Leita í fréttum mbl.is

Framrás Jessabel-andans í nútímanum

 

Gunnar Þorsteinsson í Krossinum er maður sem hefur staðið mjög í fylkingarbrjósti þeirra manna sem kallaðir hafa verið kristnir bókstafstrúarmenn í þessu landi. Með því er átt við þá menn sem trúa því að Biblían sé Guðs Orð og vilja leggja út af því afsláttarlaust.

Tíðarandinn krefst þess hinsvegar að kristin trú sé prédikuð á afsláttarkjörum og Guðs Orði þurfi ekki að hlýða ef vilji manna stendur til annars. Af þeim sökum hefur Gunnar í Krossinum verið talinn viðsjárverður maður, maður öfga og ofsatrúar, fortíðarmaður í nútímasamfélagi !

En nú er það svo, að til eru þau gildi sem maður samþykkir ekki að séu fram borin með afsláttarkjörum. Við getum þar t.d. nefnt réttlæti, á að veita afslátt á réttlætinu ?, á að veita afslátt af sannleikanum, á að veita afslátt á samviskusemi og heiðarleika ? Nei, að sjálfsögðu ekki, segjum við væntanlega flest og erum við þá ekki bókstafstrúarfólk hvað það snertir - og hvað er slæmt við það ?

Söngvarinn og prédikarinn Keith Green kallaði ævisögu sína No Compromise ( Engin málamiðlun ) vegna þess að eftir að hann komst til lifandi trúar á Jesú Krist, gerði hann sér grein fyrir því að sannkristinn maður gefur ekki afslátt á trúarsannfæringu sinni.

Við eigum ekki að gera málamiðlun gagnvart þeim öflum sem vilja draga okkur frá réttlætinu og sannleikanum, samviskuseminni og heiðarleikanum og frá Jesú Kristi.

Kristur er nefnilega í réttlætinu, Kristur er í sannleikanum, samviskuseminni og heiðarleikanum ! Við getum því ekki kallað okkur kristin með réttu ef við gerum málamiðlanir á kostnað þeirra gilda sem Drottinn okkar gaf sig allan fyrir.

Einn af hyrningarsteinum Guðs skipunar á jörðinni, er hjónabandið, hið heilaga samband karls og konu. Karl og kona eru eitt segir Orðið og uppfylla hvort annað í hjónabandinu ef allt er eins og það á að vera.

En það eru mörg öfl í gangi í kringum okkur mannfólkið og það er miskunnarlaust vegið að hjónabandinu, til að rústa fjölskyldum og heimilum. Jessabel-andinn í nútímanum er orðinn svakalegur, einkum vegna síaukinna áhrifa kvenna, því hjónaböndin sundrast ekki hvað síst vegna gjörbreyttrar hlutverkaskipunar karls og konu.

Fólk veit ekki lengur hvernig það á að vera - það kann ekki hlutverkin sín og það fer allt í tóman rugling í samskiptum og einkalífi.

Konur eru að verða karlmenn og karlar eru að verða konur. Karlmennskan er klædd í bleikt og stendur ekki lengur undir nafni en Jessabel-andinn og harkan sex fyllir viðhorf kvenna í nútímanum þannig að æ fleiri konur gera uppreisn gegn þeim gildum sem þær ættu að verja.

Þetta er eitt af því sem er og verður mest einkennandi fyrir Laódíkeu-öldina sem nú er í fullri framrás sem endatími veraldar og hin síðasta af kirkjuöldunum sjö.

Og nú eru Gunnar í Krossinum og kona hans skilin. Sýn þeirra á hjónabandið var ekki lengur sameiginlegt mál þeirra. Hann var og er forstöðumaður Krossins eins og hann hefur verið um árabil, en hún var horfin frá því að standa þar við hlið hans, flutt á fjarlægar slóðir til að sinna þar því sem hún telur mikilvægari skyldur. Skilnaður þessi á sér stað á 30 ára afmæli Krossins sem trúfélags og myndi margur segja að annað hefði nú betur átt við.

Það er sorglegt að horfa upp á slíkan aðskilnað hjóna, ekki síst þegar um er að ræða hjón sem hafa haft hin góðu og staðföstu gildi á hreinu, en einmitt þetta er að gerast víða í nútímanum og er í fullum takti við tíðarandann.

Það er hinsvegar ekki og enganveginn í samræmi við Orð Guðs.

En þegar hjón eru ekki lengur sammála um að ganga sama veginn, ekki tilbúin að axla skyldurnar sameiginlega - hvað er þá til ráða ?

Heimurinn segir að lausnin sé hjónaskilnaður og nú virðast forstöðuhjónin í Krossinum segja það líka, en málið er engan veginn svo einfalt. Skilnaður er alltaf neyðarúrræði og ósigur, en margur hefur fundið sig í þeim aðstæðum að finna ekki aðra leið þegar stefnan er ekki lengur sameiginleg.

Það sem gerðist hjá Gunnari í Krossinum getur því gerst hjá hverjum sem er.

Það er ekkert sem tryggir það, að tvær manneskjur sem hafa stofnað til hjónabands verði alltaf í einingu það sem eftir er lífsins. Ef trúin á sameiginleg gildi bilar hjá manninum eða konunni eða báðum, er grundvöllur hjónabandsins brostinn.

Jessabel-andinn vinnur í konum og fær þær margar til að brjóta þennan grundvöll, ekki síst nú á tímum og því andavaldi fylgir ekkert gott.

En það má heldur ekki gleyma því, að það er ærið margt sem villir karlmenn frá réttri sýn á skyldur sínar og hlutverk. Hin óguðlegu öfl stunda niðurrifsstarf sitt allt of víða fyrir alblindum augum þolendanna, jafnt karla sem kvenna.

Eitt ætti samt að vera öllum ljóst sem vilja hugsa um þessi mál af alvöru og skilningi - karlinn á ekki að vera kona og konan á ekki að vera karl !

Við eigum eftir að sjá stríðið gegn hjónaböndunum, fjölskyldunum og heimilunum herðast verulega í komandi tíð. Markmið skuggavaldsins er að tortíma þessu öllu og Jessabel-andinn er sem fyrr eitt skæðasta vopnið sem til þess er notað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 40
  • Sl. sólarhring: 80
  • Sl. viku: 938
  • Frá upphafi: 378452

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 800
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband