Leita í fréttum mbl.is

Þegar menn geta ekki andað lengur, þá hvað ?

 

Um heiminn allan hrópið gengur,

hróp sem alla skaðar.

Blessun ekki í boði lengur,

bölvun ein til staðar !

Brot á öllum lífsins lögum

líkt og ferli í glæpasögum.

Skilar sér að skuldadögum

skömm sem glötun hraðar !

 

Á Suðurnesjum hefur komið í ljós sem víðar að sambýli fólks og verksmiðja sem spúa frá sér hættulegum efnum er eitt af því sem ekki gengur. Eðlileg lífsskilyrði verða fyrir skaða og kostnaður við lagfæringar á slíkum málum er oftast það sem allir ábyrgðaraðilar reyna að komast hjá og enginn vill greiða. En það að fá að lifa í óspilltu andrúmslofti er lífsnauðsynlegt mannréttindamál um alla jörð !

 

En Suðurnesjamálið er samt ekki stórt miðað við það sem er að gerast víða um heim. Syndir feðranna eru að koma fram í sífellt skýrara ljósi. Skýrsla Alþjóða heilbrigðismála-stofnunarinnar frá því í september 2015 lýsir hræðilegu mengunar-ástandi í fjölmörgum borgum heimsins og það versnar stöðugt !

 

Ábyrgðarleysi í efnaiðnaði varðandi mengunarvarnir í verksmiðjum og hvernig menn hafa um langt skeið farið að því að losa sig við hættulegan úrgang eru líklega höfuðástæður þess hvernig komið er.

Stórfyrirtæki og yfirvöld hér og þar hafa á undanförnum áratugum stundað það í stórum stíl að losa sig við hættuleg efni með sem minnstum tilkostnaði og afleiðingarnar af því samviskulausa framferði koma sífellt betur í ljós !

 

Hver veit t.d. hvað fenin í Florida hafa að geyma eða stóru vötnin í Bandaríkjunum og bara vötn og fen um veröld alla. Svo við tölum nú ekki um heimshöfin og dauðagildrurnar sem þar hafa verið lagðar og beinast nú gegn tilvist mannkynsins !

Hvað á eftir að koma í ljós á næstu árum, þegar syndir feðranna í þessum efnum fara að afhjúpa sig í æ ríkari mæli og skerða lífsskilyrði manna um alla jörð ?

 

Nýlega hafa vötn við borgina Bangalore í Indlandi farið að loga og jafnvel er talið að tilvistarstaðan í þeirri borg verði orðin þannig um 2025 að ekki verði unnt fyrir fólk að lifa þar. Það er hryllilegt að hugsa til þess hvað skammsýni og græðgi manna geta valdið miklum skaða og er umrædd borg eitt dæmi af fjölmörgum um það !

 

Eitt sinn var þetta Vatnaborgin fagra og náttúrufar og umhverfi stórbrotið, en nú eru vötnin kringum borgina og í borginni hinsvegar orðin svo menguð að það kviknar í þeim og úrgangur og allskyns viðbjóður er um allt. Dauður fiskur liggur þar í hrönnum og heilbrigt vistkerfi virðist endanlega að brotna niður ! Hvernig slökkva menn vítiselda sem loga í vötnum ?

 

Samkvæmt skýrslu Heilbrigðis-stofnunarinnar eru 13 af 20 mest menguðu borgum heimsins í Indlandi og þó er Bangalore ekki talin í þeim hópi. Mengunarástandið í Nýju Delhi er jafnvel tvöfalt verra en í Beijing þar sem það hefur nú ekki þótt gott og þær eru farnar að verða allnokkrar borgirnar sem eru beinlínis orðnar lífshættulegur verustaður fyrir þá sem búa þar. Skeytingarleysi yfirvalda er og hefur verið með ólíkindum varðandi þessi mál víða um heim og mál að linni !

 

Í Suður-Kóreu og í Japan er ástandið slæmt í helstu iðnaðarborgunum og sama má eiginlega segja um allan hinn iðnvædda hluta heimsins. Í múslimaheiminum víðasthvar er ástandið mjög slæmt og umhverfismál í sérlega vondu fari. Alls staðar hafa menn verið að hugsa um hámarksgróða og hvergi sinnt umhverfismálum af neinni ábyrgð og nú fer að koma að skuldadögunum !

 

Jörðin er að verða baneitruð ruslakista fyrir tilverknað þeirra valda-aðila sem hugsa ekki um neitt nema að hámarka auðsöfnun sína á kostnað lífsins. Ef ekki verður gagngerð breyting á viðhorfum innan tíðar erum við öll á kolsvörtum glötunarvegi og börnin okkar erfa engan heim til að lifa í !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 365493

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 508
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband