Leita í fréttum mbl.is

Offjárfestingar og aðrar ljótar lenskur !

 

Íslendingar hafa oft fengið orð fyrir að vera gullgrafarar, eða sú tegund slíkra sem oftast er einhverskonar helmingablanda skýjaglóps og grasasna. Ef þeir halda að einhvern gróða sé að hafa út úr einhverju rjúka allt of margir á sömu mið og hver spillir fyrir öðrum. Við vitum hvernig menn spiluðu sig út og suður í síldveiðimálunum hér áður fyrr og við vitum hvernig hefur gengið í refa og minkarækt og fiskeldi !

 

Hrunið varð að mestu leyti afleiðing offjárfestinga, þar sem frjálshyggjusinnaðir gróðapungar óðu í lánsfé og ætluðu að verða ofboðslega ríkir. Spilaborgirnar risu hver af annarri og ótrúlegustu menn létu hafa sig að fíflum, en svo kom að skuldadögunum og allt hrundi !

 

Síðasta offjárfestingar-dæmið og ekki það minnsta er ferðamennskan. Hún byggist á þeirri innbyggðu óskhyggju að ferðamenn komi hingað í stórum stíl til frambúðar. Hótel og gistihús þjóta upp út um allar koppagrundir og allir ætla að græða. Bankar og lánastofnanir dragast með í ævintýrið og veita að því er virðist ótakmarkaða fyrirgreiðslu í greinina. Allt á að koma margfalt til baka og ábyrgðin er líklega einhversstaðar í skýjunum !

 

En hvað gerist ef ferðamenn taka nú skyndilega upp á því að hætta að mestu að koma til Íslands ? Hér sé allt orðið svo dýrt og betra að fara eitthvað annað !

 

Þetta gerði síldin hér um árið. Hún tók upp á því að fara annað og ruglaði allar áætlanir og ófáar fjárfestingarnar urðu að engu. Verksmiðjur sem reistar voru og áttu að mala gull eru enn að grotna niður víða um land, vegna þess að menn yfirspiluðu allt í gróðafíkn sinni og lífskjör í landinu versnuðu auðvitað fyrir vikið !

 

Þjóðin borgaði náttúrulega brúsann því skuldakóngarnir eru alltaf látnir sleppa !

 

Hvað ef gullgæsin í ferðamannageiranum flýgur annað ? Hverjir borga brúsann af öllu sem þá verður í bullandi skuld ? Ekki hið glaðbeitta gróðalið, það get ég sagt ykkur. Þjóðin verður látin standa ábyrg fyrir ábyrgðarleysinu. Það eitt er víst !

 

Íslenskir ráðamenn tala oft í hátíðarvímu um land mikilla náttúruauðæfa, orkuríkt land með hafmið ríkrar auðlegðar, land sem flýtur í mjólk og hunangi - svo forn samlíking sé notuð. En það er eins og það sé föst opinber stefna stjórnvalda að fólkið í landinu – yfir heildina, skuli aldrei fá að njóta þessara gæða lands og sjávar. Öll gæði skulu fá greiða leið í einkavasana !

 

Ríkið á samkvæmt hugsun blámanna hægri-ómennskunnar einungis að hafa á hendi óarðbæran rekstur. Allt sem getur skilað hagnaði á að vera í höndum einkaaðila. Ríkið á samkvæmt því að hafa á hendi alla kostnaðarliði í ferðaþjónustu en einkaaðilar eiga að hafa alfrjálsan aðgang að gróðanum. Þjóðin öll á að borga kostnaðar-liðina en einkaaðilarnir eiga að fá að græða hömlulaust - eiga að fá að okra og svína á þeim sem hingað koma – þangað til þeir hrekja þá endanlega burt !

 

Afleiðingar græðginnar munu verða þær sömu hér og þær hafa orðið alls staðar þar sem þannig hefur verið staðið að málum. Gullgæsin hættir að verpa, hún getur kannski verpt 20 eggjum á ákveðnum tíma en það er ætlast til að hún verpi 50. Blóðmjólkuð kýr skilar ekki gæðum til langframa. Ágirndin er rót alls ills !

 

Og náttúruperlur landsins sem hafa verið troðnar niður í skít undanfarin ár verða lengi að jafna sig eftir áganginn og enginn mun taka ábyrgð á því né græða sárin. Þjóðin mun sitja uppi með ósómann - og kostnaðinn !

 

Lífskjör á Íslandi eru ekki síst - af þessum ágirndar-ástæðum aurasjúks fólks - langt á eftir miðað við hin Norðurlöndin og félagsleg aðhlynning að öllum sem þurfa skilnings við, er á brauðfótum. Það má nánast sjá á öllum málaflokkum. Hér ríkir rangur hugsunarháttur, siðblindur hugsunarháttur frjálshyggju og glæpsamlegrar gróðahyggju !

 

Ef haldið verður áfram á slíkri braut verða afleiðingarnar hrikalegar fyrir þjóðina. Hægristjórn íhaldsins sem nú situr að völdum með leppum sínum er stjórn sem er ekki með neina hugsun við almenna velferð. Þar er bara einblínt á fyrrnefnda blámannahugsun – ofþenslu einkagróðans. Haldið er áfram að byggja upp  auðstétt í krafti græðgisvæðingar og valds hinna fáu !

 

Ísland verður í gegnum slíka græðgis og gróðasýn sérgæskunnar að Blámannsey, – eins og segir í hinni heimsfrægu sögu Agöthu Christie. Allir tortímast að lokum fyrir eigin ágirnd vegna algjörs skorts á heilbrigðri lífssýn. Engin sönn lífsgildi fá þá varið neitt. Glæpir og mistök fortíðar kalla á sitt endanlega uppgjör. Það kemur alltaf að skuldadögunum !

 

Þegar bara er fjárfest í græðgi er ekki við góðu að búast því græðgin er ættuð beint úr helvíti. Þangað fara þeir áreiðanlega líka að lokum sem hafa alið sig á græðgi í gegnum lífið, sjálfum sér og öðrum til bölvunar. Slíkra bíður engin blessun !

 

Hvenær á almenningur á Íslandi að fá að búa við lífskjör sem taka mið af auðlindum lands og sjávar ? Af hverju er sérgæskan látin valta hér yfir allt sem heilbrigt er ?

 

Ætlum við sem þjóð alla tíð að láta fámenna auðstétt ráðskast hér með allt líf okkar og barna okkar út yfir gröf og dauða, eins og það sé eini valkostur lífsins ?

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 208
  • Sl. sólarhring: 247
  • Sl. viku: 777
  • Frá upphafi: 365675

Annað

  • Innlit í dag: 202
  • Innlit sl. viku: 687
  • Gestir í dag: 199
  • IP-tölur í dag: 197

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband