Leita í fréttum mbl.is

Upplausnin í íslenskum stjórnmálum !

 

 

Nú er að renna á stjórnmálahirðina í landinu enn einn kosningaskjálftinn þó skammt sé frá þeim síðasta. Fólk á þingi og í stjórn er farið að tala á ný í loforðastílnum alræmda sem aldrei virðist þurfa að hafa neitt raunhæft innihald.

 

Við sem viljum að kjörnir fulltrúar á þingi axli þá ábyrgð að koma á stjórn sem sitji út kjörtímabilið, getum ekki verið sátt við aumingjadóminn sem lýsir sér í dagfari þessara fulltrúa okkar og þjóðhagslega svikulu framferði !

 

Að skella á öðrum kosningum núna, ári eftir þær síðustu, er að bruðla með fjármuni þjóðarbúsins og sýna vítavert kæruleysi gagnvart almenningspyngjunni. Og þetta gerir fólk sem sannarlega hefur fengið sína kauphækkun og fyrir hvað eiginlega ?

 

Þessar 400 milljónir eða þar um bil sem fara í þessar óþörfu kosningar væru betur komnar í heilbrigðiskerfinu okkar og þá til að bæta kerfið en ekki til að svínala sérfræðinga. Þessar kosningar eru óþarfar vegna þess að ef það væri hér starfhæft þinglið hefði ekki þurft að gera þær síðustu ómerkar.

 

Í þess stað hefðu menn axlað ábyrgð sína, myndað samsteypustjórn af festu og heilindum og unnið sín verk í þjóðarþágu út kjörtímabilið. En það er sannarlega ekki því að heilsa !

 

Stjórnmálahirðin hleypur öll út og suður í stefnulausri ólgu augnabliksins. Allir vilja dansa með í teningaspili tálhyggjunnar og þjóðin fær sem fyrr að borga brúsann, hin villuleiðandi veisluhöld þessarar lýðræðis-afskræmingar !

 

Íhaldið talaði einu sinni fjálglega um vinstri glundroða og sagði að vinstri stjórnir sætu aldrei út kjörtímabilið. Síðustu 3 ríkisstjórnirnar sem íhaldið hefur setið í og haft forsæti í tveimur, hafa nú ekki setið út kjörtímabilið og sprungið allar. Þær hafa ekki ráðið við verkefnin. Þær hafa hrunið jafnt í hruninu sem eftir hrunið !

 

Sjálfsagt segja sjallar að þeir hafi staðið sína plikt en hinir brugðist. En það segja allir í pólitík. Það er hinsvegar á ábyrgð forsætisráðherrans hverju sinni að halda saman sinni stjórn og geti hann það ekki, fellur stjórnin. Bjarni Benediktsson myndaði stjórn sína í upphafi á mjög veigalitlum forsendum og honum tókst ekki að byggja neitt ofan á þá tæpu undirstöðu. Stjórn hans var því feigðinni mörkuð frá byrjun !

 

Engeyjarstjórnin er fallin ! Hún bauð ekki upp á bjarta framtíð eða viðreisn í neinum skilningi, hún bauð aðeins upp á vanabundinn hægristjórnar sleikjuhátt við auðstéttina í landinu. Hún var mynduð af misskilningi, getin í glapræði og síðast hengd af sjálfsskaparvítum - í eigin snöru. Enginn sér eftir henni en hverju verður áorkað með nýjum kosningum þegar mikið til sama óheillaliðið býður sig fram aftur eða nýkaraðir framapotarar af sama sauðarhúsi ?

 

Íslensk stjórnmál eru í upplausn og hver höndin uppi á móti annarri. Ný flokksskrípi virðast ætla að streyma fram á vonglöðum, upphituðum bylgjum valdasýkinnar og allir þykjast ætla að verða riddarar réttlætisins !

 

Ekki bauð það upp á gott þegar svonefndir píratar þóttust ætla að bjarga þjóðinni en fóru í allt með öfugum formerkjum, Dögun leið snarlega að aftni, Björt framtíð varð fljótt óttarslegur hundskinnsútnári hræsninnar, Samfylkingin er svipur hjá sjón en enn vilja samt spánnýir riddarar spreyta sig í burtreiðum hins ætlaða lýðræðis !

 

Nú virðist kominn á sviðið einhverskonar Samvinnuflokkur sjálfshyggjunnar, Simma Sóló flokkurinn, Miðflokkur afdankaðs Framsóknargoða sem vill heita eitthvað mikið áfram, svo verða kannski Smára-sósíalistar og fleiri á græðgislegum atkvæðaveiðum. Allskyns lýðskrumarar eru vísast sem fyrr tilbúnir að bjóða upp á allt - nema efndir !

 

Halda menn svo að það verði hægt að mynda ábyrga og sterka ríkisstjórn eftir slík ósköp, á einhverju brotabrotaþingi ? Nei, þessar 400 milljónir fara vísast fyrir lítið eins og svo margt annað af almannafé í þessu ráðleysu-herjaða þjóðfélagi !

 

Ætla menn virkilega að halda áfram þessu glórulausa sundrungarstarfi og eyðileggja lýðræðið endanlega ?

 

Á svo öskurkór andskotans að æpa eftir handleiðslu sterka mannsins - beint úr rústum íslensku lýðræðisbyggingarinnar, hrópa á einvaldinn sem á að koma öllu svínaríinu í lag, líklega undir stormsveitarstefinu - ,,Turn the Wheel Back to 1933 ! “

 

Ætla menn að láta sundrungaröfl sjálfselskunnar leiða íslensku þjóðina fram af Illukleif pólitískra gerningahríða og niður í botnlausan Dauðadalinn ?

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 27
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 596
  • Frá upphafi: 365494

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 509
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband