Leita í fréttum mbl.is

"Löglegt en siðlaust "

 Ofangreind orð eru löngu orðin fræg en þau komu á sínum tíma úr munni Vilmundar heitins Gylfasonar, manns sem barðist fyrir því að hreinsað yrði til í íslenska stjórnkerfinu og spillingu úthýst þar.

Ef kerfið væri heilbrigt og eðlilegt ætti að liggja fyrir að ekkert gæti stuðst þar við lög sem siðlaust væri. En reyndin er og hefur verið önnur.

Allir sem þekkja eitthvað til íslenskra þjóðmála, þekkja jafnframt til þeirrar baráttu sem Vilmundur Gylfason háði á fjölmörgum pólitískum vígstöðvum fyrir velferðarsýn sinni varðandi framtíð lands og þjóðar.

Vilmundur stofnaði Bandalag jafnaðarmanna og hugsaði sér það sem félagslegt tæki til baráttu og sóknar fyrir þær hugsjónir sem hann hafði að leiðarljósi.

Það sópaðist strax að Vilmundi allmikið stuðningslið, en heldur smátt var þar á stykkjum og margir munu hafa verið hálfvolgir í málunum svo ekki sé fastar að orðum kveðið. Vilmundur mun hafa séð strax eftir kosningarnar 1983, að hinn pólitíski leiðangur sem hann hafði í hyggju að hefja, hafði ekki þá burði sem vonir hans stóðu til. Honum fannst sér ekki líft ef hann gæti ekki barist fyrir þeim málum sem honum voru helgust og því fór sem fór.

Sennilega hafa hugsjónir þær sem leiddu til stofnunar Bandalags jafnaðarmanna fyrst og fremst búið í hjarta Vilmundar sjálfs, en fylgifiskarnir margir hverjir synt með í von um æti.

Það hefur aldrei vantað tækifærissinna á Íslandi !

Ég horfði á umræðuþátt í sjónvarpinu fyrir nokkru, þar sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sat með öðrum fyrir svörum. Rætt var m.a. um hugmyndir um frystingu eigna auðmanna eða leiðir til að fá útrásargreifana til að axla ábyrgð gagnvart þjóðarhag, vegna bankahrunsins og þeirrar hrikalegu stöðu sem þjóðin komst í fyrir tilverknað þeirra og sofandi stjórnvalda. Ragnheiður var nú ekki aldeilis á því að fara ætti slíkar leiðir.

Hún benti ítrekað á að fyrst yrði að sanna að viðkomandi auðmenn hefðu brotið eitthvað af sér ! Hún vissi ekki til þess að þeir hefðu í sjálfu sér brotið nein lög, þó illa hefði kannski verið á spilum haldið !

Þannig talaði Ragnheiður Ríkharðsdóttir í þessum umræðuþætti.

Nú er það svo, að síðustu átján árin eða þar um bil, hafa viðverandi stjórnvöld í landinu, útfært ýmsar lagasetningar fyrir útrásargreifana, þeim til  halds og trausts, og jafnvel afnumið ýmislegt sem þeir töldu vera sér til óþurftar.

Það var sem sagt þjónað undir frjálshyggjufurstana í bönkunum með margvíslegum hætti og unnið í því að gera lagaumhverfi þeirra sem frjálsast. Eftir það gátu þeir hegðað sér nánast að vild án þess að brjóta beinlínis lög.

Í skjóli sérhannaðra lagafríðinda sátu þeir svo og sönkuðu að sér illa fengnum gróða. Og enn sitja þeir og njóta spillingarágóðans og láta fara vel um sig meðan þjóðin berst í bökkum !

Þeir vita að þeir eiga talsmenn í þingmönnum eins og Ragnheiði Ríkharðsdóttur, þeir vita að þeir eiga enn aðdáendur sem verja þá og tala um að þeir hafi ekki brotið neitt af sér. Þeir vita að þessir aðilar staðhæfa stöðugt að það verði að sýna fram á lögbrot af þeirra hálfu ef eitthvað eigi að hreyfa við þeim.

Annars séu þeir ósnertanlegir og saklausir eins og börn í vöggu !

Og þarna getum við velt fyrir okkur orðunum: " löglegt en siðlaust ".

Nú man ég ekki betur en umrædd Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafi verið meðal þeirra sem gengu til liðs við Vilmund Gylfason á sínum tíma. Þá var hún ung og vígreif baráttukona og taldi sig áreiðanlega andvíga allri spillingu í kerfinu og tilbúna til að berjast gegn öllu af því tagi. Þá vissi hún að margt gat svo sem verið löglegt en siðlaust fyrir því.

En síðan eru liðin mörg ár og margt hefur breyst og ekki allt til batnaðar.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur hinsvegar aukið frama sinn á hinu veraldlega sviði, en líklega á kostnað fyrri hugsjóna, ef þær voru þá nokkurn tíma sannar sem slíkar. Hún er komin á þing fyrir forréttindaflokkinn og berst nú sýnilega gegn mörgu því sem hún áður taldi rétt og satt.

Sennilega segir hún núna, eins og svo margir aðrir sem yfirgefið hafa  hugsjónir sínar og farið að þjóna sérhagsmunum í einu og öllu, " að hún hafi þroskast "!

En fróðlegt væri fyrir fólk að heyra í dag þann málflutning sem hún viðhafði á sínum tíma þegar hún var í liði með Vilmundi Gylfasyni og studdi hugsjónir Bandalags jafnaðarmanna. Í orðum hennar frá þeim tíma, myndu menn heyra í allt annarri manneskju og að minni hyggju geðugri manneskju, þó það sé mikil spurning í ljósi eftirtímans, hvort hún hafi nokkurntíma verið heil í því að vera í framboði fyrir hugsjónastefnu Bandalags jafnaðarmanna.

Kannski var hún bara fiskur sem synti um í ætisleit ?

Nú er Ragnheiður Ríkharðsdóttir ekki jafnaðarmaður og nú telur hún það sýnilega helstu skyldu sína, að verja þá aðila sem hafa í skjóli flokks hennar,

varnarliðs forréttindanna, sett íslensku þjóðina undir skelfilegan skuldaklafa til langrar framtíðar. Þeir menn virðast vera hennar sálufélagar í dag !

Ég velti því fyrir mér, hvort fyrrverandi liðsmaður Vilmundar Gylfasonar geti fjarlægst öllu meir þau gildi sem hann stóð fyrir ?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 365493

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 508
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband