Leita í fréttum mbl.is

" Fimmta valdið "

Í svokölluðum lýðræðisþjóðfélögum hefur þrískipting valdsins verið grundvallaratriði.

Við höfum löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald. Síðan þegar áhrifavald fjölmiðla fór að aukast verulega var gjarnan farið að tala um þá sem fjórða valdið og þá sem vald sem var eitthvað meira í áttina að því að vera rödd fyrir fólkið.

En eftir að fjársterkir aðilar fóru að kaupa upp fjölmiðla í stórum stíl, einnig hér á landi, og beita þeim sem áróðurstækjum fyrir sig og sína hagsmuni, hefur trú manna, á að fjölmiðlar væru eitthvað sérstaklega að þjóna hagsmunum almennings, farið ört minnkandi.

Nú er svo komið að fjölmiðlar njóta almennt lítillar tiltrúar sem óháðir og frjálsir miðlar, enda hafa sumir þeirra, eins og vitað er, orðið sér til skammar með framferði sínu. Svo fjórða valdið þykir ekki nú til dags öllu almenningsvænna en hin þrjú.

Framkvæmdavaldið er eins og allir vita stórlega rúið trausti í okkar landi eftir feril sumra þeirra sem þar hafa ráðið mestu. Löggjafarvaldið hefur að mati stórs hluta þjóðarinnar verið tuska í höndum framkvæmdavaldsins til fleiri ára og dómsvaldið virðist ekki lengur hafa með höndum það verkefni að þjóna almenningi í þágu réttlætisins. Margir líta svo á að það sé fyrst og fremst til þess nú til dags að fita lögfræðimenntað fólk í þágu stéttarinnar. Hvað er þá til ráða fyrir almenna þjóðfélagsþegna þegar þessi fjögur valdastig virðast öll meira og minna misheppnuð í ljósi reynslunnar ?

Það væri hugsanlega hægt að fara þá leið að byggja upp fimmta valdið, sem yrði þá bloggið og netið. Þar  höfum við ótrúlega mikla möguleika til að ástunda beint lýðræði og láta í okkur heyrast. Þar ætti rödd fólksins að geta heyrst með frjálsum hætti.

En það er eins með fimmta valdið og hin fjögur, það er hægt að eyðileggja það ef illa er á málum haldið og það mun verða reynt - á því er ekki nokkur vafi. Og sennilega verður það ekki hvað síst reynt innanfrá. Svikaraddir verða látnar tala til að ýta málum til ófarnaðar. Valdaklíkur fjárplógsmanna - samtryggingaröflin -, eru ekki lýðræðisleg fyrirbæri og hafa aldrei verið það, en hafa lengstum kunnað flestum betur að stýra lýðræðinu í þágu eigin hagsmuna.

Alfrjáls umræða fimmta valdsins yrði því fljótt ógn í augum slíkra afla. Það yrði erfitt að kaupa hana eða hafa stjórn á henni, ráða því hvert hún stefndi og hverju hún kæmi til leiðar. Það yrði því hætta á því, að áliti hins svarta baktjaldavalds, að bastillur nútímans, sem byggðar hafa verið upp sem óðast í seinni tíð af kúgunaröflum fjármagnsaflanna, verði brotnar niður í áhlaupum lýðsins - gegnum alfrjálsa umræðu !

Við skulum nefnilega hafa það fast í huga, að einstaklingur sem farið hefur verið illa með, einstaklingur sem hefur verið sviptur öllu því sem hann hefur barist baki brotnu fyrir árum saman, - en uppgötvar svo við gjaldþrot og niðurbrot, að hann hefur aldrei verið annað en arðránsmöguleiki í augum hins frjálshyggjusinnaða bankavalds sem hefur náð að læsa klónum í hann, telur sig ekki hafa neinu að tapa þegar svo er komið. Leiðin til öþrifaráðanna er þá algjörlega opin. Mönnum í þeirri stöðu getur þótt  handhægt og eðlilegt að grípa til ýmissa gagnverkandi meðala. Það getur verið beltagrafa í einu tilfellinu og eitthvað annað í öðru.

Fjármagnsöfl nútímans sem eru skilgetin afkvæmi fyrri tíðar auðvalds, telja sig sjáanlega enn geta farið með fólk eins og þeim sýnist og hrokinn og græðgin leika víða enn lausum hala.

En það skyldi þó aldrei vera að þeim skjátlaðist þar illilega og fólk færi í það að afneita fjórveldi samtryggingaraflanna og hæfist handa um að mynda breiðfylkingu fimmta valdsins  í komandi tíð gegn þeim sérhagsmunum sem vaðið hafa yfir allt og lagt þjóðfélagslega velferð á Íslandi í rúst á skömmum tíma ?

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 69
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 638
  • Frá upphafi: 365536

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 550
  • Gestir í dag: 65
  • IP-tölur í dag: 63

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband