Leita í fréttum mbl.is

Fjórði meirihlutinn

 

Stundum er það svo að meðferð manna á lýðræði þykir ekki til fyrirmyndar.

Það hefur að margra mati þótt sannast í Reykjavík á því hvernig sumir fulltrúar í borgarstjórn hafa farið með sitt vald á yfirstandandi kjörtímabili.

Það ætti að vera hverjum manni augljóst að það er afar mikilvægt að festa ríki í starfi sveitar og bæjarstjórna. Þá er hægast  fyrir þá sem mynda meirihluta að afloknum kosningum hverju sinni að einbeita sér að þeim verkum sem fyrir liggja.

Stundum getur að vísu svo farið að þreyta skapist í samstarfi og menn sjái að hlutirnir ganga ekki upp eins og til var ætlast. Þá fer oftast svo að samstarfi er slitið og nýr starfhæfur meirihluti er myndaður.

Fyrirkomulagið í kerfinu myndar eðlilegt svigrúm til slíkra breytinga og yfirleitt eru kjörnir fulltrúar þess meðvitandi að á þeim hvílir sú ábyrgð að tryggja með stjórnhæfum hætti framgang mála.

Þegar kjörtíma er hinsvegar sundrað í margar pólitískar uppákomur með meirihlutamyndanir, þannig að vinnufriður verður lítill sem enginn, eins og gerst hefur í Reykjavík, eru mál komin út í allt annan og verri farveg.

Þá vaknar sú spurning hvort kjörnir fulltrúar séu ekki farnir að leika sér með lýðræðið af nokkuð miklu ábyrgðarleysi ?

Eðlileg vinnubrögð raskast, stöðugar stefnubreytingar valda óróa og allskyns aukakostnaður bætist við í ýmsum málaflokkum. Óvissa grefur um sig og eitrar út frá sér.

Allir hljóta náttúrulega að sjá hverjir bera skaðann af því þegar þannig er staðið að málum ?

Það eru auðvitað kjósendurnir, borgararnir, þeir sem eiga að njóta ávaxtanna af lýðræðisfyrirkomulaginu, en gjalda þess þegar kosnir fulltrúar reynast miður en skyldi.

Almenningur hefur fylgst með framvindu mála í borgarstjórn Reykjavíkur undanfarin misseri og furðað sig á framferði margra þeirra sem þar eiga að vinna þau verk sem fyrir liggja. Fjórir borgarstjórar hafa mátað stólinn á þessu kjörtímabili og ljóst er að tveir þeirra hafa orðið fyrir verulegum álitshnekki.

Framagirni manna verður stundum slík að öllu virðist vera fórnað til að hreppa tiltekna vegtyllu. Það er spilað á lýðræðið með slíkri ófyrirleitni að marga setur hljóða og enn aðrir fara hamförum í fordæmingu á vinnubrögðum sem ættu ekki að eiga sér stað.

Og hver borgarstjórinn af öðrum lofar að vinna fyrir fólkið, láta hendur standa fram úr ermum o.s.frv. o.s.frv.......!

Og það er eins og þessir pólitíkusar hugsi með sér, " þetta er allt í lagi, það verða allir búnir að gleyma þessu við næstu kosningar og við sleppum frá þessu öllu saman, þó við höfum nú kannski klúðrað einhverju !

En er fólk virkilega svo fljótt að gleyma..... ? Lætur fólk hafa sig að fíflum aftur og aftur....... !

Munum að lýðræðið leggur almenningi vopn í hendur. Það vopn er kjörseðill í frjálsum kosningum.

Allir sem fylgst hafa með stjórnleysismálunum í Reykjavík að undanförnu, ættu að setja sér það að gleyma ekki því sem gerst hefur og muna við næstu kosningar hvernig framganga margra kjörinna fulltrúa þar hefur verið.

Sér í lagi ætti að muna hvernig vinnubrögð Sjálfstæðismanna, Ólafs F. Magnússonar og Framsóknarfulltrúanna hafa verið.

Valdabrölt þessara aðila hefur verið með ólíkindum og því hefur fylgt meira ábyrgðarleysi en kjósendur ættu að sætta sig við.

Það er heldur ekki líklegt að umræddir aðilar muni bæta mikið fyrir sín mörgu axarsköft á þeim tíma sem eftir er af kjörtímabilinu, jafnvel þótt þeir færu allir í endurhæfingu til Edinborgar.

Þó þeir leggi trúlega enn traust sitt á gleymsku kjósenda, ættu þeir öllu frekar að sjá sóma sinn í því að víkja svo frambærilegir borgarfulltrúar geti sem fyrst hafið störf í þeirra stað.

Það yrði bæði Reykjavík og þjóðfélaginu í heild til verulegra hagsbóta.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 159
  • Sl. sólarhring: 205
  • Sl. viku: 728
  • Frá upphafi: 365626

Annað

  • Innlit í dag: 154
  • Innlit sl. viku: 639
  • Gestir í dag: 154
  • IP-tölur í dag: 152

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband