Leita í fréttum mbl.is

Í SKÁPNUM SÉ ÞAÐ SEM SKÁPSINS ER

 


Á síðustu árum hefur það nánast verið skilgreint sem einhverskonar hetjudáð að koma út úr skápnum, eins og það er orðað. En hvað mælir með því að fólk beri einkalíf sitt á torg og sé að úttala sig í fjölmiðlum og nánast alls staðar um það sem engum öðrum á að koma við ?

Allir eiga vafalaust sína skápa á einn eða annan hátt. Þar geta menn geymt það sem þeirra er og haft sitt hafurtask í friði. Það mun ekki bæta neitt þjóðfélag að menn leysi af sér allar siðrænar hömlur og fari út í að gera það sem þeim sýnist í nafni frelsis og mannréttinda.

Getur fólk ekki haft sitt einkalíf út af fyrir sig og sleppt því að gera aðra ábyrga fyrir því sem það aðhefst í leynum ? Einkalíf á að vera einkalíf og meðan það leiðir ekki til kúgunar eins á öðrum er það fyrst og fremst ábyrgðarmál þeirra sem í hlut eiga og þá ábyrgð verða þeir auðvitað að bera, eins og allir aðrir, gagnvart Höfundi lífsins.

Þegar þess er hinsvegar krafist að samfélagið allt leggi blessun sína yfir ýmislegt sem viðgengist hefur í einkalífsskápum, verða allir sem vilja nota vit sitt á ábyrgan hátt að staldra við og hugsa sinn gang.

Það sem brýtur í bága við heilbrigðan grundvöll samfélagslegra siðagilda ætti þá ekki að öðlast samþykki og menn með eðlilega siðvitund ættu ekki að geta fallist á slíkt. Það væri ávísun á þjóðfélagslegt niðurbrot.

Þeir sem hafa hneigðir til að ástunda það sem ekki getur talist eðlilegt, hafa getað gert það óáreittir innan vébanda síns einkalífs. Þar hafa þeir getað blótað á laun sem ekki vilja eða telja sig ekki geta aðhyllst þau siðagildi sem heilbrigð eru og byggja upp þjóðfélög. Það er enginn að amast við þeim.

En fulla ábyrgð verða þeir að bera sem aðrir á breytni sinni gagnvart þeim sem gaf þeim lífið.

En þegar þess er krafist að samfélagið allt leggi blessun sína yfir afbrigðilegar hneigðir og breiði öfugsnúna mannréttindablæju yfir þær út í ystu æsar, þá  segi ég fyrir mína hönd, hingað og ekki lengra. Ég vil engan hlut eiga að slíku máli.

Ég vil í því sambandi benda á grein sem kom í Fréttablaðinu 7. janúar á fyrra ári, undir fyrirsögninni " Þurfa bleiur eftir endaþarmsmök ". Þar er talað um þverfaglega nefnd með landlæknisembættið í fararbroddi, sem er sögð starfa að því að miðla betri upplýsingum til barna og unglinga um þá hættu sem stafi af afbrigðilegu kynlífi svo sem endaþarmsmökum. Í nefndinni eru sagðir eiga sæti fulltrúar frá Heimili og skóla, Barnaheillum, prestum, skólakerfinu, umboðs-manni barna, læknanemum í HÍ og Barnaverndarstofu. Á sama tíma og þetta liggur fyrir er sterkur þrýstihópur með stöðugan hávaða í gangi út af því að  afbrigðilegt kynlíf skuli ekki fá blessun hvers einasta manns í landinu, sem ljúft og gott menningarlegt innlegg í samfélagið ! Hverskonar þjóðfélag er þetta eiginlega að verða ?

Að minni hyggju getur það aldrei flokkast undir mannréttindamál, að leyfa framgang þess sem brýtur niður eðlileg siðagildi sem hafa alla tíð verið hornsteinar mannlegs samfélags.

Það sem er náttúrulegt og eðlilegt byggir upp siðagildi - það sem er afbrigðilegt og ónáttúrulegt brýtur þau niður. Það ætti hver maður að geta séð sem kynnir sér sögu mannfélagslegrar skipunar frá upphafi.

Höldum tryggð við þau siðagildi sem hafa verið leiðarljós kynslóðanna og verndum eðlilega fjölskyldumynd. Tökum ekki til framtíðar stefnu sem falið getur í sér siðferðilegt gjaldþrot.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 598
  • Frá upphafi: 365496

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 511
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband