Leita í fréttum mbl.is

Varðandi eitt stærsta óþurftarmálið

Það var athyglisvert að fylgjast með umræðunum á Alþingi 30. desember, varðandi Icesave-málið. Margt í máli þingmanna kom manni til að hugsa og spyrja, hvað margir skyldu vera á þingi sem virkilega hafa hjarta fyrir íslensku þjóðinni ?

Flestir þingmannanna tjáðu sig alfarið á flokkslegum nótum. Það var ekkert í máli þeirra sem benti til þess að þeir hefðu skilning á því að verið væri að glíma við mál sem skipti miklu fyrir örlög og afkomu heillar þjóðar. Þeirrar þjóðar sem þeir þóttust þó vera að starfa fyrir á alþingi. Margir voru í algjörri afneitun gagnvart þeirri staðreynd, að málið sem til umræðu var bjó ekki yfir neinum góðum valmöguleikum. Þeir þrástöguðust á því að leita þyrfti betri samninga, það væri til betri leið o.s.frv. En nánari skilgreining á slíkum möguleika var ekki sett fram með neinum hætti. Ég vildi sjá þann mann sem teldi t.d. Sigmund Davíð Gunnlaugsson líklegan til að leysa Icesavemálið á betri forsendum en náðst hafa ?

Hann er sá maður í öllu þessu vandræðamáli sem hefur yfirleitt notað stærst orð til að lýsa ódugnaði og ráðaleysi ríkisstjórnar Íslands varðandi allar leiðir til lausnar þess.

Af hverju er hann ekki í ríkisstjórn í dag ? Vegna þess að hann fékk ekki stuðning til þess. Þjóðin treysti ekki Framsóknarmönnum til frekari verka, jafnvel þótt þeir ættu að heita hvítskúraðir af syndum forvera sinna. Það er athyglisvert að Sigmundur hefur í mörgum tilfellum tekið mun harðar til orða í garð ríkisstjórnarinnar en Bjarni Ben II. Ég tel að munurinn liggi í því að Bjarni sé mun reyndari og klárari þingheili. Hann veit að þegar menn eru alltaf að kasta frá sér ábyrgðarlausum orðaleppum koma þeir gjarnan til baka eins og boomerang. Hann fer sér því hægar í þeim efnum þó hann hafi svipaða afstöðu til stjórnarinnar og vilji hana eflaust ekki síður feiga.

Sumir þingmenn lýstu því yfir að samningar þeir sem gerðir hefðu verið væru alfarið á ábyrgð vinstri stjórnarinnar og þeirra skömm sem að þeim hefðu staðið !

Því er til að svara, að ef hægra stjórnarfarið hér undanfarin ár hefði verið ábyrgt og eðlilegt, hefðu menn ekki verið að glíma við neina Icesave-samninga 30. des. sl. Þá hefði Icesave-vandamálið einfaldlega ekki verið til.

Icesaveklúðrið er skilgetið afkvæmi spilltra alikálfa spillts framkvæmdavalds. Ætterni þess er alfarið á ábyrgð foreldra og ættingja og þeirra verður að leita til hægri. Þar er þá að finna.

Vinstri stjórnin hefur ekki enn fengið ráðrúm til að koma fram með sína stefnu, sín ráð, því hún hefur alfarið staðið á haus í því að reyna að þrífa upp eftir spillingu og fjármálasukk frjálshyggjutímans. Það er ekki einu sinni víst að hún geti nokkurntíma komist fram úr þeim málum, enda er henni sannarlega ekki gert auðvelt fyrir af þeim sem síst ættu þar að standa í vegi. Einn þingmaður sagði í ræðu sinni " að brennuvargar ættu ekki að flækjast fyrir slökkviliðs-starfi ". Skyldi það ekki einmitt vera það sem hefur verið að gerast ?

Að þeir sem vita upp á sig sökina hafa verið að þvælast fyrir þeim sem eru þó að reyna að leysa málin. Á sama tíma eru þeir hinir sömu jafnvel að nefna að réttast hefði verið að mynda þjóðstjórn allra flokka til að bjarga Íslandi ! Síst af öllu hefur framkoma þeirra mælt með þeim möguleika. Þar stendur ekki steinn yfir steini.

Þjóðarógæfuflokksmenn vilja helst ekki tala um fortíðina og hvernig vandi sá sem við er að glíma varð til. Það er þeim viðkvæmt mál og kemur allt of mikið inn á  ábyrgð þeirra og sekt á ástandinu. En það er meira en skrítið að sjá menn eins og Pétur Blöndal og Tryggva Þór Herbertsson láta skína í tennurnar og fárast yfir röngum ákvörðunum. Var Pétur ekki einskonar guðfaðir frjálshyggjunnar, sumir segja að hann hafi prívat og persónulega uppgötvað " snillinginn " í Bjarna Ármannssyni ?

Og Tryggvi Þór, gaf hann ekki út heilsbrigðisvottorð fyrir íslenska fjármálakerfið í sérstakri skýrslu, þar sem það var lýst traust og gott, var hann ekki efnahagsráðgjafi Geirs Haarde, var hann ekki einn af leiðandi frjálshyggjupostulum í íslensku Friedmanshrollvekjunni ?

Sagði hann ekki eftir hrunið að þetta yrði aðeins dýfa og svo kæmu batnandi tímar ?

Hvað kemur kjósendum til að senda svona menn inn á þing ? Ekki virðist búa þar að baki nein  hugsun fyrir almannahagsmunum ? Gengin slóð hlýtur að mæla gegn því ?

Orð Róberts Marshall hljómuðu vel í mínum eyrum. Vonandi hefur hann meint það sem hann sagði, orð hans virtust nefnilega töluð í þeim anda sem hefði að mínu mati átt að einkenna öll ræðuhöld þingsins í þessu máli. En því miður var auðheyrt að það var annar og verri andi í nösum margra í þessum umræðum. Það var eiginlega bara synd og skömm að heyra hvernig sumir töluðu.

Ísland á betra skilið en það, að þjóðkjörnir fulltrúar á löggjafarþingi þess hendi stöðugt á milli sín fjöreggi þjóðarinnar í hráskinnaleik pólitískrar framabaráttu einstakra flokka og manna. Slíkt framferði gildir aðeins sem keyptur farmiði til glötunar.

Skyldum við Íslendingar aldrei ætla að bera gæfu til þess að eignast forustumenn sem hugsa af hjarta og sál, fyrst og fremst, fyrst og síðast, um hag íslensku þjóðarinnar, heill okkar allra ?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 83
  • Sl. sólarhring: 130
  • Sl. viku: 652
  • Frá upphafi: 365550

Annað

  • Innlit í dag: 79
  • Innlit sl. viku: 564
  • Gestir í dag: 79
  • IP-tölur í dag: 77

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband