Leita í fréttum mbl.is

Hvað eru hryðjuverk ?

 

Yfirvöld víðsvegar um heim hafa tekið sér það vald að skilgreina þetta og hitt sem hryðjuverk og fara þá líklega oftast eftir því sem pólitísk nauðsyn þeirra krefst. Skilgreining þeirra þarf því alls ekki að vera rétt, en hvað eru þá hryðjuverk ?

 

Eru það blóðsúthellingar geðveikra ofbeldismanna sem vilja bara drepa og eyðileggja ? Eru það glæpir trúarofstækismanna sem vita ekki hvað þeir gera ? Eru það ofbeldisverk sem unnin eru með illu til að vekja athygli á einhverju góðu ? Hvað eru hryðjuverk ?

 

Hvað margir hryðjuverkamenn hafa náð völdum og allt umtal um hryðjuverk þeirra síðan verið þaggað niður með einum eða öðrum hætti ? Hvað margir hryðjuverkamenn skyldu sitja að völdum í veröldinni í dag ?

 

Er einhver algild skýring til á því hvað hryðjuverk eru ? Er kannski bara sú skýring til að sá sem bíður ósigur teljist hryðjuverkamaður en sigurvegarinn sem beitti sömu aðferðum ekki ?

 

Hvað segir sannleikurinn um hryðjuverk og hvað segir pólitíkin, – þetta tvennt sem aldrei fer saman ?

 

Við lifum ekki á miklum sannleikstímum því innihald tíðarandans virðist öllu fremur, að stórum hluta, vera og þurfa að vera lygi. Og fólk virðist dragast miklum mun meira að lyginni en sannleikanum. Enda er hún oftastnær í flottum umbúðum, hjúpuð glanspappír í öllum litum !

 

Sannleikurinn er yfirleitt ekki borinn á borð með þeim hætti. Það þykir oftast ekki sérlega viðunandi að flagga honum. Hann lýsir sjaldnast boðlegri framvindu. Það má því segja að það séu unnin hryðjuverk á sannleikanum allar stundir og ekki síst í kringum kosningar !

 

Sannleikurinn þykir þannig leiðinda fyrirbæri og því er hann yfirleitt þaggaður niður hvar sem hægt er að koma því við. Hin almenna tilhneiging til þess að forðast sannleikann er því á meðal hryðjuverka nútímans og lýsir daglegu framferði valdamanna, bæði hérlendis og erlendis. Og það leynir sér ekki, að hver sem hefur eitthvað að fela, grípur fljótt til lyginnar og verst með henni !

 

En hvað segir hin rétta siðfræði ? ,,Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.” Þessi orð Krists voru sett í hornstein Alþingishússins á sínum tíma. Svo þau eru einkunnarorð hins íslenska lýðræðisvalds, en hvað fer fram í húsinu ? Er þar verið að þjóna sannleikanum eða eru þar stöðugar hjáveituaðgerðir í gangi !

 

Hvað mundi verða sett í hornstein Alþinghússins ef verið væri að byggja það í dag ? Áreiðanlega ekki yfirlýsing um það frelsi sem sannleikurinn gefur. Líklega öllu heldur ,, Við áskiljum okkur frelsi til alls ” !

 

Enn má spyrja, hvað eru hryðjuverk ? Hvort eru fleiri hryðjuverk unnin með munni eða höndum ?

 

Eru það ekki allt saman hryðjuverk af einhverri stærðargráðu, allt það sem spillir samfélaginu, og gerir því nánast ókleyft að sinna ærlegu hlutverki sínu með reisn og dáð ?

 

Ég spyr ?

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 597
  • Frá upphafi: 365495

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 510
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband