Leita í fréttum mbl.is

Á öryggisventill nýrrar ríkisstjórnar að vera Framsóknarflokkurinn ???

Ekki tókst ríkisstjórn með yfirgnæfandi meirihluta á alþingi að halda velli til lengdar, þó eðlileg ábyrgðarkennd gagnvart þjóð og landi hefði átt að kalla á slíkt. En ríkisstjórnarflokkarnir áttu sjáanlega ekki neina samleið og misstu smám saman allt traust meðal þjóðarinnar, Sjálfstæðisflokkurinn það litla sem eftir var og Samfylkingin fór að hrapa mjög niður í könnunum.

Geir Haarde hefur nú sagt að Samfylkingin hafi verið heltekin hatri til eins manns, en þá má alveg eins segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið og sé heltekinn ást á einum manni. Það mætti halda að það væri auðveldara að skilja á milli múslima og Allah en Sjálfstæðisflokksins og Davíðs Oddssonar, svo virðist átrúnaðurinn mikill á Seðlabankagoðinu.

Geir Haarde ætti að sjá sóma sinn í að fara sér hægt og sleppa svona yfirlýsingum, sem gera hann bara sjálfan að enn minni manni að áliti fjölmargra.

Eins og hlutirnir hafa farið, er engin eftirsjá í ríkisstjórn sjálfstæðismanna og krata.

Þar var löngum fátt með heilindum í gangi eins og best má heyra núna á orðum þeirra:

 

Stjórnin féll og fauk um koll,

flest var meinum grafið.

Dettur margt í drullupoll,

dauða - synda - hafið !

 

En það er annars merkilegt með Framsóknarflokkinn, hvað hann þarf óskaplega lítið til að endurnýja sig. Einn strákur er settur í öndvegið, eitt óskrifað blað, og sjá, allt á samstundis að verða nýtt, hreint og syndlaust ?

En Valgerður er þarna enn, Siv líka og Birkir, - og flokkseigendaklíkan á bak við er sú sama, allt lið sem kunni sér ekki læti í frjálshyggjusveiflunni miðri - allt lið sem lifði þar í vellystingum praktuglega - á kostnað þjóðarinnar !

Munið þið hvað Valgerður sagði á flokksþinginu : " Það verður að losa krumlu frjálshyggjunnar af hálsi þjóðarinnar ! " Krumluna sem hún átti síst minni þátt í að setja þar en Sjálfstæðismennirnir !

Ef svona framkoma á að sýna að konur séu hæfari í pólitík en karlar, hæfari til siðferðis og sannleika, þá er ég ekki tilbúinn að kvitta undir það. Ætluðu þær ekki að verða betri ?

Og Framsóknarmenn eru samir við sig - hvar í flokki sem þeir standa. Guðmundur Steingrímsson áttaði sig allt í einu á því að það væri kannski hægt að ná í þingmannsstól á vegum Framsóknar, og skyndilega fann hann að hann hafði í rauninni alltaf verið Framsóknarmaður.

Hann hafði bara villst inn í Samfylkinguna í einhverskonar rómantískri sjálfstæðis uppreisn gegn sínum eigin genum og pabba gamla.

Og Guðmundur Steingrímsson leiðrétti snarlega sína kolröngu stefnu og hefur nú hlaupið berfættur heim í heiðardalinn og ætlar nú að stefna að því að verða þriðji Strandagoðinn í þráðbeinan karllegg !

Það er munur að mannsliði og Denni gamli hlýtur að hafa fagnað mjög pólitískri heimkomu glataða sonarins og alikálfur trúlega verið á borðum.

En í alvöru talað, ef Framsókn slær sér upp á þeim blekkingum sem verið er að viðhafa í kringum Sigmund Davíð, verð ég að segja að þá sé íslensku þjóðinni  varla viðbjargandi. Það skyldi þó aldrei vera að félagshyggjuflokkurinn svikuli, hækjan sem tryggði íhaldinu og frjálshyggjunni þingmeirihluta til að rústa efnahag þjóðarinnar, fái góða kosningu í vor ?

Bara út á engilhreint og saklaust andlitið á Sigmundi Davíð ?

Það hefur nefnilega ekkert annað breyst. Framsóknarflokkurinn hefur ekki beðið þjóðina afsökunar á gjörðum sínum sem hækja íhaldsins, Framsóknarflokkurinn hefur ekki afneitað sínum auðmönnum fremur er Sjálfstæðisflokkurinn sínum,

Framsóknarflokkurinn hefur ekki viðurkennt brot sín, hann hefur bara játað að hafa misst traust, en af hverju - það virðast Framsóknarmenn ekki skilja ?

Framsóknarflokkurinn er með sama tækifærissinnaða innrætið og hann var - hann hefur ekki viðurkennt neina iðrun í raun og veru. Hann fór bara í kattarþvott yfirborðsins og telur sig vera með hreinsunarvottorð eftir það.

En enginn kattarþvottur eða hundahreinsun þvær skítinn af Framsókn - öll 12 ára undirlægju-óhreinindin sitja þar föst ennþá, undir yfirborðinu !

Ætlar Steingrímur J. Sigfússon virkilega að treysta á slíkan ábyrgðaraðila að minnihluta ríkisstjórn fram að kosningum ?

Það mætti segja mér að ekki væri fráleitt að yrkja til hans í því sambandi:

 

Farirðu að treysta á Framsóknarmenn,

finnst mér nú biluð þín glóra.

Landráðaflokkurinn litli er enn

að leika sér kringum þann stóra !

 

Hvar eru menn staddir ? Á að fara að treysta enn á ný án þess að skynsemin mæli með því og láta þjóðina enn og aftur mæta afleiðingunum af vitleysunni ?

Mikið hlýtur það að þykja gott að sitja í þessum ráðherrastólum ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 597
  • Frá upphafi: 365495

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 510
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband