Leita í fréttum mbl.is

Að fela öðrum fjöregg þjóðarinnar !

 

Það er alkunna, þó reynt hafi verið að hafa ekki hátt um það, að offjárfestingar í ferðaþjónustugreinum hafa verið miklar hér á landi um allmörg undanfarin ár. Hótel hafa flogið upp um allt land og sum þeirra eru engin smásmíði, allskyns húsnæði annað hefur verið gert upp til að taka á móti ferðamönnum og allrahanda útgerðir settar á fót, bíla og rútufloti til skoðunarferða og peningaflæðið í kringum þetta allt verið með ólíkindum !

 

En eins og stundum vill verða með blessað einkaframtakið hér á landi og líklega víðar, eiga kostnaðarliðirnir að dæmast á ríki og sveitarfélög, en gróðinn að sitja eftir hjá hinum svokölluðu athafnamönnum !

 

Aðgengi að náttúruperlunum okkar þarf að vera miklu betra að mati slíkra sérhagsmuna-aðila og ríki og sveitarfélög eiga auðvitað að sjá um það. Það eru nefnilega kostnaðarliðir og Klondike-riddarar vilja sem minnst af þeim vita í sínu einkaframtaki !

 

Bankarnir hafa lánað býsna mikið í þessi ferðaþjónustumál, en ábyrgðaraðilinn er auðvitað samfélagið, ef illa fer. Þá á þjóðin að borga tapið. Svo hefur græðgin í þessari grein valdið slíkum verðhækkunum á þjónustu að þegar er trúlega búið að skemma talsvert fyrir varðandi áhuga annarra þjóða fólks að koma hingað. Stundum fara ferðaþjónustuaðilar nefnilega heilan hring í áróðri og auglýsingamennsku, og átta sig ekki á því að þeir eru þá farnir að mæta sjálfum sér í gagnstæðum anda !

 

Hreint land, fagurt land, rímar til dæmis ekki beinlínis við það að selja vatn á flöskum á hótelum í Reykjavík, til að drýgja ágóðann. Svo er sagt aftur og aftur að fólk sé í þessu ferðamennskustandi af hugsjón…..!

 

Nei, það er engin hugsjón í þessu, það er bara blind gróðahvötin sem rekur þetta fólk áfram. Væru málin rannsökuð ofan í kjölinn er ég sannfærður um að það kæmi skýrt í ljós, að hugsjónir eiga þarna lítinn sem engan hlut að máli. Þetta er bara púra bisniss upp á harðsoðna, ameríska vísu !

 

Þó að það hafi lengi legið fyrir, að offjárfestingar ferðaþjónustunnar myndu enda með einhverskonar brotlendingu þó Covid-19 kæmi ekki til, er ljóst að hliðstæð útkoma er í sjónmáli vegna afleiðinga veirufaraldursins. Og þá hillir líklega í veisluhöld hjá tækifærissinnum !

 

Margir rekstraraðilar eru því áreiðanlega nú um stundir, bæði í ferðaiðnaði og í öðrum greinum, að hugleiða hvernig þeir geti kreist fjármuni út úr ríki og sveitarfélögum, í ljósi þeirrar stöðu mála sem blasir við í dag !

 

Og eins og oft vill verða, er hætta á að margir fái stuðning af almannafé út af þessu ástandi, sem enganveginn ættu – vegna ferilsögu sinnar - að fá slíka hjálp, en slíkir aðilar eru löngum líklegastir til að heimta mest !

 

Þá er um að ræða fyrirtæki sem eru og hafa verið rekin svo illa og ábyrgðarlaust undanfarin ár, að þau hafa verið á leiðinni í þrot - alveg án tillits til veiru-faraldursins. En nú á eflaust að nota tækifærið og fá endurfjármagnaðan rekstur óráðsíu og glapa á kostnað almennings, í gegnum einhvern Covid-19 björgunarpakka frá stjórnvöldum !

 

Það virðist alltaf vera fullt af fólki í þessu landi, sem hugsar aldrei um það að fjármunir ríkis og sveitarfélaga séu fjármagn þjóðarinnar. Að verja beri þeim fjármunum með ábyrgum og skynsömum hætti í þágu þjóðarheilla. Því miður virðast allt of margir hérlendis temja sér að horfa á allt fjármagn með augum ræningjans. Það er enganveginn rétt viðhorf til velferðar !

 

Atvinnulíf þjóðarinnar þarf fyrst og fremst að byggjast upp á innlendum iðnaði og nýtingu lands og sjávar. Við þurfum að byggja á okkar eigin forsendum og því að hjól atvinnulífsins séu að fullu í okkar höndum !

 

Tilviljunarkennd og tískusveifluleg afstaða útlendinga til þess hvort þeir heimsæki landið, getur aldrei orðið trygg undirstaða fyrir varanlega velferð íslensku þjóðarinnar. Þá er fjöregg okkar í annarra höndum !

 

Þegar útlendingarnir taka upp á því að fara eitthvað annað, sem þeir gera líklega fyrr en síðar, meðal annars vegna þjónustugræðginnar hér, hvað á þá að gera við öll glæsihótelin sem búið er að byggja hér, með herbergi í þúsundatali, í trú á stöðugt og viðvarandi flæði útlendinga hingað ?

 

Nei, svokölluð uppbygging, sem ræðst alfarið af vilja útlendinga til að koma hingað, verður aðeins sístækkandi tímasprengja, sem springa mun í andlit þjóðarinnar og líklega þegar þjóðin má síst við slíku !

 

Þar hefur vægast sagt verið kostað miklu til, en framhald á velgengni er hinsvegar að sáralitlu leyti í okkar höndum eða á okkar valdi. Við endum þar á flæðiskeri fáviskunnar !

 

Útlendingar, sama hvaðan þeir koma, verða aldrei heilbrigð undirstaða að velferð íslensks samfélags og sjálfstæðis. Atvinnulíf þjóðarinnar verður að byggjast á traustum grundvelli, sem að öllu eða yfirgnæfandi hluta verður að vera í þjóðhollum höndum Íslendinga sjálfra !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 27
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 596
  • Frá upphafi: 365494

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 509
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband