Leita í fréttum mbl.is

Notum skynsemina gegn glóruleysinu !

 

Heimsbyggðin er í þeirri stöðu að geta verið sett hvenær sem er í ægilegar aðstæður, eingöngu á forsendum persónulegra hagsmuna einstakra valdamanna. Það er vont að lifa við þá staðreynd !

 

Það dylst til dæmis engum sem rýnir í kortin, að töluverð aukning hefur orðið á síðari árum af óhæfum forustumönnum, sem hafa sleikt sig upp í valdastóla með lygum og lýðskrumi. Slíkir menn eru og verða alla tíð háskagripir og ávísun á slæma hluti og myndu raunar hvergi ná því að verða leiðtogar ef vitræn afstaða og heilbrigðar aðstæður réðu kjöri !

 

Hvað halda menn til dæmis að Trump Bandaríkjaforseti gerði, ef hann teldi víst og tryði því að stríð við Íran myndi tryggja honum endurkjör í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum ? Væri þá eitthvað verið að velta fyrir sér þjáningum milljóna manna af völdum slíks stríðs, yrði ekki bara hjólað undir blikandi stjörnufánum stórveldisins í enn eina helförina í Mið-Austurlöndum ?

 

Trump hefur að vísu oft talað um að fækka í herliði Bandaríkjanna víða um heim og segist öllu jafna vera andvígur stríði, en orð og gerðir virðast því miður sjaldan fylgjast að í háttalagi hans, enda maðurinn hið mesta ólíkindatól. Það er því erfitt að vita upp á hverju hann kann að taka ?

 

Hvar er annars friðurinn sem átti að komast á í Írak fyrir tilstilli Bandaríkjanna ? Eftir því sem best verður vitað, hefur ástandið í landinu eftir Flóastríðin lengstum verið miklu verra en meðan Saddam Hússein var og hét. Var hann þó enganveginn góður !

 

Hvað hefur unnist í Afghanistan ? Hvernig hefur verið farið með Sýrland ? Hvar er Libýa á vegi stödd ? Öll þessi ,,frelsuðu” lönd búa við stóraukið og margfaldað helvíti stríðs og neyðar – eftir bandarísku hjálpina !

 

Á nú kannski að bæta ,,frelsun” Írans við á bandaríska bjargráðalistann og gera öll Miðausturlönd að kraumandi nornakatli ótakmarkaðra stríðshörmunga til margra ára, í viðbót við það sem þegar er búið að skapa ? Og verður það kannski niðurstaðan, og þá helst til þess að tryggja óhæfum bandarískum forseta endurkjör ?

 

Bandaríkin hafa lengi viljað vera ráðamest í heimsmálunum, en þau eru sem stendur sjálf forustulaus í þeim efnum. Forstjórinn í Hvíta húsinu virðist eins þekkingarlaus varðandi alþjóðlega pólitík eins og hægt er að vera. Hann treður jafnvel illsakir við nánustu stuðningsríki Bandaríkjanna !

 

Skilningur hans á milliríkjamálum virðist nánast enginn og hann reynir oft að bæta upp það augljósa vanhæfi sitt með ótíndum hroka. Og sú breytni hefur iðulega orðið honum til hinnar mestu skammar !

 

En það sem er kannski verst, er að gegn þessum ómögulega valkosti, sem Trump svo sannarlega er, virðast demókratar ekki geta stillt upp neinum verulega frambærilegum manni, enda virðast þar helst í boði afgamlir og heilsutæpir kerfisjálkar. Hafa demókratar virkilega engum á að skipa sem getur staðið fyrir einhverri nýskipan í bandarískum stjórnmálum, engum manni sem getur boðað raunhæfa framtíðarsýn, nýja New Deal stefnu ?

 

Forustu hins vestræna heims er í vondum höndum þar sem Bandaríkjamenn eru. Átökin milli einræðistilburða Trumps forseta og lýðræðislegra grundvallarsjónarmiða bandaríska stjórnkerfisins eru mjög hættuleg og þarf ekki mikið að fara úrskeiðis þar til að þau valdi varanlegum skaða, jafnt heima fyrir sem á heimsvísu. Lýðræðið er víða í hættu í þessum heimi og jafnvel þar sem síst skyldi !

 

Í umræddum átökum er verið að leika sér að eldi sem gæti breiðst út í mannkyns-bölvuðu margfeldi og yrði ekki slökktur svo glatt. Hinir ægilegu Ástralíueldar myndu ekki þykja mikið mál í þeim samanburði !

 

Margir eru úlfar í sauðargæru, margir eru kosnir til góðra verka, en svíkja síðan allt sem þeim var trúað til að gera. Jafnvel Hitler var kosinn í upphafi með lýðræðislegum hætti. Þvílíka heimsbölvun dró sú kosning á eftir sér !

 

Nú er hægt með fullum rétti að segja að ýmsir smáhitlerar séu hér og þar við völd. Hvernig stendur á því, lærum við aldrei neitt ? Af hverju er ekki hægt að losna við slíka óværu af skildi mannkynsins ? Eru menn aftur farnir að sá fyrir tilkomu einhvers Stórhitlers, kannski Antikrists ?

 

Lýðræðið í heiminum á vissulega marga óvini og við skulum ekki gleyma því að það á sér ekki langa sögu. Það er með öðrum orðum hægt að koma því á kné og nógir virðast fúsir til þess verks. Viljum við að það verði ?

 

Við erum sannarlega ekki að troða veg til velferðar með mörgu af því sem við gerum. Það er löngu tímabært að taka upp aðra stefnu. Ef mannkynið og framtíð þess á að geyma í sér gildið mesta í þeirri stefnumörkun, verður mörgu að breyta. Það ætti ekki að dyljast neinum manni !

 

Og nú höfum við ekki einu sinni efni á því að bíða með slíkar breytingar. Lífið á blessaðri jörðinni okkar er nefnilega á beinni dauðaleið, það er að kafna í mengun og skít. Jafnvel börnin eru farin að skilja það !

 

Víst er að ef Donald Trump verður endurkjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember næstkomandi, verður það engu til stuðnings - nema óbreyttum helstefnuháttum mannkynsins – áframhaldandi dauðaleið !

 

Og því miður virðist mannkynið enn sem fyrr vera villuráfandi og algerlega ófært um að bjarga sér til áframhaldandi lífs á þessari jörð !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 167
  • Sl. sólarhring: 213
  • Sl. viku: 736
  • Frá upphafi: 365634

Annað

  • Innlit í dag: 162
  • Innlit sl. viku: 647
  • Gestir í dag: 162
  • IP-tölur í dag: 160

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband