Leita í fréttum mbl.is

Til umhugsunar fyrir forsetakosningarnar !

 

 

 

Sú var tíðin að fólk vildi ekki og fannst ekki viðeigandi, að forustufólk sem kæmi beint úr pólitík, hnuplaði forseta-embættinu frá þjóðinni, eins og sumir vildu kalla það. Gunnar Thoroddsen fjarlægði sig pólitíkinni um skeið fyrir kosningar þó það dygði honum ekki til kjörs. Það vann líka gegn honum að hann var tengdasonur sitjandi forseta og fólk á þeim tímum vildi alls ekki fara að búa til einhverja forsetaætt !

 

Þegar Ólafur Ragnar bauð sig fram 1996 var orðin nokkur afstöðubreyting á viðhorfum fólks í framangreindu efni, en það styrkti stöðu hans kannski helst og það í augum nógu margra, að hann þótti einfaldlega mun hæfari frambjóðandi en aðrir sem buðu sig fram á þeim tíma. Auk þess mun hin ágæta eiginkona hans hafa tryggt honum umtalsvert fylgi !

 

Það má auðvitað margt um Ólaf Ragnar segja og óneitanlega allt of mikið ego hans. En eitt er víst, að hann sýndi fram á það með styrk sínum í öllum málflutningi, að forsetaembættið gat skipt miklu máli. Það kom skýrt í ljós þegar hann sem handhafi þess hafði þá burði að geta staðið fast í lappirnar, og þá ekki hvað síst gegn hinu pólitíska valdi. Þjóðin kunni að meta þann styrk. Svo kom Guðni eftir hann, sem mörgum hefur þótt hvorki vera fugl né fiskur, miðað við forvera sinn !

 

Á seinni árum virðist hinsvegar tilfinning fólks fyrir óæskilegum tengslum valda og áhrifa í þjóðfélagskerfinu hafa dofnað talsvert, og sumum finnst nú margt allt í lagi sem áður þótti ekki gott. Sú afstaða hefur til dæmis komið fram hjá fráfarandi forseta og virtist þar næmleiki hans fyrir sérstöðu forsetaembættisins vera eitthvað laskaður, svo ekki sé fastar að orði kveðið !

 

Hann sagðist ekki sjá neitt að því að forsetinn kæmi beint úr pólitíkinni. Það hefði hann átt að láta ósagt, þó ekki væri nema embættisins vegna. Guðni hefur nú aldrei þótt sérlega tilþrifamikill forseti og trúlega er það rétt af honum að sitja ekki lengur, kannski ekki síst þjóðarinnar vegna !

 

Þegar Ásgeir Ásgeirsson var kosinn forseti 1952, var gerð áberandi tilraun af vissum flokkspólitískum öflum til að stjórna forsetakjörinu. Forsetinn átti samkvæmt því líklega að verða flokkskjörinn en ekki þjóðkjörinn. Það pólitíska samráð var talið aðför að Ásgeiri og framboði hans. Almennum kjósendum varð fljótt ljóst hvað var þar á ferðinni og fólk kunni ekki við afskiptin. Það sameinaðist með ákveðnum hætti gegn þeirri pólitísku stýringu, enda hefur hún ekki verið reynd síðan !

 

Ásgeir Ásgeirsson var þannig kjörinn forseti og það var sannarlega þjóðkjör, fólkið gegn flokkavaldinu. Ásgeir mun þó fljótt hafa samið fullan frið við þau öfl sem reyndu að hindra kjör hans og róað þau snarlega niður. Þau meðtóku áreiðanlega einhver skilaboð um að hann yrði þeim ekki hættulegur í neinu og margir önduðu líklega léttar. Það gerist oft margt og mikið bak við tjöldin, hérlendis sem annars staðar !

 

Ásgeir var í raun klókur stjórnmálamaður og hafði áður gegnt stöðu þingmanns og forsætisráðherra og þekkti vel til hins pólitíska spils, engu síður en forveri hans Sveinn Björnsson. Samskipti hans við fyrri andstæðinga urðu brátt hin ljúfustu, þó upphafið hefði verið með öðrum hætti, og kannski nokkuð um að stuðningsmenn hans sumir hverjir yrðu fyrir vonbrigðum með framgöngu hans eftir kosningarnar, en það er önnur saga !

 

Kjarni málsins er hinsvegar sá, nú sem endranær, að við Íslendingar þurfum á því að halda sem þjóð, að á Bessastöðum sitji virðingarverður forseti sem hefur hjarta fyrir þjóðinni og velferð hennar. Allir sem eru á móti hverskonar spillingartengslum og gjalda varhug við þeim, þurfa alltaf að vera á verði. Og ekki síst er þörfin á því brýn, þegar svo virðist vera að koma eigi í slíkum tilfellum á beinum tengslum og safna öllu valdi á sömu hendur. En að forsetaembættið verði þannig gert að einhverjum ómerkilegum afleggjara frá pólitíkinni og ánetjað vafasömum öflum í samfélaginu má aldrei verða !

 

Ef málum væri svo skipað, má telja víst að öryggi þjóðarinnar og lýðræðisleg réttindamál væru þar með komin öll í einn óhreinan valdavasa, sem myndi gera heilbrigð viðmið af hálfu forseta-embættisins máttlaus og merkingarlaus. Forseti Íslands má alls ekki vera einhver klíkuútsendari. Hann þarf alltaf að kappkosta að vera sannur og trúverðugur fulltrúi þjóðarinnar, fólksins í landinu, !

 

Við þurfum því skelegga manneskju til að gegna forsetaembættinu, ef það á að vera það sem það þarf að vera, manneskju sem er ekki og hefur ekki verið hluti af einhverju klíkuvaldi eða vafasömum félagsskap, manneskju sem býður sig fram á hreinu stöðuborði til þjónustu fyrir þjóðina og samfélagið, á heilbrigðum, lýðræðislegum forsendum !

 

Mín tilfinning á undanförnum dögum hefur verið sú, að verulega vaxandi hópur fólks sé að komast að þeirri niðurstöðu að Halla Hrund Logadóttir komist næst því, af þeim frambjóðendum sem í boði eru, að uppfylla slík skilyrði !

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 130
  • Sl. viku: 809
  • Frá upphafi: 356654

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 641
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband