Leita í fréttum mbl.is

Loforðastraumurinn !

 

Það leika straumar um íslenskt mannlífsumhverfi með margvíslegum hætti. Golfstraumurinn skapar lífgefandi skilyrði í hafinu við landið, loftstraumar ýmsir sjá um að súrefni sé til staðar í nægu magni í andrúmsloftinu og náttúruleg framvinda er okkar enn sem fyrr til heilla á margan hátt !

 

En svo eru aðrir straumar sem hvorki eru lífgefandi eða gefa “ lífsanda loft “, eru ekki og eiga ekki að vera náttúruleg framvinda og slíkir straumar eru yfirleitt af mannavöldum. Glæpir ráðamanna í útlöndum hafa oft verið til umræðu í fjölmiðlum hérlendis enda af nógu að taka í þeim efnum. Hinsvegar er öllu minna talað um afbrot íslenskra stjórnmálamanna gagnvart almannaheill en þar er líka af nógu að taka !

 

Ein meiriháttar meinsemd í íslensku mannlífsumhverfi er stöðugt vaxandi og ófyrirleitnari tilhneiging pólitískra flokka til yfirboða fyrir kosningar. Og það virðist sem almenningur sé orðinn svo dofinn fyrir pólitískum lygum að menn geri sér engar væntingar um annað. Flokkarnir reyna allir sem einn að bjóða betur en því miður er loforðastraumurinn frá þeim oftast ábyrgðarlaus og settur fram án nokkurrar fastmótaðrar hugsunar fyrir raunverulegri framtíðarsýn varðandi almannaheill !

 

Við ættum að þekkja það, að gefin loforð eru oftast svikin eftir kosningar, enda flest þannig borin fram að hengd eru við þau nokkurskonar smáaleturs atriði sem eru til þess ætluð að þau skili sér sem undankomuleið frá gefnu loforði fyrir viðkomandi frambjóðanda eða flokk, þegar tími svikanna rennur upp.

Við ættum líka að þekkja það, að veikleikinn fyrir lýðskrumi er orðinn svo mikilsráðandi hjá íslenskum pólitíkusum að býsna margir þeirra gleyma fljótt hverju þeir lofuðu í hita leiksins og virðast yfirleitt ekki hafa miklar áhyggjur af framhaldinu. Komnir á þing treysta þeir því að þeir muni finna ráð til að vera þar áfram í gegnum ný loforð og nýja pretti.

Við ættum svo að vita, að það er viðvarandi skortur á hugsjónamönnum meðal stjórnmálamanna, þannig að þeir sem sitja á þingi eru þar mest fyrir sjálfa sig og ferilskrána en ekki að þjóna landsfólkinu með hagsmuni þess í fyrirrúmi !

 

Sjálfsdýrkun íslenskra stjórnmálamanna er í sjálfu sér orðin alveg sambærileg við það sem við þekkjum úr viðskiptalífi síðustu ára. Höfuðmálið virðist vera að snúast um eigið egó án afláts, og það er ljóst að þetta pólitíska forustulið þjóðarinnar talar ekki út frá neinum hugsjónum varðandi almannaheill eða berst fyrir þeim almenna mannrétti að hver og einn eigi að fá að ganga uppréttur !

 

Loforðastraumurinn gengur ekki út á efndir. Hann gengur út á svik. Þegar flokkar í stjórnarstöðu gefa út kosningavíxla, sem við ættum nú öll að vera farin að þekkja, er nánast víst að fólkið verður sjálft látið borga þá víxla og það með áföllnum kostnaði, sem yfirleitt reynist ekki lítill þegar þar að kemur.

Þjóðarpyngjan, sem geymir okkar samfélagspeninga, er þannig óspart notuð til þess að fá okkur til að versla með atkvæðisréttinn okkar og trúa á loforð sem verða svikin og gleypa við einhverri málamynda-fyrirgreiðslu sem snýst upp í andstæðu sína eftir kosningar. Þannig á ekki að standa að málum - með lýðskrum og lygar að vopni !

 

Atkvæðisrétturinn er hinsvegar vopn okkar til að koma einhverjum þeim til valda sem verðskulda það að hafa völd í okkar nafni og vilja vinna sín verk af hugsjón í þágu almannaheilla. En hvar finnum við slíka frambjóðendur, hverjir eru trúir og sannir ?

 

Þeir sem hafa kosningarétt þurfa að gera það upp við sannfæringu sína og samvisku hverjum þeir vilja treysta. En jafnframt verða kjósendur að hafa það hugfast, að sá valkostur er ekki endilega bestur sem lofar mestu, líklega öllu heldur hið gagnstæða. Að kjósa er vissulega ábyrgðarmál hvers og eins, en sá gjörningur má ekki vera eitthvað sem gert er af sinnuleysi sem getur skaðað samfélagið !

 

Blekkingar eru hinsvegar orðnar allt of stór hluti af hinu “lýðræðislega sjónarspili” kringum kosningar í landinu okkar og mál að linni. Allur skollaleikur er óvirðing við lýðræðið og við drögum það niður ef við kjósum að hampa þeim skollum sem skíta það mest út.

En kjósendum er vissulega vandi á höndum þegar skortir í svo mörgu skýr skil á það hvað frambjóðendur standa í raun og veru fyrir og lýðskrumið fer með himinskautum !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 143
  • Sl. sólarhring: 189
  • Sl. viku: 712
  • Frá upphafi: 365610

Annað

  • Innlit í dag: 138
  • Innlit sl. viku: 623
  • Gestir í dag: 138
  • IP-tölur í dag: 136

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband