Leita í fréttum mbl.is

Hvaðan, hversvegna, hvert ?

 

Við þekkjum það öll að lífið er hverfult og það á sín endamörk í þeirri mynd sem við þekkjum það.

Þær raddir sem við höfum þekkt og kunnað að meta, hljóðna að lokum eins og okkar eigin rödd hljóðnar einhvern daginn. Það er gangur lífsins eins og menn segja, en þó öllu heldur gangur dauðans, því það er hann sem rýfur framvinduna og breytir öllu !

 

Jafnvel í bloggheimum finnum við fyrir þessu, því þar er sama lögmálið að verki. Raddir rísa, raddir hljóðna. Raddir margra sem þar hafa látið til sín heyra eru þagnaðar og stundum gerist það snögglega. Menn ræða dægurmálin fram á síðustu stund og svo eru þeir skyndilega horfnir. Staðreyndir lífsins eru oft dapurlegar og ekki síst þær sem tala um óhjákvæmilegan aðskilnað !

 

En allt frá byrjun gengur lífsferlið út á það að það verði aðskilnaður. Að lokum og stundum allt í einu hljóðna raddirnar í kringum okkur, við heyrum þær ekki lengur. Manneskjur hætta að vera til fyrir sjónum okkar og við finnum þær ekki framar nema í minningum frá liðnum tíma !

 

Það er dapurleg framvinda og enn í dag, þrátt fyrir allar hinar miklu framfarir í tækni og efnislegum hlunnindum, erum við engu nær um hinar þrjár meginspurningar lífsins. En þær eru samt á stöðugu róli í sálum okkar og öllu hugsanalífi. Þar hljóma þær óaflátanlega og biðja um svör. Við þráum öll að vita svörin við þeim. Hvaðan komum við, hversvegna erum við hér, hvert förum við ?

 

Í bloggheimum er tekist á um margt. Menn hafa misjafnar skoðanir á nánast öllum hlutum. Menn deila um alla skapaða hluti og stundum býsna óvægilega. En í raun eru það þessar fyrrnefndu höfuðspurningar sem brenna á öllum. Og berlegt er, að heimslegar framfarir, aukin tækni og yfirlýst menntunarsókn skilar okkur engu í því sambandi. Það allt heldur okkur öllu frekar fjær svörum !

 

Til hvers er þá þetta allt ? Þessi tilvera sem virðist ekki búa yfir neinni andlegri þroskasókn, þar sem allt virðist snúast í heimskulega hringi ömurlegrar sérgæsku, nánast frá vöggu til grafar ? Það er engin merkjanleg stefna hærra og upp, allt rekur að því er virðist á reiðanum norður og niður. Hverskonar sjónarspil er þetta líf eiginlega, þar sem allt virðist enda með óhjákvæmilegum dauða ?

 

Eitt er víst, að í allri hinni sjálfumglöðu þekkingu okkar liggur það ljóst fyrir – að við vitum ekki neitt. Við þekkjum ekki orsakir og afleiðingar þess lífs sem við lifum. Við vitum ekkert hvað verður um okkur og hvað felst í hinum svokölluðu vistaskiptum. Við erum á nákvæmlega sama stigi og einfaldi vinnumaðurinn sem sagði um miðja nítjándu öldina, spurður hvað hann héldi að yrði um hann eftir dauðann, og svaraði ,, ég læt það bara ráðast !”

 

En einhversstaðar hljóta að finnast svör og víst er að þeirra er hvorki að leita í yfirfljótandi tæknistigi né yfirborðskenndri menntun. Ef svo væri myndum við finna að eitthvað hefði miðað áleiðis. En okkur hefur í raun heldur miðað afleiðis og nú eyðum við tíma okkar í að umfaðma allskyns skurðgoð fánýtis og hégóma !

 

En dauðinn mun koma og banka að dyrum einn daginn. Við finnum fyrir honum þegar raddirnar hljóðna í kringum okkur, við finnum fyrir honum í bloggheimum og hvar sem er. Þegar ein rödd er þögnuð og horfin er samhljómur lífskórsins ekki lengur sá sami !

 

Af hverju leitum við alltaf hinna dýpstu svara á kolröngum stöðum ? Af hverju sitja menn við falskar uppsprettur lífið út í gegn og bíða sannleikans þar ? Eigum við enga von um að heyra aftur raddir þær sem við höfum elskað ? Höfum við fengið glötunina eina í vöggugjöf ?

 

Af hverju göngum við í myrkri, fyrst við vitum í sál okkar að ljós er til ? Erum við orðin svo tæknileg og efnisleg að við höfnum því að vera andleg ? Þurfum við ekki öll fyrst og fremst á því að halda, að vera endurborin til lifandi ljóss og þess samfélags sem dauðinn getur ekki sigrað ?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 170
  • Sl. sólarhring: 215
  • Sl. viku: 739
  • Frá upphafi: 365637

Annað

  • Innlit í dag: 165
  • Innlit sl. viku: 650
  • Gestir í dag: 165
  • IP-tölur í dag: 163

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband