Leita í fréttum mbl.is

Engin kreppa varðandi tónlistarhúsið !

Þó að það sé kreppa í landinu, þó að íslenska ríkið sé á hvínandi kúpunni, þó að niðurskurður á spítölum sé og verði hrikalegur áfram um ófyrirsjáanlega tíð, þá er haldið áfram að byggja fokdýra menningarsnobbhöll í Reykjavík !

Höfuðsnobbarinn að framtakinu er reyndar kominn út úr málinu vegna Icesave og annarra rúllettuleikja, en nógir virðast eftir til að keyra vitleysuna áfram.

Á forsíðu Morgunblaðsins í gær var mynd af Vladimir Azhkenazy skælbrosandi, þar sem hann segist dást að vilja fólksins í landinu við þessar aðstæður, að ætla sér að koma húsinu upp ?

Hvaða della er þetta í Azhkenazy, er hann kominn með elliglöp ?

Sú ákvörðun að halda áfram með þetta bannsetta hús er algjörlega tekin framhjá fólkinu í landinu. Reyndar eins og svo margt annað.

Lýðræði Íslands er nefnilega svo oft í skötulíki. Fagurlega talað um það, en framkvæmdin á því einstaklega ömurleg í flestum tilvikum.

Það er hinsvegar ekki undarlegt að Morgunblaðið flaggi Ashkenazy rétt eina ferðina. Hann var á dögum kalda stríðsins einn ástsælasti rússi veraldar í augum Moggamanna. Matthías gerði hann heimsfrægan á Íslandi og þreyttist aldrei á því að dásama þennan listamann sem hafði, að hans sögn, orðið svo mikill og stór, þrátt fyrir að vera á móti hinu ægilega sovétvaldi.

En eftir kalda stríðs tímabilið hefur einhvernveginn orðið miklu hljóðara um Ashkenazy og jafnvel spurning hvort hann sé enn heimsfrægur á Íslandi ?

En það er annars athyglisvert að hin rísandi snobbhöll í Reykjavík skuli ekki taka mið af einhverju þjóðlegu heiti ? Venjan er sú að kenna allt við þjóðina sem byggt er fyrir Reykvíkinga á kostnað þjóðarinnar, sbr. Þjóðleikhúsið, Þjóðarbókhlaðan, Þjóðminjasafnið  o.s.frv.

Af hverju skyldi húsið ekki hafa verið látið heita  Tónlistarhús þjóðarinnar ?

Kannski vegna þess að þetta hús á að vera fyrir tauhálsalýðinn í Reykjavík, yfirklassahyskið, en ekki fyrir almenning þessa lands. Það er ekki einu sinni byggt fyrir almenning í Reykjavík. Og það er nú svo, að jafnvel þeir sem halda að þeir séu miklir menn og menningarlega sinnaðir úti á landi, mælast ekki samkvæmishæfir í yfirstéttarpartíum í Reykjavík. Allt landsbyggðarpakkið upp til hópa, er víst í þeim rómversku rassveislum skilgreint sem ódannaður torfkofalýður - fussum fei !

Tónlistarhúsið er ekki fyrir þjóðina, það er byggt fyrir tíu prósenta topplýðinn !

Og það skal upp, þjóðin skal verða látin borga fyrir þetta bölvað hrokahýsi, hvað sem í skerst og hvernig sem málin fara. Heldur verður öll starfsemi lögð niður á spítölum og í heilbrigðiskerfinu, en að hróflað verði við hinni rísandi snobbhöll.

En það er kýrljóst, að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi byggingu þessa húss hefði kolfellt slík áform. Þessvegna var auðvitað farin hin ólýðræðislega leið til að ná markinu sem menningarelítan heimtaði og hinn Íslands heimsfrægi Ashkenazy segist vera þjóðinni þakklátur !!!

Fjandinn hirði þessa byggingu, segi ég, það er móðgun við þjóðina, að haldið sé áfram að ausa peningum í þetta elítumannvirki, þegar allt velferðarkerfið er í æpandi þörf fyrir fjármagn til að hlynna að illa stöddum manneskjum.

Fólki blæðir um allt land, en eins og Neró spilaði ótruflaður á fiðlu sína yfir brennandi Róm, halda stjórnvöld hér áfram að byggja þetta bruðlhýsi, eins og ekkert sé.

Það að koma almenningi til hjálpar er sjáanlega það síðasta sem íslensk yfirvöld munu gera, sama hvaða flaggi þau þykjast ganga undir. Íslensk kerfisspilling er nefnilega alls staðar, í öllum flokkum, og sýking hugarfars manna í stjórnkerfinu geigvænleg viðvarandi staðreynd.

Verða kannski framtíðardraumar ungs menntafólks hérlendis brátt bundnir því takmarki einu að verða spilltir embættismenn eins og Morgunblaðið segir raunina vera í Kína ?

Það er að miklu leyti búið að gera Ísland að afskræmingu þess sem það var !

Hvenær ætla menn að vitkast ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 169
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 738
  • Frá upphafi: 365636

Annað

  • Innlit í dag: 164
  • Innlit sl. viku: 649
  • Gestir í dag: 164
  • IP-tölur í dag: 162

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband