Leita í fréttum mbl.is

Samtryggingarsamningar


 Það er búið að semja ! Það er búið að semja í þessu ríka þjóðfélagi, þessu velsældarþjóðfélagi, þessu þjóðfélagi þar sem allir eru sagðir hafa það svo gott !

Og hvernig eru samningarnir, hvernig eru kjör fólks tryggð til næstu ára ? Jú, það er fljótsagt, lægstu laun eru slík að þau standa ekki undir eðlilegri framfærslu, ekki frekar en verið hefur. En samt er sagt eins og alltaf hefur verið sagt, að það hafi verið alveg sérstaklega hugsað um hag þeirra sem lægstu launin hafi haft og svo hafi náttúrulega þurft að bregðast við verðbólgunni, þessu voðalega fyrirbæri sem alltaf hefur komist í aðalhlutverk þegar almennir kjarasamningar hafa legið fyrir höndum.

Og nú eins og alltaf þegar valda-aðilarnar beggja megin borðsins taka höndum saman í því að svíkja alþýðuna, tala menn í einum samradda kór. Það var gert hér um árið við svonefnda þjóðarsáttarsamninga, þegar valdaklíkan samþykkti að láta verkalýðinn bera allar byrðarnar af efnahagsóstjórninni. Og það hefur greinilega verið þegjandi samkomulag um það núna að fara eins að. Menn skulu bara athuga hvernig ríkisstjórnin er saman sett.

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tala um tímamótasamninga, sama gerir Guðmundur Gunnarsson. Það er þungu fargi létt af Vilhjálmi Egilssyni og Ingimundur Sigurpálsson ljómar af fögnuði. Æðstu menn ASÍ og atvinnurekenda faðmast í fjölmiðlum og Ásmundur Stefánsson sést skælbrosandi í bakgrunninum. Forseti ASÍ talar um miklar umbætur á lægstu launum, Ólafur Stephensen ritstjóri talar um samningamennina sem mikið afreksfólk, það er talað um lækkun verðbólgu og allt er sett fram á fjálgum nótum eins og fyrri daginn.

En það hefur ekkert gerst, það hefur ekkert afrek verið unnið, afraksturinn er ekki neitt til að hrópa húrra fyrir. Forusta launþegasamtakanna hefur aðeins gengið í lið með atvinnurekendum og samið á þeirra nótum. Og eins og vant er á alþýða þessa lands að borga verðbólgubrúsann. Það er alltaf farin sú leið að níðast á almenningi sem berst við að ná endum saman. Verðbólga skapast ekki af offjárfestingum, kaupréttarsamningum, starfslokasamningum, fjármálasukki og spillingu, verðbólga skapast aðeins ef almenningur fær sæmilega kjarabót. Eftir því viðhorfi er unnið og það virðist gilda jafnt um ASÍ og samtök atvinnurekenda. Þessvegna er virkilega séð til þess að verkafólk fái enga almennilega leiðréttingu á sínum kjörum.

Hvenær hefur Vilhjálmur Egilsson borið almenning þessa lands fyrir brjósti ? Af hverju skyldi vera þungu fargi af honum létt ? Jú, skýringin er sú að hann veit manna best að samningarnir hljóða ekki upp á neinar kjarabætur.

Það er engin verkalýðshreyfing lengur til í þessu landi ! Það er aðeins fyrir hendi steindautt batterí sem tórir á fornri frægð. Þar vinnur að vísu fullt af fólki á skrifstofum, yfirleitt á ágætis kaupi, en öll hugsjón er þar löngu dauð, enda enginn verkalýður að störfum þar !

Við eigum enga verkalýðsforingja í dag, fólk þekkir ekki einu sinni nöfnin á þessu fólki sem trónir á toppnum hjá ASÍ og helstu félögunum, enda er þar um að ræða fólk sem er gjörsamlega slitið frá allri grasrót í verkalýðsmálum, ef það hefur þá nokkurn tíma haft þar rætur. Við sitjum þar uppi með afdankað lið sem er algerlega gagnslaust til að semja fyrir okkar hönd og ætti löngu að vera farið.

Þessi úrkynjun ASÍ hófst þegar Ásmundur Stefánsson var gerður að forseta sambandsins, sem aldrei skyldi verið hafa. Hagfræðin var sett við stjórn en verkalýðshugsjóninni úthýst. Sennilega verður að byrja baráttuna upp á nýtt frá grunni því svo er það kerfi orðið spillt og ónýtt sem fyrir er að því verður tæplega við bjargandi.

Hvað skyldu nú þessar manneskjur hafa í laun sem þykjast vera í forustu fyrir verkalýðinn í landinu ? Hver skyldu laun Grétars Þorsteinssonar vera eða Ingibjargar Guðmundsdóttur ? Hvað skyldu formenn helstu sambandanna hafa í laun, Guðmundur Gunnarsson, Sigurður Bessason o.fl., eða þá Gylfi Arnbjörnsson og Ólafur Darri ?

Ég veit það ekki en ég þykist vita að þetta fólk gæti enganveginn lifað af þeim launum sem það er að semja um fyrir aðra. Og samt grobbar það af því að það sé að gera vel. Þvílík hræsni, þvílík slepja og yfirborðsmennska !

En það á víst að heita að það sé búið að semja og samningarnir eru slíkir að þungu fargi er létt af Vilhjálmi Egilssyni. Það segir allt sem segja þarf og það ætti hver maður að skilja sem heila hefur og einhvern vilja til að nota hann.

Fyrir alþýðu þessa lands er aldrei neitt í boði nema skítur á priki og meginástæðan fyrir því er óþjóðlegt kúgunarvald burgeisa með bláar hendur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 139
  • Sl. viku: 836
  • Frá upphafi: 357104

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 679
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband