Leita í fréttum mbl.is

Hugleiðing um forsjárhyggju !

Það er mjög fróðlegt að skoða í bloggheimum og víðar hvað hægri sinnað fólk getur tekið stórt upp í sig varðandi það sem það kallar forsjárhyggju.

Nú liggur fyrir að Ísland hefur verið sett á hausinn vegna skorts á forsjárhyggju, vegna þess að úlfarnir fengu að vaða yfir allt og enginn veitti viðnám. Jafnvel þeir sem voru á háu kaupi í kerfinu til að vernda almannahag gerðu ekki neitt.

Það var sem sagt engin forsjárhyggja í gangi - því miður !

Í fyrsta lagi hefði hrunið ekki orðið ef heilbrigð forsjárhyggja hefði verið til staðar, í öðru lagi ættu allir sæmilega skynsamir menn að geta skilið að það sem gerðist, ætti einmitt að kenna okkur þá lexíu að full þörf sé á vissri forsjárhyggju til að tryggja öryggi þegna samfélagsins.

Við höfum séð til hvers það leiðir að hafa enga forsjá í málum og því ætti sérhagsmunadeildin að skammast sín til að hafa hægt um sig meðan verið er að reyna að taka til og þrífa þjóðfélagið eftir skítmennskuveisluna !

Hvað er fólk að meina þegar það hatast við forsjárhyggju og hræðist hana ? Á ekkert að vera til sem setur fólki takmörk ? Höfum við ekki séð og erum við ekki alltaf að sjá afleit dæmi þess hvernig fjöldi fólks getur látið þegar ekkert setur nein mörk í neinu ? Á yfirgangur þess sterka og ríka að gilda í okkar þjóðfélagi ?

Sú var tíðin að ekki mátti vera nein verkalýðshreyfing, því þá var sagt að einhverjir væru farnir að hugsa fyrir fólkið. Það mátti náttúrulega ekki. Sérhagsmunahyskið vildi bara geta kúgað verkalýðinn í friði og verkalýðshreyfing þýddi bara vandræði -  að þess mati.

Verkalýðsbaráttan var ekki síst vegna þess löng og ströng og einn helsti forustumaður Vinnuveitendasambandsins sagði víst eftir samningana 1942,  " að hann vissi ekki hvert þetta þjóðfélag stefndi eiginlega, verkamenn væru farnir að kaupa hægindastóla ! "

Eins var það með vökulögin og verkamannabústaða-frumvarpið ! Hægri menn voru helbláir af vonsku út af því að það ætti að koma á þessum sjálfsögðu mannréttindum. Og auðvitað var talað um forsjárhyggju og kommúnisma í öðru hverju orði af þeirra hálfu. En þessi mál komust samt í gegn og að því kom að jafnvel sjálfstæðismenn þóttust aldrei hafa verið á móti þessum málum !

Eins var með almannatryggingakerfið ! Það var nú forsjárhyggja í sinni verstu mynd að mati hægri manna. En Bismarck, járnkanslarinn sjálfur, var þó ekki í þeirra hópi í þeim efnum. Hann sá gildi þessa þjóðlega öryggisnets og stuðlaði að framgangi þess í Þýskalandi.

En menn sjá vonandi á þessu að það á sínar skýringar, að sumir hatast við þessa svonefndu forsjárhyggju !

Ég tel það hinsvegar liggja ljóst fyrir, að margir sem hatast við forsjárhyggju eru fyrst og fremst hræddir um að þeir fái ekki áframhaldandi tækifæri til að arðræna náungann. Verndin verði svo mikil að ekki verði hægt að flá og kúga eins og í gamla daga.

Það hefur nú verið gaman fyrir hefðarslektið að lifa, þegar aðallinn og kirkjan réðu öllu, og fólk hafði engin mannréttindi !

Ég væri ekki hissa á því að sumir í Valhöll ættu sér þá ósk heitasta að upplifa slíka tíma aftur. Af þeim sökum þarf alltaf að hafa það í huga, að það er hægt að missa áunninn rétt, og mest er hættan á því ef fólk lætur hræða sig til að kjósa þá sem níða réttindi þess niður.

Fólk verður að skilja að heilbrigð forsjárhyggja þarf að vera til staðar - til að vernda mannréttindi almennings gegn þeim hákörlum sem alltaf vilja arðræna og pína náungann - mönnum sem eru blóðsugur í eðli sínu og vilja lifa með þeim hætti.

Þeir eru ófáir í dag sem virðast halda að mannréttindi nútímans hafi alltaf verið sjálfgefin, en sem fyrr segir, svo var nú aldeilis ekki. Það þurfti baráttu árum saman -  blóð, erfiði, tár og svita, fyrir venjulegt fólk að ná því að fá að standa upprétt. Og slíkir kúgunartímar gætu runnið upp aftur, ef fólk heldur ekki fast um áunnin réttindi sín. Því ætti  fólk að halda vöku sinni og muna að hafa vopnabúr búsáhaldanna jafnan innan seilingar.

Það fólk sem æpir í dag gegn forsjárhyggju er að öllum líkindum í hópi þeirra sem vilja hafa fullt frelsi til þess að herja á aðra og hafa ávinning af því að éta frá öðrum. Það er hin illræmda afætuhugsun sem birtist í því atferli, að níða niður allt sem kemur í veg fyrir að einn gangi á annars rétt. Sú hugsun hefur alla tíð hatast við mannlegan jöfnuð, því sérgæskan hefur alltaf notið sín best þar sem jöfnuðurinn er minnstur.

Heilbrigð forsjárhyggja af hálfu stjórnvalda byggir upp og veitir þá vernd sem þörf er á alls staðar í veröldinni - til þess að hákarlar arðráns, kúgunar og misskiptingar éti ekki brauðið frá munni þeirra sem minna mega sín.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 167
  • Sl. sólarhring: 213
  • Sl. viku: 736
  • Frá upphafi: 365634

Annað

  • Innlit í dag: 162
  • Innlit sl. viku: 647
  • Gestir í dag: 162
  • IP-tölur í dag: 160

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband