Leita í fréttum mbl.is

Um höfuðvandamál Sjálfstæðisflokksins

 

Það er tímatalsleg staðreynd, að frá bankahruninu og þar til meirihlutastjórn íhalds og Samfylkingar gafst upp, liðu um 100 dagar. Margir litu svo á að stjórnvöld hefðu verið aðgerðarlítil þann tíma og látið hlutina bara hafa sinn gang. Sjálfstæðismenn, með Geir Haarde í broddi fylkingar, töluðu þó lengi vel fjálglega um að það ríktu full heilindi milli stjórnarflokkanna og margt þyrfti að gera.

En eftir að stjórnin sprakk á úthaldinu, lýsti Geir því yfir að Samfylkingin hefði verið komin í tætlur og ekki lengur verið stjórnhæf og síðan komu einstakir sjálfstæðismenn til og kvörtuðu hver um annan þveran yfir því að það hefði vantað öll heilindi af hálfu Samfylkingarmanna.

Sjálfir sögðust þeir hafa verið fullkomlega heilir í þessu samstarfi og staðið við sínar skyldur út í ystu æsar ! Já, sjálfstæðismenn kunna alltaf að matreiða hlutina með sínu lagi ofan í fólk og alltaf þykjast þeir vera drenglyndastir allra manna !

En svo vildu þeir að nýja stjórnin sættist á Sturlu áfram sem forseta sameinaðs alþingis - af því að hann hefði staðið sig svo vel, og enn mega þeir ekki heyra að Davíð fari úr Seðlabankanum, þó það séu nú flestir á því að hann hafi staðið sig þar illa og bankinn þurfi sannarlega nýtt andlit út á við til að endurreisa traust.

Kosning nýs forseta sameinaðs alþingis hafði hinsvegar ekkert með persónu Sturlu Böðvarssonar að gera. Það er bara eðlilegt mál, að nýr þingmeirihluti kjósi nýjan forseta í þinginu. En mér skilst að Þorgerður hafi nú viðurkennt að hún og aðrir sjálfstæðismenn hafi verið að nudda þetta í stríðni !

Er það ábyrg framkoma af hálfu þingmanna íhaldsins, við þær hrikalegu aðstæður sem blasa við í efnahagsmálum þjóðarinnar, eftir langtíma stjórn þeirra sjálfra á þeim málaflokki, að menn séu að dunda sér við stríðni á þingi og tefja fyrir  aðkallandi málum ?

Ég þykist sjá á öllu, að sjálfstæðismenn muni gera stöðugar kröfur um að nýja stjórnin, sem er minnihlutastjórn, geri öll þau kraftaverk á 80 dögum, sem þeir gátu ekki gert á 100 dögum í algerri meirihlutastjórn !

Um það mun hin sterka stjórnarandstaða þeirra koma til með að snúast eins og Geir Haarde boðaði strax í upphafi. Þeir ætla ekki að gera neinum það auðvelt að þrífa upp eftir þá spillingarskítinn eftir fjármálasukkið og svínaríið !

Það er einkennilegt að þeir skuli geta borið sig svo mannalega, vitandi að þeir eru meira og minna ábyrgir fyrir því efnahags-stórslysi sem hér hefur orðið.

En hvað gera menn oft þegar þeir vita upp á sig skömmina, þeir forherðast og verða enn verri en þeir voru áður. Ég hygg að margir sjálfstæðismenn standi einmitt í þeim sporum nú. Þeir neita að viðurkenna staðreyndir í forherðingu hjartans. Þeir virðast líta svo á að Sjálfstæðisflokkurinn sé og eigi að vera nr. 1 í þeirra lífi en Ísland nr. 2.

Sjálfstæðisflokkurinn glataði mörgu af því skásta sem í honum bjó fyrir tilverknað Davíðs Oddssonar og frjálshyggjunnar. Þessi flokkur sem fór hamförum hér á árum áður í gagnrýni sinni á persónudýrkun á valdamönnum austan járntjalds, hefur sjálfur fallið í þá gryfju, að upphefja svo mikla persónudýrkun, að ekkert sambærilegt dæmi þekkist í þjóðarsögunni.

Davíð Oddsson náði með einhverjum undarlegum hætti slíkum heljartökum á Sjálfstæðisflokknum, að menn hættu að vera þar sjálfstæðir menn og byrjuðu að mæna upp á hann eins og jarðneskan guðdóm.

Sjálfur Maó hefði fundið til öfundar ef hann hefði séð þá hundslegu auðmýkt sem margir framámenn í Sjálfstæðisflokknum hafa sýnt Davíð Oddssyni árum saman og sýna jafnvel enn. Persónudýrkun er ógeðslegt fyrirbæri hvar sem hún fyrirfinnst -  hún gerir marga menn að skriðdýrum og þann sem dýrkaður er að verri manni en ella. Hann fer að fá svo háar hugmyndir um sjálfan sig, að það skaðar bæði hann og aðra. Það hygg ég að hafi gerst í tilfelli Davíðs Oddssonar !

Eins og bankarnir voru orðnir allt of stórir fyrir þjóðarbúið, varð hann tiltölulega snemma allt of stór fyrir þjóðina - að minnsta kosti í eigin áliti og sinna helstu áhangenda.

Við Íslendingar höfum hreinlega ekki efni á því að eiga slíkt " stórmenni " !

Landið bókstaflega hallast hvar sem hann stígur niður fæti !

Meðan Davíð var forsætisráðherra var hann trúlega líka seðlabankastjóri, og fram í janúar á þessu ári var hann seðlabankastjóri og trúlega líka forsætisráðherra, en nú er komin ný ríkisstjórn, stjórn sem vill ekki að seðlabankastjórinn sé líka forsætisráðherra og setji sig ofar ríkisstjórn lands og þjóðar. Það gengur ekki að einn maður, sama hver hann er, haldi heilli þjóð í gíslingu og hreyki sér upp, til skaða fyrir hagsmuni þjóðarinnar og álit okkar í umheiminum. Davíð Oddsson seðlabankastjóri er orðinn persónugervingur glórulausrar þversagnar sem rís gegn þjóðarhagsmunum og það er vont fyrir þjóðina og það er líka vont fyrir hann sjálfan !

Jafnvel þó harðkjarni Sjálfstæðisflokksins sé enn með Davíð Oddsson á stalli persónudýrkunarinnar, þá eru æ fleiri sjálfstæðismenn að átta sig á því að Davíð Oddsson er orðinn höfuðvandamál flokksins. Meðan forusta flokksins fruktar fyrir honum eins og hún hefur gert, er það bein vísun á fylgistap og vöntun á trausti.

Tími Jóhönnu er kominn og hann mun að öllu óbreyttu vara þessa 80 daga, en tími Davíðs er liðinn og meira en það. Það tímaskeið endaði skelfilega fyrir okkur öll - nema alikálfana sem hann leiddi á legg og létu svo ekki að stjórn til lengdar. Davíð talaði um það í haust að við ættum ekki að borga skuldir fyrir óreiðumenn, en hann gleymdi því sýnilega, að þar er um að ræða sömu mennina og hann afhenti bankana okkar, á þeim forsendum að þeir væru snjöllustu fjármálamenn þjóðarinnar. Davíð sagðist ekki hafa verið útrásarsinni en það eru til ótal myndir af honum sem sýna og sanna annað.

Það er aumkunarvert að sjá helstu fylgismenn hans í dag reyna að hvítþvo hann í bak og fyrir, því þær tilraunir eru svo gjörsamlega vonlausar, að þær gera bara lítið úr dómgreind viðkomandi manna. En þar eiga sjáanlega í hlut menn sem eiga erfitt með að segja skilið við persónudýrkunina og goðið á stallinum.

Sennilega hefðu þeir margir hverjir tekið sig prýðilega út austan tjalds, á tímum Stalíns eða í kalda stríðinu, því þar var líka hollustan við leiðtogann talin hin æðsta dyggð - hvað sem öllu öðru leið !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 365493

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 508
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband