Leita í fréttum mbl.is

Ríki í höndum óvita !

 

Byssur eru átrúnaðargoð í bandarísku samfélagi. Jafnvel maður sem veit að hann er að öllu jöfnu mesti ræfill, trúir því að hafi hann byssu í höndum sé hann það ekki lengur heldur allt annað og meira. Þá hafi hann vald og burði til hvers sem er.

Þjóðfélagsandinn virðist hreint út sagt gegnsýrður sannfæringu á aukið manngildi fyrir tilverknað byssueignar. Þvílík reginvilla í hugsun á 21. öld eftir Krists burð !

 

Í Bandaríkjunum skrúfa menn sig enn fasta við skoðanir sem þóttu skiljanlegar á 18. öld. En allar aðstæður eru gjörbreyttar. Það eru engir hefndarþyrstir indíánar við dyrnar núna. Hættan í bandarísku þjóðfélagi nútímans er innandyra. Hún er sköpuð af viðhorfum sem verða til fyrir vaxandi öryggisleysi hvers og eins gagnvart hættulegu umhverfi og vafasömu mannlífi þar sem glæpir eru daglegt brauð í stórum stíl !

 

Í slíku samfélagi telja sýnilega flestir sig þurfa að vera gráa fyrir járnum þar sem enginn ber traust til annars. Og vopnin hlaðast upp á heimilunum, ekki bara venjuleg skotvopn, heldur líka hraðvirkar fjölskotabyssur. Framleidd verkfæri til drápa í miklu magni - fjöldamorða !

 

Og þegar einhver klikkast alveg við þessar afar óheilbrigðu mannlífsaðstæður, sem gerist æ oftar, verða afleiðingarnar oftast þær - að svo og svo margir liggja í valnum ! Og þeir sem hafa þannig verið drepnir með bandarískum heimilistækjum, hafa ekki fallið fyrir neinni utanaðkomandi ógn !

 

Þeir hafa verið skotnir af fjölskyldumeðlim, vini eða nágranna eða bara einhverju firringar-fórnarlambi þess byssu brjálæðis sem fær að drottna í Bandaríkjunum - hinum alræmdu byssudýrkunarríkjum !

 

Gömul sannindi segja, eins og ég hef áður minnst á, að það eigi ekki að leyfa óvitum að hafa í höndum hættulega hluti, hvað þá lífshættulega. Í Bandaríkjunum virðast hinsvegar vera til staðar óvitar í slíkum efnum alla leið upp í Hvíta húsið !

 

Þessir óvitar hafa það í höndum sem þeir kunna ekki með að fara og sem ráðamenn virðast þeir alveg ófærir um að setja lög til varnar borgurum landsins. Þeirra eigið frelsi frá fyrri tíð er sýnilega að tortíma þeim og öllum þeim friði sem þeir ættu að geta búið við, ef þeir kynnu að gæta heilbrigðra lífshátta !

 

Samfélagshugsun í Bandaríkjunum er ekki þróað fyrirbæri þar sem einstaklingshyggjan hefur fengið að drottna í öllum greinum og öllum er innrætt að hver sé sjálfum sér næstur. Lífsfirring við slíkar samfélagsaðstæður er eðlileg afleiðing rangra viðhorfa sem eru miklu nær því að rífa niður en byggja upp !

 

Það þarf víst enginn að vera hissa á því að um 45000 borgarar Bandaríkjanna fremja sjálfsmorð á ári og er sú dánarorsök meðal þeirra tíu algengustu í þessu sjálfskipaða dýrðarlandi frelsisins. Nóg hefur jafnan verið um manndrápin í Bandaríkjunum enda morðtólin alls staðar við hendina, en sjálfsmorðin eru meir en tvöfalt fleiri.

 

Það er sjáanlega svo í augum margra að það sé of áhættusamt orðið að lifa í landinu sem drembilátir Kanar kalla gjarnan Guðs eigið land !

 

Hvað er til ráða ? Hvað getur breytt þessum geðveika hugsunarhætti sem virðist flæðandi um allt stjórnkerfi Bandaríkjanna og gerir þetta stórveldi heimsins að varnarlausu sjálfskaparvíti fyrir borgara landsins, að höfuðvígi heimskunnar, að aðalbraut hins ótakmarkaða byssuvalds ?

 

Það verður að stöðva þennan hugsunarhátt því hann er rangur, hann er hættulegur öllu löglegu valdi og stendur allri eðlilegri framvindu mála fyrir þrifum. Öryggisleysi manna getur orðið svo mikið að hver drepi annan !

 

Rodney King óeirðirnar hafa sýnilega ekki kennt mönnum neitt. Enn er vegið í sama knérunn víðasthvar í Bandaríkjunum og sáð fyrir verri hlutum í komandi tíð.

 

Unga fólkið í Bandaríkjunum er að sjá þetta í gegnum hrylling daganna og vakna til vitundar um þá hættu sem ógnar samfélagi þeirra og allri framtíð. Það segir : Hingað og ekki lengra !

 

En ráðamennirnir, ríkiskerfið, lögreglan, þeir sem völdin hafa, fylgja enn hinum ofbeldissinnuðu sjónarmiðum byssuvaldsins. Þar má ekki hagga við neinu, að þeirra dómi. Þeir segja : ,, Með illu skal illt út reka” og veifa kokhraustir skotvopnum sínum. Sjálfstæðisyfirlýsingin heldur ekki Bandaríkjunum saman að þeirra mati, heldur byssan. Sá sem heldur á byssunni hefur valdið og fær þannig að drepa !

 

Þessir blindu ráðamenn rífa Sjálfstæðisyfirlýsinguna niður á hverjum degi, gera lítið úr vægi hennar, gildisfella hana lið fyrir lið, skilja ekki söguleg sannindi og einskisvirða arfleifð þjóðarinnar. En byssuna hefja þeir til vegs og virðingar í hverju skúmaskoti hinnar amerísku ríkishallar og fylgja hverjum óvitahætti í þeim málum eins og frekast má – í nafni frelsisins !

 

Fórnarlömbunum mun því líklega fjölga enn um sinn, en vonandi heldur unga fólkið baráttu sinni áfram gegn þessum mannskemmandi hugsunarhætti sem ræður og vonandi birtir svo til á næstu árum að 45000 manns hætti að taka sitt eigið líf árlega vegna vonleysis og vantrúar á lifandi framtíð - í ríki sem óvitar stjórna !

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 219
  • Sl. viku: 666
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 587
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband