Leita í fréttum mbl.is

Nokkur orð um ,,flott fólk” !

 

Um daginn heyrði ég nýjan alþingismann tala um flokk sinn og síðustu kosningar. Talaði hann um uppstillingu á framboðslistum þar. Varð hinum nýbakaða þingmanni tíðrætt um að vel hefði tekist þar til með val á frambjóðendum og margt flott fólk komið þar inn !

 

Nú er það svo, að ef talað er um að sumir séu ,,flott fólk,” má gera ráð fyrir að slík umsögn feli það í sér að til sé annað fólk sem sé þá ekki flott. Og þar sem viðkomandi þingmaður er úr Samfylkingunni, sem telst vera jafnaðarmannaflokkur, varð þetta mér nokkurt umhugsunarefni !

 

Ég hefði ekki verið neitt hissa á því að heyra svona tekið til orða af þingmanni úr hægri flokki, einhverjum með þrá í huga eftir horfinni Versaladýrð, en af hverju talar yfirlýstur jafnaðarmaður svona ?

 

Hvaða jafnaðar-sjónarmið liggja að baki því að skilgreina suma sem flott fólk og viðhafa slíka aðgreiningar umsögn ? Það væri fróðlegt að vita hvað lægi að baki þessari flott-lýsingu !

 

Sumir tala um að það séu tvær þjóðir í þessu landi og er í því sambandi einkum vísað til vaxandi misskiptingar og aukinnar fátæktar í okkar samfélagi. Það er náttúrulega ekki góð framvinda í málum og mikil þörf á réttum viðsnúningi þar !

 

En skyldi fátækt fólk flokkast undir það að vera flott fólk í hugarheimi jafnaðar-þingmannsins ? Ég er ekki viss um það, enda aðalatriðið í mínum huga að fólk sé gott hvað sem líður flottheitunum !

 

En við vitum líka að til er svokallaður ,,stjörnuheimur,“ þar sem fólk þykir flott í augum þeirra sem hylla hégóma og yfirborðsmennsku. En í þeim heimi ríkir líka eindæma mikil sérgæska, mismunun, ójöfnuður og ranglæti !

 

Ég vona að jafnaðar-þingmaðurinn sé ekki að vísa til einhvers sem er talið flott í einhverjum stjörnuheims skilningi, því slíkt viðhorf á sannarlega heima annars staðar en hjá þingmanni sem býður sig fram til að vinna að hugsjónum jafnaðarstefnunnar ?

 

Í gamla daga þegar svokallað aðalsfólk ráðskaðist með réttindi annars fólks á svívirðilegan hátt, lá ljós fyrir skilgreiningin á flottu fólki. Það voru afæturnar sem lifðu á erfiði annarra – blóðsugur þeirra tíma !

 

Í seinni tíð hefur borið á því að menntahroki hafi tekið við af aðalshrokanum og þar sé nútíma skilgreiningin á því hvað sé flott fólk í dag og kannski eru bara blóðsugurnar komnar aftur – eða fóru þær kannski aldrei ? Biðu þær bara nýrra tækifæristíma og eru þeir kannski komnir núna ? Eftir því sem gráðurnar eru fleiri á manneskjan að vera flottari !

 

En hvað sagði Oscar Wilde eitt sinn: ,, Education is an admirable thing, but it is well to remember from time to time that nothing that is worth knowing can be taught !“

 

Hégóminn er samt alltaf samur við sig og manngildið á alltaf í vök að verjast gegn honum og fylgjendum hans. Alltaf eru fundnar upp nýjar leiðir til að aðgreina fólk og setja upp einhverja goggunarröð, einhvern tignarstiga, einhverja metorðaskráningu !

 

Og inntakið í því öllu er sama gamla sjálfsupphafningar-tuggan : Ég er betri, meiri og merkilegri maður en þú, ég á að hafa margfaldan rétt umfram þig !

 

En allt slíkt framafíknareðli byggir sitt á eftirsókn eftir vindi og hefur mjög lítið að gera með raunverulegt manngildi sem býr miklu frekar og öllu heldur í því sem er gott heldur en því sem þykir flott !

 

Ef framboðslistar vitnuðu meira um það að gott fólk væri þar að finna, gott fólk með hjarta fyrir samfélagi sínu, værum við á mun betri braut en ella, jafnvel þó fólk sem þætti flott kæmi þar lítið sem ekkert við sögu. Yfirborðsmennska gyllinganna á aldrei raunhæfa samleið með heilbrigðu manngildi !

 

Ekki kæmi mér á óvart að umræddur jafnaðar-þingmaður hefði þá skoðun að ríkisstjórnin nýja sé skipuð flottu fólki en ekki finnst mér það. Það er margklifað á því að þar sé fólk sem komi úr ólíkum flokkum, en er það í rauninni svo, er þetta ekki bara mjög líkt fólk, fólk sem er fyrst og fremst upptekið af eigin frama og ferilskrá ?

 

Það mun sannast með þessa ríkisstjórn eins og annað sem líkt er á komið með, að þegar sáningin er slæm getur uppskeran aldrei orðið góð !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 597
  • Frá upphafi: 365495

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 510
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband