Leita í fréttum mbl.is

Fósturjörð eða fjölmenningarhæli ?

Það er kunnara en frá þurfi að segja að lönd hafa byggst upp af fólki sem hefur átt svo margt sameiginlegt að það varð að búa til sérstakt hugtak yfir það og þannig varð til skilgreiningin - þjóð ! Og í framhaldi urðu lönd greind sem þjóðlönd, lönd þar sem tilteknar þjóðir bjuggu. Þannig urðu samfélög manna til.

Samfélagsheildin styrktist svo við það að fólk gat sameinast um sömu siði og sömu markmið til framtíðar. Allir lögðu sitt til, allir höfðu skyldur við samfélagið og hlutu jafnframt sinn skerf af hverjum ávinningi. Þá voru fáar afætur til staðar því engum leiðst að lifa á öðrum. Slíkt var talin ómennska sem drægi úr styrk heildarinnar.

Á okkar tímum hefur risið upp sú stefna sem kölluð hefur verið fjölmenning. Hún hefur orðið til sem andstæða þjóðmenningar og er vísvitandi sett til höfuðs öllu þjóðlegu valdi. Það eru til öfl í heiminum sem vilja hræra öllu saman og gera allt að einum söfnuði – undir einni stjórn !

Það er því nokkuð skrítið að talað sé um fjölmenningu í þessu sambandi, því í raun er takmarkið að blanda öllu saman, sjóða allt í sama potti, eyða sérkennum þjóða og þjóðmenningarlegum einkennum. Þá er komin upp sú staða að einn valdhafi geti komið fram og stjórnað öllum lýðnum og margir gera sér grein fyrir því hver sá valdhafi eigi að verða !

Og það er einkar athyglisvert að fjölmenningarsinnar hafa yfirleitt ekki mikið umburðarlyndi gagnvart þeim sem eru ekki sammála þeim. Þeir tala um þá sem óupplýsta, fáfróða, þröngsýna, fordómafulla, öfgakennda o.s.frv.

En þannig er það yfirleitt með þá sem telja sig hafa höndlað stóra sannleikann. Þeir gera kröfu til að allir aðhyllist rétttrúnaðinn og bregðast illa við ef það er ekki gert. Þegar fjölmenningarfræðin eru skoðuð, kemur fljótt í ljós að þau halda hvorki vatni né vindi. Að minni hyggju skapa þau ófarnað í komandi tíð og full ástæða er til að gjalda varhug við þeirri framvindu mála sem þau boða !

En á yfirborðinu er fjölmenningin markaðssett sem grundvöllur að samfélagi þar sem allir eigi að geta notið sín til fulls, þar sem allir eigi að njóta sérkenna sinna og geti lifað með þeim hætti í Hálsaskógi hamingjunnar. Það er hinsvegar ljóst að slík uppsetning mála er draumsýn og órar en ekki veruleiki !

Öll samfélög verða tekin yfir af þeim viðhorfum sem ráðandi verða og það verða alltaf einhver viðhorf ráðandi þegar til lengdar lætur. Samfélag sem vill stjórnast af fjölmenningar-sjónarmiðum verður því fljótlega eyrnamarkað einhverjum söfnuði sem tekur sér vald yfir öðrum, til dæmis í krafti yfirburða í mannfjölda !

Það hafa ýmis ríki reynt að koma á skilvirkum stjórnarháttum með þátttöku margra ólíkra aðila. Þær tilraunir hafa yfirleitt mistekist því sambræðslan gengur aldrei upp til lengdar. Þá er oftast stutt í ofbeldi og átök !

Þjóðríkin hafa ekki haldið velli svo lengi sem raun ber vitni að ástæðulausu. Það er hin sameinaða þjóðvitund sem hefur tryggt tilveru þeirra um aldir. Fjölmenning getur ekki vakið eða alið með sér slíka vitund. Þar er allt í einum graut, þjóðernislega, menningarlega og trúarlega. Bandaríkin eru sláandi vitnisburður um slíkt ástand !

Það er búið að sá fyrir miklum átökum í framtíðinni með þeirri kolröngu stefnu sem fylgt hefur verið síðustu áratugi. Þjóðmenningum Evrópuríkja hafa verið greidd stór högg og þær eru margar ef ekki flestar í sárum.

En þær eru ekki dauðar og þær munu ekki deyja. Fólk er farið að minnast uppruna síns og tengjast honum í mun meiri hollustu en áður. Síbylja fjölmenningaráróðursins er hætt að virka á marga, enda ávextir þeirrar stefnu stöðugt að birtast með stærri brotalömum.

Ríkisstjórnir margra Evrópulanda eru farnar að rumska heldur betur. Þær eru að vakna með bullandi timburmenn eftir fjölmenningarfylliríið mikla sem er sem óðast að breytast í svörtustu martröð. Fleiri og fleiri eru að sjá og skilja að innstreymi flóttamanna og hælisleitenda til landa Evrópu mun engan endi taka. Það verður að stinga þar við fótum áður en allt fer á kaf í upplausn og stjórnleysi.

Minna og minna fjármagn fer í að byggja upp velferð þeirra í þessum löndum sem hafa unnið fyrir hlutunum, meira og meira fjármagn fer til þeirra sem þar hafa ekkert til lagt og gera þó stöðugt meiri kröfur. Hvernig á slíkt að geta gengið ?

Við Íslendingar höfum ekki staðið í styrjöldum við aðrar þjóðir. Við berum af þeim sökum enn minni ábyrgð en flestir aðrir á stríðsátökum samtímans. Við erum herlaus þjóð og höfum hingað til reynt að heiðra og halda í menningarverðmæti þau sem við höfum átt saman sem íslenska arfleifð !

En þjóðmenning okkar verður ekki ávöxtuð af neinum nema okkur og þó við séum fá og smá, höfum við samt verið ein þjóð til þessa og átt samleið. Ljósvetningagoðinn taldi að einn siður sameinaði fólk en margir siðir sundruðu, sú sundrung myndi slíta í sundur friðinn í landinu. Þau orð hans eru enn í fullu gildi þó sumir vilji ekki skilja það og geri sér litla sem enga grein fyrir hættum þeim sem fylgja siðlausum sofandahætti nútímans.

Það ætti líka að vera hverjum sæmilega skyni bærum manni ljóst að kristin-dómurinn er kjarni þeirrar menningar sem hér hefur skapast og í raun samofinn öllu þjóðlífi okkar. Þjóðmenningu okkar þarf að varðveita og hún á ekki og má ekki verða fórn á altari þeirrar fjölmenningarfarsóttar sem nú er að opinbera sína eitruðu ávexti um alla Evrópu !

Við getum lagt fram hjálparhönd til þeirra sem líða með margvíslegum hætti – en við eigum að gera það fyrst og fremst sem þjóðhollir Íslendingar. Við megum ekki gera það með því að afneita eigin rótum og meta það einskis sem hefur gert okkur að þjóð. Íslendingur er sá sem hér hefur alist upp og mótast af íslensku samfélagi. Innflytjandi verður ekki Íslendingur við það eitt að koma hingað !

Aðlögun getur tekið langan tíma, jafnvel tvær, þrjár kynslóðir, og í sumum tilfellum skilar hún sér aldrei. Sönn þjóðhollusta vex upp með einstaklingum frá fyrstu tíð en verður ekki framkölluð með gervilausnum !

Það er hægt að fullyrða alls konar hluti út frá lagasetningum, en lög eru ekki endilega sannleikanum samkvæm og oft eru þau talsvert nær lygi en sannleika. Æðstu lög hvers ríkis eru að þjóna velferð þeirrar þjóðar sem byggir landið !

Við þurfum að vernda samfélag okkar og hlynna að þjóðlegum rótum þess með ábyrgð og festu. Það fylgir því vandi og ábyrgð að viðhalda þjóðmenningu 300.000 manna þjóðar og við skulum gera okkur grein fyrir því að ef við svíkjum rætur okkar verðum við ekki lengi þjóð eftir það. Þá verðum við þjóðleysingjar í áttleysulandi !

Við getum ekki setið á greininni eftir að stofninn hefur verið höggvinn !



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 134
  • Sl. sólarhring: 180
  • Sl. viku: 703
  • Frá upphafi: 365601

Annað

  • Innlit í dag: 130
  • Innlit sl. viku: 615
  • Gestir í dag: 130
  • IP-tölur í dag: 128

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband