Leita í fréttum mbl.is

AÐ VERÐA HLUTI AF EINHVERJU !

Það virðist sem margir hafi drjúgmikla þörf fyrir að verða hluti af einhverju, að tilheyra flokki eða samtökum. Það er eins og þeir hinir sömu upplifi sig miklu sterkari fyrir vikið og finnist þeir komnir í hina einu og sönnu öryggishöfn.

Auðvitað býr það í eðli mannsins að aðhyllast félagslega stöðu og öll erum við hluti af mannlegu þjóðfélagi, en full þörf er að skoða vel þá valkosti sem að öðru leyti eru í boði, því stundum getur félagslega yfirborðið verið blekkingarhula og undir því er kannski rekin harðsoðin sérhagsmunapólitík sem á ekkert skylt við hugsjónir manna um samfélagslegt réttlæti.
Og það er nú svo, að maðurinn tapar ærið oft einhverju af sjálfum sér þegar hann gerist hluti af einhverju sem hann veit ekki með vissu hvað er eða hvað á eftir að verða. Flokkar sem félagsleg tæki breytast ört og geta fyrr en varir orðið eitthvað annað en þeir þóttust vera. Margir hafa þannig komist í þá meinlegu stöðu að verða að samþykkja ýmislegt sem þeim hefur alls ekki líkað. Einstaklingur sem reynir slíkt, nær ekki að halda hugarfrelsinu vegna þess að hann verður of leiðitamur vegna skorts á réttlætiskennd og viljafestu.

Oftast fer svo að sá sem lendir á öndverðum meiði við flokkslínu eða ráðandi línu, og sættir sig ekki við hlutina, yfirgefur félagsskapinn af eigin frumkvæði ef hann er þá ekki rekinn. Það er gömul og ný saga.

Það eru mörg dæmin um unga menn sem hafa gengið inn í einhvern félagsskap, fullir af hugsjónum og háleitri framtíðarsýn, en tapað þar áttum og farið að tala fyrir hlutum sem félagsskapurinn vill en þeir ekki. Þeir hafa farið að tala fyrir skoðunum annarra en ekki eigin skoðunum og orðið keyptir talsmenn sem haldið er í agaskorðum.

Þegar svo er komið getur víst engum dulist að öryggishöfninni er í mörgu ábótavant og maðurinn farinn að týna sjálfum sér inn í eitthvað sem er langt utan við hans fyrri vonir og sýn á framtíðina. Þá er hann kominn á þrælsklafa og sumir njörvast þar svo fast niður að þeir losna þaðan aldrei nema í láréttri stöðu við endalokin.

Í fjórtán ár var ég innskrifaður í Alþýðubandalagið sem flokksmaður. En allan þann tíma fylgdi ég staðfastlega eigin sýn á það hvað mér fannst rétt. Ef flokkurinn talaði fyrir einhverju sem ég gat ekki samþykkt fyrir mína parta, tók ég hiklaust afstöðu gegn því og þótti ég því aldrei sérlega mikill flokksmaður inn á við. En það skipti mig engu þar sem ég fór eftir sannfæringu minni og gat því verið sáttur við sjálfan mig. En út á við var ég jafnan talinn mikill Alþýðubandalagsmaður og er jafnvel enn af sumum. Það er nokkuð spaugilegt þegar á það er litið hver staðan raunverulega var.

En það kom að því að ég sagði mig úr flokknum, enda var hann þá, að mínu mati, að verða hin leiðinlegasta kratasamkunda. Ég hafði líka skömm á því hvað pólitíkin utan flokks sem innan virtist orðin ómerkileg og fölsk og vildi engan hlut eiga í þeirri atburðarás sem í gangi var. En kannski var ég bara orðinn færari um að greina stöðuna og kannski hefur pólitíkin alltaf verið í svipuðu fari.
En síðan hef ég staðið utan flokka og mikil blessun er það að vera laus við þá sálaróværu sem fylgir flokkspólitísku starfi. Ég hugsa oft um það þegar ég sé hlaupandi snata á snærum flokkanna, hvað mörg mannskepnan getur nú lagst lágt þegar hún hefur von um að fá bein undir borðið.

Ég veit líka sitthvað um  marga sem hafa verið að vasast í pólitík árum saman. Ég veit að þeir hafa tapað hluta af eigin manndómi sem flokkslegar undirlægjur og orðið þeim mun lakari menn fyrir vikið. Í sumum tilfellum veit ég til að menn hafa stutt rangindi vitandi vits til þess eins að tryggja eigin stöðu í hinni pólitísku goggunarröð. Slíkt finnst mér fyrirlitlegt og virðing mín fyrir mönnum sem þannig hafa staðið að málum er engin.

Satt að segja þekki ég ekki neinn núlifandi mann sem vaxið hefur að manngildi, að mínu mati, í gegnum pólitískt starf.

En það er hart barist um sálirnar og margir vilja náttúrulega taka sér stöðu þar sem þeir telja sig eiga ættir og óðul að verja. En oft fer það svo að menn sem bókaðir hafa verið sem liðsmenn í sérhagsmunaklúbbum án þess að vita það, fara smám saman að verja rangindi, beita lygum og blekkingum, og enda með því að verða sálarlegir vesalingar fyrir vikið.

Þeir fara að lúta einhverjum formúlum sem enginn frjáls maður ætti að beygja sig fyrir og verða hlutar af vél sem gengur fyrir allt öðru en ærlegu eldsneyti. Það er því mikil þörf á því að menn skoði hug sinn vel áður en þeir gerast hluti af einhverju sem er kannski alls ekki það sem þeir halda að það sé.

Það er nefnilega hreint ekki víst - ef þeir ánetjast, - að þeir sleppi nokkurntíma úr viðjunum og upplifi það á ný að verða sæmilega frjálsir menn til hugar og hjarta.                                                                                                                                                                                                                                                                         


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.8.): 17
  • Sl. sólarhring: 106
  • Sl. viku: 660
  • Frá upphafi: 391689

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 583
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband