Leita í fréttum mbl.is

Um vonda sagnfræði

Sagnfræði er mjög merkilegt fyrirbæri. Flestum er ljós þörfin á því að sagan sé rituð og heimildir varðveittar, til þess m.a. að menn geti lært af mistökum fyrri kynslóða og varast vítin. Hitt er svo annað og verra mál, að sannleikurinn verður oft töluvert mikið útundan þegar sagan er skráð.

Oft hefur verið sagt að sigurvegararnir ráði því hvernig rás atburða er lýst og það segir sig sjálft að ef svo er, þá er þar um að ræða vonda sagnfræði. Á margan hátt má segja að 20. öldin hafi markað ákveðin þáttaskil varðandi sagnfræði og þá kannski einkum vonda sagnfræði.

Menn fóru að falsa söguna með ýmsum afgerandi hætti þegar aukin tækni gerði þeim það kleyft. Stalín er t.d. sagður hafa verið býsna viðkvæmur fyrir myndum sem sýndu Lenín og Trotskí saman. Það leiddi til þess að Trotskí var einfaldlega fjarlægður af myndunum. Mörg önnur hliðstæð dæmi eru þekkt, þar sem ríkjandi valdhafar hafa reynt að falsa söguna og fara á svig við það sem raunverulega gerðist. Tuttugasta öldin virðist líka hafa fætt af sér mjög marga pólitíska sagnfræðinga, þ.e.a.s. sagnfræðinga sem skrifuðu verk sín út frá pólitískri línu og höfðu miklar hneigingar til að lýsa málum persónulegum skoðunum sínum í hag. Sannleikurinn var sem sagt ekki leiðarlínan, heldur það að þjóna persónulegum markmiðum í pólitískum skilningi.

Nú er t.d. komin út nokkurskonar ævisaga Stalíns eftir breska sagnfræðinginn Simon Sebag Montefiore. En hver skyldi Simon Sebag Montefiore vera ?

Hann er maður á hægri kanti breskra stjórnmála, maður sem er í nánum tengslum við toppana í Íhaldsflokknum. Þegar hann skrifar ævisögu Stalíns er það svona álíka og Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefði skrifað ævisögu Einars Olgeirssonar !

Skyldi Montefiore þessi hafa einhverja löngun til að skrifa ævisögu Pinochets ? Nei, alveg áreiðanlega ekki, það myndi ekki þjóna pólitískum markmiðum hans nema síður væri. Hægrisinnaðir óþokkar eru ekki hans viðfangsefni.

Hvaða sagnfræðigildi skyldi það hafa ef Davíð Oddsson ritaði ævisögu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar eða öfugt ?

Ísland hefur ekki farið varhluta af pólitískum vinnubrögðum í sagnfræði og er því full ástæða til að vera gagnrýninn á margt það sem gefið er út sem óháð fræðimennska á því sviði. Þar virðast leigupennar víða vera á ferð.

Það sýnist t.d. liggja klárt fyrir, að íslenskir sagnfræðimenn hafi beinlínis verið sendir til Austur Þýskalands og Rússlands eftir fall austurblokkarinnar, til að róta í skjölum þar og það um langa hríð.

Sennilega hefði sumum ekki þótt verra ef eitthvað bitastætt hefði fundist þar varðandi feril sumra íslenskra stjórnmálamanna á vinstri kantinum !

Þegar yfirlýstir fræðimenn dvelja við slíkar rannsóknir langtímum saman í öðru landi, vakna eðlilega ýmsar spurningar, spurningar eins og -  hver borgar brúsann, hvað býr að baki og hvern á að reyna að hengja ?

Í því sambandi er enganveginn í gangi sú afstaða sem Geir Haarde orðaði svo fallega varðandi bankahrunið : " Við skulum ekki vera að persónugera vandann !

Nei, vond sagnfræði er víða í gangi og menn mega hafa sig alla við til að falla ekki í gildrur hinna röngu og villandi upplýsinga.

Eitt dæmi varðandi upplýsingar um atburðarás mætti taka hér, sem full ástæða er til að umgangast með varúð. Íslenska bankahrunið er eðlilega mikið rannsóknarefni í sagnfræðilegum skilningi og jafnframt stórpólitískt mál sem slíkt. Flestir gera sér grein fyrir því, að það skiptir miklu hvaða sjónarmið koma til með að ráða varðandi niðurstöður um alla þá atburðarás.

Ýmsir hafa því rokið til og skrifað bækur um bankahrunið og viðrað skoðanir sínar á því. Þar býr trúlega að baki viss hagnaðarvon varðandi sölumennsku, en líka og jafnvel öllu heldur viljinn til að hafa áhrif á söguna og túlka hlutina með þeim hætti sem viðkomandi telur sér best í hag, pólitískt sem og prívat !

Menn sem voru innvígðir og innmúraðir frjálshyggjupostular, starfandi í útrásar-bankakerfinu, hafa sent frá sér bækur og lýst útrásinni og ástandi mála frá sínum sjónarhóli !

Fólk getur rétt ímyndað sér hvað mikið er að marka frásögn slíkra manna af því sem fram fór. Þeir eru þarna í óðri önn að bera blak af sér, og lýsa öllu sem einhverju ópersónulegu sjónarspili sem átt hefði sér stað, án þess að þeir hefðu á nokkurn hátt átt þátt í því eða gert nokkuð af sér.

Þannig frásagnir eru fyrst og fremst framlag til vondrar sagnfræði og nánast á engan hátt nothæfar til að undirbyggja raunhæfar lýsingar á atburðum í eðlilegu samræmi við það sem gerðist.

Jafnvel sjónvarpsþættirnir sem fjölluðu um bankahrunið voru litaðir af áróðri sem kom einstökum aðilum vel og voru hreint ekki óháð sagnfræði.

Ef íslenska bankahruninu yrði lýst í bók þar sem hver eftirtalinna manna skrifaði sinn kafla, Björgólfur Guðmundsson, Halldór J. Kristjánsson, Sigurjón Þ. Árnason, Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Bjarni Ármannsson og Lárus Welding, hygg ég að fleiri en ég myndu gjalda varhug við skýringum mála. Margir yrðu þeir vafalaust þá sem myndu telja viðkomandi höfunda hafa verið allt of flækta í málin til að þeir gætu fjallað um þau á þeim forsendum sem eðlileg sagnfræði hlyti að gera kröfur um.

En málin virðast heldur ekki snúast um það að koma fram með sannar sagnfræðilegar skýringar, heldur að koma fram með einhverjar skýringar, helst svo margar að enginn geti áttað sig á því hvernig beri að skilja hlutina.

Það er að sumu leyti saga sagnfræðinnar í dag -  líklega í meiri mæli en nokkru sinni fyrr. Blekkingarleikirnir eru margfaldir miðað við fyrri tíð.

Þegar púðurreykur deilumálanna er rokinn úr loftinu, eftir svo sem tuttugu ár, getur verið að menn fari að átta sig á því hver atburðarásin var, en þá er umræðan löngu komin út í annað og enginn hefur áhuga á sannari seinni tíma sagnfræðiskýringum nema þá örfáir fræðimenn.

Við skulum því gera okkur fulla grein fyrir því að sagnfræði nútímans er sjaldnast grundvölluð á hreinni sannleiksleit, heldur er hún meira en nokkru sinni fyrr skráning sögunnar út frá sjónarhóli sigurvegaranna - þeirra sem eiga aðgang að fjölda leigupenna, þeirra sem fjármagninu ráða og fjölmiðlana eiga,

 -  þeirra sem eiga yfirleitt enga samleið með sannleikanum !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 593
  • Frá upphafi: 365491

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 506
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband