjárfesta í því og þeirri batnandi framtíð hérlendis sem hann sagði ítrekað að væri í kortunum. Allt átti að vera uppi á borðunum og gegnsæi mála óumdeilanlegt ! En svo kemur í ljós að forstjórinn sjálfur er með peningana sína annars staðar og það í aflandseyja-skjóli !

Það virðist sem sagt koma í ljós að hann treysti sér ekki til að hafa eigin sjóði á eigin ábyrgð hérlendis ! Það sem hann ætlast til að aðrir geri hefur ekkert með hans athafnir að gera ! Erum við þá ekki komin að því sem kallast tvöfalt siðferði, þá afstöðu sem sumir – ekki síst forréttindamenn – hafa löngum þótt sýna, að einn mælikvarði gildi fyrir þá og annar fyrir aðra ?

Bandarískir auðmenn og peningafurstar hafa lengi verið öðrum þekktari fyrir þetta tveggja mælikvarða viðhorf. Meira að segja gætir þess ekki svo lítið í samskiptum bandarískra stjórnvalda við önnur ríki. Ekkert ríki í gjörvallri sögu mannkynsins hefur leyft sér að tala eins mikið og eins oft niður til annarra ríkja heimsins eins og Bandaríkin. Þau eru alltaf að setja ofan í við aðra fyrir þetta og hitt og telja sig vera með svo hreint borð að þau hafi efni á því. En mælikvarðinn sem þau nota á eigin athafnir er allur annar og rýmri og ólíkt hentistefnulegri en sá mælikvarði sem þau dæma aðra eftir !

Hræsnarinn í samfélagi þjóðanna er því ómótmælanlega Bandaríkin. Þessi sjálfumglaða þjóð sem eyðir meiru í hundamat á hverju ári en mannleg velferðarmál. Og þjóðarleiðtogar sem viðhafa þetta bandaríska tveggja- mælikvarða viðhorf eru auðvitað haldnir siðblindu og eru því ekki hæfir til að sinna ábyrgðarstörfum fyrir land sitt og þjóð.

En siðferðileg umræða er víðfeðm í eðli sínu og getur orðið allt um grípandi ef hún er þá ekki þögguð niður eins og stundum gerist. Hún veltir nefnilega stöðugt upp nýjum spursmálum. Getur maður sem þjóð afsegir sem forsætisráðherra verið áfram formaður í stjórnmálaflokki ? Getur verið að siðferði viðkomandi flokksmanna leyfi það þó þjóðin hafi kveðið upp sinn frávísunardóm ?

Eru íslenskir auðmenn óþjóðlegir menn og þjóðhollusta þeirra í besta falli mjög umdeilanleg, treysta þeir yfirleitt á flest annað en íslenskt samfélag ? Er siðferðileg staða íslensks fjármálalífs þannig nú til dags að Mammon eigi þar menn með húð og hári, samvisku og sál ? Eru hin gömlu gildi að hverfa úr íslensku samfélagi sem burðarstoðir þess. Eru þau viðhorf á förum meðal okkar sem ganga fyrir heiðarleika, virðingu fyrir því sem rétt er, kristnum kærleiksboðum og almennum dyggðum ?

Við skulum vona að svo sé ekki. En það ber að standa vörð um slík gildi, þau komust á fyrir mikla baráttu, þau hafa varað vegna mikillar varðstöðu um þau og það eitt er víst að þau munu ekki halda lengi velli í spilltu og siðferðilega rotnu samfélagi.

Tökum okkur tak í því að draga réttan lærdóm af því sem gerst hefur og mun áfram gerast og verum meðvituð um það að við, hvert og eitt, getum lagt okkar skerf til þess að bæta samfélagið og verjast öllu því sem vill draga það niður í botnlausa ómennsku og eyðandi spillingu tvöfeldninnar !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 9
  • Sl. sólarhring: 105
  • Sl. viku: 815
  • Frá upphafi: 356660

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 647
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband