Leita í fréttum mbl.is

VANHÆF VERKALÝÐSFORUSTA

 


Íslensk verkalýðshreyfing er algerlega í dauðadái sem stendur og vandséð hvort hún lifnar við. Þeir sem nú þykjast halda á málum fyrir launþega landsins njóta einskis trausts og hafa ekkert raunhæft samband við þær hugsjónir sem gerðu verkalýðshreyfinguna hér á árum áður að frumafli allra velferðarsigra íslensku þjóðarinnar.

Það skilur t.d. ekkert á milli Gylfa Arnbjörnssonar og Vilhjálms Egilssonar.

Þeir tala sama mál í öllum meginatriðum og það er Gylfi sem endurómar Vilhjálm.

Þegar hinir fölsku forsvarsmenn launþega ganga í einu og öllu erinda auðvalds atvinnurekenda, tala þeir um þjóðarsátt, stöðugleika-sáttmála og annað slíkt og passa sig á að hafa nógu yfirborðsfalleg orð yfir hlutina, en það er ekkert nema Gylfaginning !

Í reynd þýðir slíkt bara eitt - að launþegar eigi ekki að fá neinar kauphækkanir, að launþegar eigi að bera þær ógnarbyrðar sem óstjórn auðvalds og arðráns hefur kallað yfir þjóðina, að launþegar eigi að borga eyðslubrúsa græðgisaflanna. Og stefnan er sem fyrr sú, að þeir lægst launuðu eigi að taka við mestu drápsklyfjunum !

Það líður að því að aumingjarnir í ASÍ, undir heiladauðri hagfræðiforustu Gylfa Arnbjörnssonar, fái inni hjá Samtökum atvinnulífsins eða Vinnuveitenda-sambandinu. Þar væru þeir best geymdir - í gluggalausu bakherbergi.

Einn kunningi minn segir að skammstöfunin ASÍ standi fyrir nafninu Aumingja Samkunda Íslands, en þannig sé núverandi verkalýðsforustu best lýst.

Það er alveg sama hvar við grípum niður í þessum hópi sem telur sig nú í forustu fyrir íslenska verkalýðshreyfingu, alls staðar er doði og drungi og fullkomið viljaleysi til alls lifandi framtaks.

Engin verkalýðshugsjón er þar í gangi. Flest störf á vegum hreyfingarinnar virðast nú orðin léttvæg skrifstofustörf, sem að miklu leyti eru unnin af konum.  Víða virðist sem starfsfólk á slíkum skrifstofum hafi undarlega litla þekkingu á raunverulegum vandamálum launþeganna. Jafnvel einföldustu fyrirspurnir frá fólki fá iðulega litla sem enga úrlausn.

Það virðist þannig sem ærið margir starfi á vegum verkalýðshreyfingarinnar með það eitt að stefnumiði, að vera áskrifendur að kaupinu sínu. Slík afstaða er ekki ásættanleg í hreyfingu sem á að vera vökul og lifandi á verði fyrir hagsmunum launafólks.

Klíkuvinnubrögð og pólitísk rétthugsun hafa sett drjúgan svip á starf ASÍ til margra ára. Það þarf að losna við slíkt og leggja höfuðáherslu á faglega stjórnun sem grundvölluð sé á einingarhugsjón heildarhagsmuna verkafólks.

Núverandi forusta hreyfingarinnar er vita gagnslaus og hreyfingin sem slík dauð í hennar höndum. Það þarf nýtt fólk með sýn til starfs og dáða. Fólk með rennandi blóð í æðum !

Nafnið Gylfi þýðir kóngur og það virðist eiga prýðisvel við Gylfa Arnbjörnsson.

Hann virðist alls ekki líta á sig sem þjón fólksins í landinu - hann leikur kónginn í ASÍ og virðist ekki kunna sér læti vegna þess.

Sjálfur Vilhjálmur Egilsson talar við hann sem jafningja - að hugsa sér !

Og Gylfi þessi leyfir sér að segja í blaðagrein, að Aðalsteinn Baldursson hafi misst traust innan hreyfingarinnar !   Það virðist nú flest benda til þess að sá maður sé í mun eðlilegri tengslum við íslenska verkalýðsgrasrót en sjálfumglaði stórforsetinn í ASÍ.

Það verður að koma til siðbót og endurnýjuð sæmdarvakning innan verkalýðs-hreyfingarinnar. Hver ærlegur maður hlýtur að geta séð hvílík nauðsyn er á því.

Hreinsa þarf hreyfinguna af illgresinu sem er búið að breiða sig yfir grasrótina sem á að ráða henni. Almennt verkafólk þarf að losna við þessi andlegu dauðyfli sem sitja þar á forstjóralaunum og eru komin óraveg frá þeim hugsjónum sem þeim var ætlað að fylgja.

Burt með Gylfa Arnbjörnsson, Sigurð Bessason og alla þessa steindauðu kerfisgaura sem hafa bersýnilega ekkert hjarta í sér sem slær fyrir launafólkið í landinu og hagsmuni þess.

Vekjum verkalýðshreyfinguna til lífsins og gerum hana aftur að því sem hún á að vera - raunverulegu varnarþingi fyrir launþega þessa lands !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 593
  • Frá upphafi: 365491

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 506
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband