Leita í fréttum mbl.is

Þeir sem leita að sora finna hann !

 


Nútíminn flytur með sér undarlegan uppreisnarsnúning á viðhorfum og afstöðu fólks til margs af því sem áður bjó við virðingu og traust. Mikill vilji virðist hafa skapast til að endurskoða allt í dag og rífa niður fyrri tíma gildi. Þar sem traust er að mestu horfið úr samfélaginu í öllum samskiptum, efast fólk um allt, og einkum það sem gott hefur verið talið !


Margir reyna að nýta sér þessa breyttu stöðu til að drýgja egóið og hagnast um leið á þeim gildisfellingum sem boðaðar eru í niðurrifs áróðri tíðarandans. Það gera menn og konur með ritverkum og ýmsum ásökunum sem æði oft virðast beinast að látnu fólki, sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér lengur og liggur því vel við höggi. Minning margra látinna er því ausin sora átölulaust !


Þetta er vond framvinda. En hvernig á að koma í veg fyrir slíkt í samfélagi sem virðist hætt að mestu að rækta góð gildi og grunar alla um græsku ? Siðferðileg undirstaða þjóðfélagsins er orðin verulega skökk og margskonar ætluð og yfirlýst réttindabarátta hefur leitt fólk inn á hugarslóðir sorakenninga sem fá það til að trúa hverju sem er. Og sjónarmiðin virðast raunar verða tortryggnari og tillitslausari með hverju árinu sem líður. Þar er ekki neitt á ferð sem boðað getur gott fyrir okkar berskjölduðu þjóð, meðan sjálfsagt þykir að rífa niður alla þjóðlega siðmennt !


Uppreisnarandinn í samfélaginu er því satt best að segja að verða verulega illur. Sumir vilja ryðjast um og brjóta niður öll þau ölturu sem aðrir hafa kropið við. Engum er því ætlað neitt gott og það sem illt er fær að ráða. Þeir sem þannig hegða sér, leita að sora og þeir munu finna sora, því hugarfar þeirra heimtar það. Þeir vilja nota sorann til að rífa niður og afnema helst alla helgi mannlífsins. Öllu skal því bylt sem búið hefur við virðingu !


Nú er þannig hatast við margt af því sem alltaf hefur verið talið gott. Og fulltrúar langtíma siðleysis eru jafnframt heiðraðir með ýmsum hætti. Tíðarandinn hefur snúið allri eðlilegri siðfræði á hvolf og virðist vilja hafa hana alfarið í öfugri stöðu. Og tilhneigingin til að leita sorans sýnist stöðugt vaxa því ekkert virðist mega búa við traust í samfélagi sem sjáanlega er búið að glata, nánast að  fullu, þeim hæfileika, að geta treyst öðrum til góðs. Þá er hin þjóðfélagslega öryggisstaða orðin verulega tæp !


Allskyns átyllur virðast notaðar til að vekja efasemdir um góðan ásetning. Saklausustu mál eru gerð að ákæruatriðum. Þjóðfélagið er sýkt af illum grunsemdum um óheilindi einstaklinga sem hafa hingað til þótt hafnir yfir slíkan grun. Mannaveiðar eru hafnar aftur og ofsóknir í gangi til að spilla góðum orðstír látins fólks, jafnvel fólks sem þjónaði öðrum allt sitt líf af mikilli fórnarlund. Ekkert skal hafið yfir rannsóknarrétt nútímans sem þykist vera að byggja upp, en er í raun og veru að rífa niður !


Ég hef ekki mikla trú á því, ef við ætlum að byggja hér upp betra samfélag, að höfuðsmiðir áætlana fyrir slíka framvindu verði einhverjir menningarsprautu-gúrúar úr Reykjavík 101. Menn sem kjósa yfirleitt að yfirhúða öll sín ,,menningarverk“ með soraáferð eru ekki líklegir til að verða samfélagi sínu til góðs !


Margir sem eru alla daga að rífa niður góðar undirstöður fyrir frekari uppbyggingu, halda sjálfsagt í eigingjörnum hroka sínum að þeir séu að byggja upp og gera gott þó þeir séu í raun að þjóna andstæðum anda. En ranghugmyndir slíks fólks hafa því miður þegar eyðilagt býsna margt í samfélaginu, því margir vita greinilega ekki hvað mikið illt þeir eru að gjöra !


Það er miklu auðveldara en margur heldur að tortíma mannlegu samfélagi. Við höfum þegar stigið skref í þá átt með ýmsu móti. Heilbrigði og siðferði samfélagsins ræðst af því hvernig fólk hegðar sér. Og við erum ekki að hegða okkur vel. Ætlar það fólk sem lifir í dag, að skilja við íslenskt samfélag í rúst ? Á það að vera arfleifð kynslóðar barna okkar ?


Við skulum fara að gæta að okkur ! Við erum komin nokkuð nálægt ystu brúninni á því samfélagsbjargi sem viðurkennt var í eina tíð sem rétt undirstaða. Og þar fyrir framan er hyldýpið eitt. Ætlum við að fara þar fram af ? Ætlum við að drýgja samfélagslegt sjálfsmorð ? Hverjum yrði það til góðs ? Nei, annað liggur fyrir að gera og það sem fyrst !


Við þurfum að breyta tíðarandanum sem er vondur. Við þurfum að hefja hugarfarslega siðbót innan samfélagsins, og taka þar aðra og betri stefnu. Stefnu sem leiðir okkur frá soramálum viðbjóðs og vantrausts beint upp á við, til hreinni viðhorfa. Með þeim hætti getum við unnið að því að samfélag okkar læri á ný að treysta, vona og trúa, og nái á ný að sjá til sólar, - nái að skapa sér heilbrigða og góða framtíðarsýn !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 53
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 622
  • Frá upphafi: 365520

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 534
  • Gestir í dag: 49
  • IP-tölur í dag: 48

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband