Leita í fréttum mbl.is

" Guð blessi Ísland " ?

Nú virðist það orðið nokkurskonar slagorð upp á bandaríska vísu, að segja " Guð blessi Ísland ". En hvaða alvara og hvaða siðferðishugsun liggur þar að baki ?

Þegar það lá fyrir að Bandaríkin voru stöðugt að sökkva dýpra í sitt syndadíki, kom að því að menn eins og Billy Graham treystu sér ekki lengur til að bera blak af þeim og þögðu þess í stað þunnu hljóði. En einmitt þá varð það æ algengara að forustumenn vestra enduðu ræður sínar við flest tækifæri með því að segja " God bless America !"

Þegar búið var að loka á aðstreymi Guðs blessunar, var farið að hafa hana stöðugt á orði, sennilega til þess að pússa svolítið yfirhúð spillingarkerfisins. Það var samt ekkert nema hræsnin og yfirdrepsskapurinn sem þar var að verki.

Ísland sem var gert að nokkurskonar mini-útgáfu af Bandaríkjunum á síðari árum Davíðstímans, með gjörspilltum kapítalisma og viðbjóði frjálshyggjunnar, hefur farið að mestu í þessi flónskuför Wall-Street veldisins. Við höfum upplifað svipaða hræsnisframkomu margra ráðalausra ráðamanna eftir efnahagshrunið í fyrra. Það virðist síðasta hálmstrá slíkra manna að fara allt í einu að höfða til Guðs og þjóðarinnar.

En það var enginn að tala um Guð meðan dansinn í kringum gullkálfinn dunaði. Þá átti Guð bara að halda sér fjarri og vera ekki að flækjast fyrir.

En um leið og skammsýni forustusauðanna hafði leitt yfir okkur þrengingar og ógæfu, fóru þeir að tala um Guð. Geir Haarde reið á vaðið með ávarpi til þjóðarinnar eftir hrunið, og sagði með tilfinningalegum áherslum í lok ávarpsins,

 " Guð blessi Ísland "!

En þetta er eftiröpun og ótínd hræsni, ætluð til að vekja einhverja uppskrúfaða hrifningu og hreinar tilfinningar sem engin innistæða er fyrir við núverandi aðstæður.

Framferði yfirvalda á Íslandi fyrir hrunið bjó ekki yfir neinu sem Guð gat blessað, framferði þjóðarinnar ekki heldur, því eftir höfðinu dönsuðu limirnir.

Og þegar ógæfan dundi yfir, eins og víst var að hún myndi gera, fóru menn á fölskum forsendum að éta hver eftir öðrum " Guð blessi Ísland ".

En fyrsta skilyrðið fyrir blessun Guðs til handa landi og lýð, byggist á iðrun. Byggist á því að menn sýni iðrun vegna rangrar breytni og hyllingar skurðgoða.

Sú iðrun hefur hvergi komið fram og engin játning á því að menn hafi yfir höfuð gert nokkuð rangt. Hrokinn er enn til staðar og heldur sínum tökum fast.

Hvernig ætla menn með óbreytt hugarfar spillingar og græðgi, að gefa sér að Guð blessi vegu þeirra ? Hvernig á slíkt að geta orðið ?

Það segir frá því í Heilagri Ritningu, að ísraelska þjóðin gekk í sig eftir ranga breytni og hélt opinberan iðrunardag, þar sem leitað var sátta við Drottin og mál hreinsuð út. En íslenska þjóðin vill greinilega fá blessun Guðs fyrir ekki neitt !

En það gengur ekki og mun aldrei ganga. Þó að hver manneskja í landinu hrópi í upphafinni sjálfumgleði " Guð blessi Ísland ", mun það engum árangri skila meðan því fylgir engin iðrun vegna rangrar breytni og endurnýjað hugarfar.

Fólk dansaði í kringum gullkálf frjálshyggjunnar við sérstaka velþóknun óhæfra stjórnvalda, en velþóknun Guðs var þar hvergi fyrir hendi, enda í engu skeytt um hana. Guði var úthýst frá partíinu, enda var hann talinn líklegur til að spilla veislugleðinni.

Jafnvel prestarnir voru ekkert að hafa hátt um tilvist Drottins meðan glaumurinn réði, enda margir veraldarvanir og elskir að kjötkötlum.

En hver er lífsstaða okkar hér á jörðinni, hver er hún og hver hefur hún verið ?

Við erum öll pílagrímar á leið til fyrirheitna landsins, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki. Á þeirri leið eru gullkálfar og blekkingar á hverju strái. Og þeir sem vilja leiða okkur á þeirri ferð, eru sjaldan fylltir anda Móse - andi þeirra er oftast af annarri gerð. Þar eru Datan, Kóra og þeirra fylgjendur, sem leita heldur til jarðarinnar en himinsins. Og sumir verða enn vegna óhlýðni sinnar fyrir þeim örlögum að fara lifandi niður til heljar.

Guð getur ekki blessað iðrunarlausan mann. Hann gefur hinsvegar náð og blessun yfir hvern þann syndara sem iðrast sinnar ráðabreytni og snýr inn á réttan veg, heldur áfram til fyrirheitna landsins, í trú og von á það góða, sanna og rétta.

Við Íslendingar erum smáir meðal þjóða Evrópu, en við erum samt þjóð og við eigum hlutverk í þessum heimi sem þjóð.

Við erum sem Benjamín meðal stórra stofna, en Guð vors lands mun áfram vera Guð vors lands, meðan við höldum sátt við hann og göngum veginn í trú á hann.

Við höfum ekki gert það undanfarin ár. Við létum blekkja okkur af leið, við eltum fánýti efnishyggjunnar út í keldur og mýrasund Mammons.

Forustumennirnir brugðust algjörlega og það sem verra var, þjóðin brást sjálfri sér, sögu sinni og arfleifð.

Við þurfum að finna gömlu göturnar aftur og ganga þær í trú á Guðs forsjá.

Án þess getum við aldrei sagt " Guð blessi Ísland " með þeim krafti sem dugar.

Verðum ekki eftirómur af hræsni Bandaríkjamanna - þeir eru sem þjóð búnir að fylla bikar misgjörða sinna og þeirra bíður verra hrun en það sem við höfum beðið.

En við Íslendingar eigum enn von - ef við snúum af leið, iðrumst og segjum eins og Jósúa forðum : " En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni " !

Þá munu vegir greiðast og Guðs blessun geta orðið sköpunarkraftur framtíðar Íslands !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 80
  • Sl. sólarhring: 127
  • Sl. viku: 649
  • Frá upphafi: 365547

Annað

  • Innlit í dag: 76
  • Innlit sl. viku: 561
  • Gestir í dag: 76
  • IP-tölur í dag: 74

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband