Leita í fréttum mbl.is

Enn ein blaut tuskan !

 

Ákvarðanir kjararáðs um launahækkanir fyrir toppfígúrur og tauhálsa kerfisins er enn ein af þessum blautu tuskum sem þeytt er framan í almenning þessa lands. Þarna sitja gljástroknir sérhagsmunafulltrúar í kerfisvörðum fílabeinsturnum, og skenkja sínu samsveitarliði svo örlátlega úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar, að það er algjörlega úr öllum takti við eðlileg, samfélagsleg viðmið.

Meðan almenningur fær í kringum 3% launahækkun og ekki er sagt hægt að hafa það hærra, því þá fari allt um koll í óðaverðbólgu og efnahagshruni, fær þetta fólk sem fyrir er á ágætum launum, 40% launahækkun á silfurfati sérréttindanna !

 

Þvílíkt andstyggðar ríki er þetta þjóðfélag okkar Íslendinga orðið og það á tiltölulega skömmum tíma, eða sérstaklega eftir að skurðgoðadýrkun Mammons-fylgjenda hófst hérlendis sem aldrei fyrr upp úr 1990. Framkvæmdavaldið er að mati fjölda fólks gjörspillt, þingið er og hefur verið til margra ára vanburða væfla og dómskerfið hefur stórlega glatað gildi sínu og virðingu á undanförnum árum.

Og nú þegar stór hópur þingmanna er algjörlega reynslulaus og mun vafalítið þurfa næstu tvö ár til að komast inn í starfið, fær hann fyrirfram launahækkun sem er vægast sagt viðbjóðslega siðlaus í samfélagslegu tilliti !

 

Sérgæskan er orðin yfirþyrmandi í öllum myndum hérlendis og arðræningjar og óþokkar virðast hvarvetna til staðar, sjúgandi blóðið - ásamt ríki og sveitarfélögum – úr almenningi. Sjáið nýgerða sjómannasamninga, þar sem ávinningurinn er ekki upp í nös á ketti, hvað þá meira, sjáið skítlega framkomuna gagnvart kennurum sem vinna að því að þroska börnin okkar, sjáið hvernig almennt starfsfólk í heilbrigðiskerfinu er leikið, sjáið hvernig allt sem flutt er inn í landið verður margfalt dýrara hér en það er á hinum Norðurlöndunum, löndum þar sem siðræn sjónarmið og samfélagshyggja hafa ennþá eitthvert vægi !

 

Þegar vissir aðilar eiga í hlut er alltaf til nóg af peningum, en þegar venjulegt fólk er annarsvegar er aldrei neitt til. Hinir útvöldu fá allt, hinir ekki neitt !

Okrið og arðránið er svívirðilegt hvert sem litið er og þjóðníðingar gróðahyggjunnar fara hamförum í því að auðgast, þvert á allt siðferði. Lög eru sett út í horn, enda virðast jafnan vera nóg öfl fyrir hendi innan kerfisins til að liðka þau til, sveigja þau og beygja, eða hreinlega afnema þau, svo þau séu ekki að þvælast fyrir siðleysingjum samtryggingarinnar, sem eru áreiðanlega í hugum sumra “ ungir menn með hreinar hugsanir “ eins og forðum var sagt í blaði broddborgaranna um íslensku nazistana !

 

Fólk þarf að fara versla eins og það getur framhjá kerfinu, framhjá þessum ómannlegu, kerfisvörðu meindýrum, kaupa sjálft á netinu, fara jafnvel erlendis og gera innkaup ef það getur komið því við. Íslenskir milliliðir eru öllum of dýrir – sama hvaða viðskipti er um að ræða. Við höfum ekki efni á að halda öllum þessum sníkjudýrum uppi sem eru í því alla daga að mergsjúga venjulegt fólk !

 

Af hverju þarf allt að vera svona hjá okkur, hverskonar þjóðvillinga-sorasirkus er alltaf í gangi hér til að skemma og eyðileggja allan ávinning af því sem íslensk þjóð, íslenskur almenningur, ætti þó svo sannarlega að hafa unnið fyrir með allri vinnuþrælkun liðinna áratuga ?

 

Það ætti að skella á eins dags allsherjarverkfalli um allt land til að knýja fyrrnefnda launahækkun til baka, og ef það dugar ekki til, þá ætti í framhaldinu að hefja skæruhernað gegn sérhagsmuna-siðleysinu með áframhaldandi aðgerðum. Ætlar almenningur þessa lands - alla daga - að láta allt yfir sig ganga í þessu siðvillta bananalýðveldi norðurhjarans ?

 

Hvað margar blautar tuskur þarf til að deigt járn bíti ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 365493

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 508
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband