Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Fallnir á prófinu........

  Nú hefur einn íslensku bankanna, Glitnir, verið keyptur heim til föðurhúsanna og almenningur andar léttar þó ríkisvæðing bankans sé nú andstæðan við einkavæðinguna sem átti að vera svo óhemju almenningsvæn á sínum tíma.

Og ekki er nú langt síðan það var.

Við virðumst vera að upplifa dæmisöguna um glataða soninn. Hann er  kominn heim eftir að hafa sóað fé sínu og farið illa með það sem honum var lagt til. Eftir ábyrgðarlaust líferni stendur hann illa til reika við dyr síns gamla heimilis og kostnaðurinn við heimkomuna nemur 84 milljörðum !

Þessa peninga verður heimilisfólkið, það er að segja þjóðin, að greiða !

Ríkisyfirtakan á Glitni átti sér stað 29.september og hún kom öllum á óvart, ekki síst greiningardeild bankans, sem hafði eflaust sofið vært á sínum launum fram að þessum gjörningi. Laugardaginn 27. september var meginhluti baksíðu blaðsins " 24 stundir " lagður undir auglýsingu frá Glitni, undir fyrirsögninni " Opinn fundur um fjármál heimilanna. " Fundurinn var sagður verða 1. október og sagt var að ráðgjafar Glitnis myndu veita persónulega ráðgjöf í anddyri, og Glitnismenn vildu ræða um hvert stefndi í fjármálum heimilanna, hvernig ætti að spara, hvar tækifærin lægju og hvað bæri að forðast !!!

Það var kynntur fyrirlestur um gildi þess að horfast í augu við fjármálin og taka þau föstum tökum. Það var nefnt að fjallað yrði um markmiðasetningu í fjármálum o.s.frv.o.s.frv. !!!

Og þessi fundur er auglýstur í fjölmiðlum tveimur dögum áður en viðkomandi banki er yfirtekinn af ríkinu til að koma í veg fyrir að hann fari á hausinn !!

Hvað er þetta fólk að hugsa sem þykist vilja bjarga öðrum en getur ekki bjargað eigin fyrirtæki ? Við höfum reyndar orð forsætisráðherrans fyrir því að engum sé um að kenna hvernig komið er. " Þetta fór bara svona, " er vafalaust viðkvæðið hjá honum og öðrum einkavæðingarsinnum.

"Einskær óheppni,"  "Krísan í útlöndum,"  "Bölvuð krónan," blablablablabla !!!

Kannast menn ekki við þessar áróðursyfirlýsingar í síbylju þegar menn eru á harðahlaupum frá afleiðingum verka sinna ?

Og nú á að koma bankanum aftur á réttan kjöl fyrir almannafé og selja hann svo á nýjan leik innan tíðar fyrir slikk einhverjum gæðingum, sem geta svo farið að blóðmjólka hann af fullum krafti áður en langt um líður.

Samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar er Lárus Welding forstjóri Glitnis með 26.458.000 kr. á mánuði í tekjur, annar toppur hjá Glitni er með 24.723.000 kr.

50 aðrir einstaklingar í stjórnunarstörfum hjá bankanum eru með frá 7.000.000 kr. niður í milljón á mánuði.

Bjarni Ármannsson fyrrverandi bankastjóri, nú skráður fjárfestir, er sagður með 43.000.000 kr. í mánaðarlaun ! Ekki er óeðlilegt að ætla að aðal tekju-uppspretta hans hafi verið umræddur banki. Það er nefnilega til nokkuð sem heitir forréttindi við hlutabréfakaup og starfslokasamningar.

Hreiðar Már Sigurðsson hjá Kaupþingi er með nærri 62 milljónir í kaup á mánuði. Það þarf hátt í tvö þúsund almenna starfsmenn á landsbyggðinni til að hafa við þessum manni í launum. Hann er með meir en þrítugföld laun Forseta Íslands og um fjörutíu og fimm föld laun forsætisráðherrans.

Kristján Arason, millistjórnandi hjá Kaupþingi hefur nítjánföld ráðherralaun, sem ættu þessvegna að duga vel fyrir farseðli til Kína og heim aftur.

Margir yfirmenn Landsbankans eru með 10 - 20 og allt uppundir 30 milljónir á mánuði í laun. Svo eru menn hissa á því að þessi ofurlaunastefna sem ráðið hefur í bankakerfinu dragi dilk á eftir sér.  

Eins og staðan er, miðað við árangurstengd laun, ættu allir stjórnendur hjá Glitni að lækka verulega í launum eða hreinlega víkja. Það hefur verið sérstök góðviðristíð alllengi í efnahagsmálum og ekkert hefur reynt á þessa ofurlaunamenn fyrr en núna, en hvað gerist þá ?

Þeir bókstaflega falla saman eins og sprungnar blöðrur, allir þessir margyfirlýstu fjármálasnillingar og launin sem þurftu að vera svona há vegna þeirrar gífurlegu ábyrgðar sem þeir voru sagðir bera, haggast ekki og þegar til kemur virðist ábyrgðin ekki vera nein !!!

En þetta er víst ekki þeim að kenna, eftir því sem Geir Haarde segir, og ekki ber að véfengja hans orð - eða hvað ?

Það lá svei mér við því að ég fyndi til með forsætisráðherra þegar hann var að lýsa því í Kastljósi hvað hann tók sárt til þess að nota almannafé til að borga brúsann af fjárfestinga-veisluhöldum Glitnis.

Forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafa alltaf verið einstakir gæslumenn almannahagsmuna eins og allir vita. Hvernig var með ríkisábyrgðina fyrir Íslenska erfðagreiningu á sínum tíma, mikið tóku þeir út þegar þeir veittu heimild til hennar eða hitt þó heldur. Sérhagsmunir hafa víst aldrei átt upp á pallborðið hjá þeim  - eða þannig !!!

Það er fullyrt af forsjármönnum ríkisins, að Glitnir hafi stefnt beint í það að fara í þrot, þó greiningardeild bankans sæi ekki neitt benda til þess, en ég hygg að þeir sem hafa malað sér gull innan bankans síðustu árin, séu hreint ekki við það að fara sömu leið. Þvert á móti hygg ég að þeir séu margir hverjir orðnir auðugir menn fyrir ofurlaun og aðra sérkjarabitlinga.

Einkavæðing bankanna átti að styrkja heilbrigði fjármálakerfisins og dreifa valdinu með fjölbreyttri eignaraðild - að sagt var.

En auðvitað varð niðurstaðan þveröfug og það vissu menn þó þeir töluðu fagurt.

Almenningur var ekki í þeirri stöðu að geta keypt neitt sem heitið gat, það voru þeir sem áttu peningana sem keyptu og urðu stórum ríkari og til þess var leikurinn auðvitað gerður. Annað var aldrei í kortunum.

Niðurstaða mála er mikill áfellisdómur fyrir frjálshyggjuna og þá eigingirni og þann hroka sem hún hefur keppst við að endurvarpa um allt samfélagið til tjóns fyrir heilbrigt mannlíf og samstöðu þjóðarinnar.

Valdatími Davíðs Oddssonar skapaði auðstétt í þessu landi. Peningaöflin fengu allrahanda fríðindi fyrir atbeina yfirvaldanna og það var beinlínis aumkvunarvert þegar Davíð sjálfur kom í sjónvarpið á sínum tíma og kvartaði yfir því hvað alikálfarnir gengu langt í því að skenkja sjálfum sér gullið.

Við hverju bjóst hann eiginlega af slíku liði ? Það gerði nákvæmlega það sem búast mátti við af því !

Gulldrengirnir hafa fallið á prófinu, ekki bara þeir hjá Glitni, heldur allir þessir eyrnablautu skóladrengir sem hafa verið yfirlýstir sem fjármálasnillingar og  þannig fengið að leika sér með fjöregg þjóðarinnar varðandi efnahagslegt sjálfstæði okkar undanfarin ár. Mál er að linni.

Verst er að sama valdaklíkan og kom einkavæðingu bankanna á, er enn við völd.

Það eru því engar sérstakar forsendur til að fagna að sinni og full ástæða fyrir almenning að vantreysta slíkum stjórnvöldum.

Andi Hannesar Hólmsteins og Milton Friedmanns svífur enn yfir daunillum Davíðsvötnum stjórnarráðsins og meðan svo stendur er ekki við miklu að búast.

 

Í viðbót við það sem hér er sagt, er það svo tillaga mín að kvótakerfið verði lagt niður.

 

 

 

 


Fíllinn eða asninn - John McCain eða Barack Obama ?

 

Það skiptir ennþá töluvert miklu máli fyrir heimsbyggðina hver er forseti í Bandaríkjunum !  Það skiptir máli hvort þar er við völd sæmilega almennilegur maður sem hugsanlega er hægt að búast við einhverju þolanlegu af, eða þá tækifærissinnaður lýðskrumari eða ofbeldishneigður heimsvaldasinni !

Það ætti enginn að þurfa að vera í vafa um hvaða dilk það getur dregið á eftir sér fyrir heimsfriðinn, ef kosinn er í þetta valdamikla embætti einhver verulega hættulegur vitleysingur eins og stundum hefur nú legið við og gæti svo sem gerst hvenær sem er !

Það ætti heldur ekki neinum að blandast hugur um að heimsbyggðin er alveg búin að fá nóg af George W. Bush og Dick Cheney og þeirra herskáu fylgifiskum. Öfga hægristefnan sem hefur verið við völd vestra undir þeirra forustu hefur að flestra mati beðið mikið skipbrot og á sér varla viðreisnar von í bráð - sem betur fer.

En það verður samt að hafa í huga að menn verða að gæta sín á því að sveiflast ekki við huganlegar stefnubreytingar yfir í alveg gagnstæða vitleysu !

Bush-stjórnin sagði nefnilega sumum öflum stríð á hendur sem allt of lengi höfðu notið stöðugrar undanlátssemi og gengið á lagið, til skaða fyrir vestræn samfélög. Þó margt hafi farið afskaplega illa á aðgerðastigi, hafa þessi öfl sum hver verið afhjúpuð með illan tilgang sinn gagnvart vestrænum gildum og það er þó nokkurs virði.  Það má því ekki hlaupa í gamalt flónskufar, í undanlátssemi við háskaleg öfl og endurtaka ávirðingarnar sem áttu sér stað í stjórnartíð Clintons, en þær voru hreint ekki svo fáar.

Clinton var auðvitað langt frá því að vera algóður og gæta verður að því að Bush hefur heldur ekki verið alvondur, þó seint verði hann talinn með betri forsetum Bandaríkjanna.

Valkostirnir sem nú er boðið upp á af hálfu stóru flokkanna í Bandaríkjunum virðast heldur ekki neitt sem heimurinn getur hrópað húrra fyrir.

John McCain er líklegur til að halda ýmsu í stefnumálum Bush áfram í gangi, en í sumum málum þykir hann tiltölulega frjálslyndur og á þar jafnvel frekar samleið með demókrötum. Reynsla hans er eflaust nokkuð víðtæk, en sumum þykir það helst spilla fyrir honum að hann er kominn nokkuð til ára sinna.

Þó virðist maðurinn hinn ernasti og ólíkt brattari að sjá en Ronald Reagan var undir lok sinnar embættistíðar, þegar hann minnti helst á lifandi lík. Það var löngum talað um gamla karla við völd í Sovét en þegar Reagan karlinn trónaði á toppnum í JúEssEi, elliær og farinn, var Gorbasjov á besta aldri og ólíkt reffilegri að sjá.

En ég er ekki viss um að McCain yrði svo slæmur forseti ef hann næði kjöri og tel  mig hafa vitað sumt verra í boði fyrir bandaríska kjósendur í þeim efnum.

Ef til vill má segja að það sé einna erfiðast fyrir McCain að vera í framboði fyrir Republikanaflokkinn, því flokkurinn á talsvert í vök að verjast vegna þeirrar  andúðar sem ríkir víða gegn Bushstjórninni. Það hefur sett svartan blett á flokkinn í margra augum, ekki síst ungra kjósenda.

Margir eru því líklegir til að hafna manninum þó þeir hafi ekki mikið út á hann að setja, vegna þess að þeir hafa fengið nóg af flokknum og telja nú skynsamlegast að hleypa Demókrötum að.

Það myndi auðvitað hafa mikið að segja ef annarhvor frambjóðandinn gerði einhver afgerandi mistök á þeim stutta tíma sem eftir er fram að kosningunum, verður fótaskortur á tungunni eða hinu pólitíska svelli á heildina litið. Það gæti skipt sköpum varðandi úrslitin. En það er ekki beint líklegt að svo verði því menn eru leikreyndir og æfðir í því að sýna ekki óhreinu spilin.                                                                

En segjum nú að McCain næði kjöri sem næsti forseti Bandaríkjanna, en félli svo frá á kjörtímabilinu, -  þá yrði draumur varaforsetans að veruleika og Sarah Palin, tiltölulega lítt þekkt kona frá Alaska, reynslulítil í mörgum mikilvægum málaflokkum, yrði allt í einu orðin forseti !

Ég efast um að hún sé vel undirbúin til að gegna því embætti og víst yrði það kaldhæðnislegt ef hún yrði þannig fyrsta konan til að komast að embætti forseta Bandaríkjanna - í gegnum varaforsetadrauminn !

Sérstaklega væri það athyglisvert í ljósi þess hvernig Hillary Clinton féll út sem frambjóðandi eftir að hafa notið mikils fylgis og vakið sterkar væntingar í brjóstum margra, ekki síst þeirra sem vilja sjá öll karlavígi falla.

Við þær aðstæður mætti sannarlega segja að hamingjudísin hefði haft Hillary Clinton að leiksoppi en gælt heldur betur við Söruh Palin.

En hugum ofurlítið að frambjóðandanum Barack Obama - hverskonar maður er hann og fyrir hvað stendur hann ?

Óneitanlega hefur hann sýnt nokkra tilburði sem lýðskrumari, stefna hans virðist nokkuð á reiki í málum og helst taka mið af því hvað vænlegast er til atkvæðaveiða. Breytingar þær sem hann hefur boðað, eru því undir nokkuð stóru spurningarmerki, og ég er ekki viss um að hann hafi mikið í sér til að verða góður forseti. Val hans á varaforsetaefni þykir mér líka heldur snautlegt og kannski verður það eitt af því sem verður til þess að hann tapar í væntanlegum kosningum.

En ef Obama nær hinsvegar að sigra McCain, tel ég töluverða hættu fyrir hendi á því að reynt verði að ráða hann af dögum. Ég hygg að hvítir öfgamenn trúi því hreint ekki ennþá, að svartur maður eigi raunhæfa möguleika á því að verða forseti Bandaríkjanna og verði það, muni ýmsir slíkra hafa fullan hug á því að senda hann út úr þessum heimi sem fyrst. Í augum slíkra manna er vafalaust ekki marktækur munur á Obama og Osama - báðir munu taldir réttdræpir !

Ofbeldið hefur stundum spilað stórt hlutverk í bandarískum stjórnmálum og enn gæti það endurtekið sig til tjóns fyrir alla.

En eins og staðan er núna, hygg ég að möguleikar beggja frambjóðendanna séu nokkuð vænlegir, en tel samt að Obama þurfi á meiru að halda en því sem fyrir virðist liggja, ef hann ætlar að ná því að sigra McCain !

Ég hygg því að fíllinn sé í ívið betri stöðu en asninn, en ef asninn vinnur, er varla asnalegt að hugsa til þess með nokkrum kvíða, hvað það er í raun ákaflega óljóst - fyrir nánast öllum - hvað hann gæti komið til með að gera !

 

 

 

 


Karllægur miðpunktur

  Sumar konur virðast þannig gerðar nú til dags, að þær telji sig hreint og beint í stríði við karlmenn. Þær megi ekki heyra minnst á það að karlmenn séu að gera eitthvað, þá er eins og sé verið að taka eitthvað frá þeim og þær belgja sig upp af reiði og þusa um endalausan yfirganginn í karlpeningnum. Þær tala um karlavígi sem verði að falla, þörfina á jákvæðri mismunun varðandi þá hluti og fleira og fleira. Sumt af því sem varpað er fram í þeim efnum er alveg út úr korti.

Sérstaklega virðist þetta ástand eiga við ofmenntaðar konur, konur sem hafa trúlega haldið að lærdómsgráður uppfylltu allar þarfir þeirra, en þegar þær komast að því að svo er ekki, virðast þær fyllast illsku út í karlmenn og telja glataða gæfu þeim að kenna.

Það er auðvitað rangt af konum að stilla málum upp með þessum hætti !

Menntaðar konur ættu náttúrulega að geta séð í hverju heilbrigð lífssýn er fólgin. Ef menntun þeirra hefur með einhverjum hætti blindað þær fyrir því, er eitthvað verulega bogið við hlutina og þær þurfa þá skiljanlega hjálpar við eins og allar manneskjur sem eiga bágt.

Heilbrigð lífssýn innifelur nefnilega víðtæka samvinnu karla og kvenna og innifaldar í þeirri samvinnu eru meðal annars forsendurnar fyrir framhaldi mannlífsins á þessari jörð. Svo þessi samvinna er hreint ekki lítilvæg fyrir okkur öll.

Við þurfum því væntanlega öll sem eitt að stuðla að því að þessi samvinna haldist í sem bestu fari, í stað þess að vera sífellt að kasta stríðshanskanum.

Ef einhverjar konur vilja hinsvegar, í uppblásnum menntahroka, lýsa yfir stríði gegn karlmönnum og telja þá upp til hópa kúgara og eitthvað þaðan af verra, geta þær hinar sömu málað sig út í horn gagnvart eðlilegri þróun lífsins.

Þær geta því endað eins og gamla konan sem setti upp hænsnabú með jafnmörgum hönum og hænum, og sagðist aðspurð ætla að sjá til þess að hænurnar hennar þyrftu ekki að líða það sem hún hefði þurft að líða !

Það er alltaf betra að fólk sjái að sér áður en það er orðið um seinan.

Nýlega varð það að deilumáli í höfuðborginni, að samþykkt var að setja upp styttu af borgarskáldinu Tómasi Guðmundssyni.

Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar í borgarstjórn, töldu að þarna væri verið að viðhalda úreltum hlutum. Auk þess og illu heilli væri hugsunin varðandi þessa ætluðu listsköpun menguð " karllægum viðhorfum ! "

Þarna væri því enganveginn um nýja og frjóa listsköpun að ræða.

Það væri karllægur fnykur af þessu máli og gamaldags styttur væru hlutir sem ýttu undir ranghugmyndir hjá uppvaxandi kynslóð. Þarna væri hugsunin að reisa táknmynd um borgaralegt yfirlæti og slíkt væri bara hneyksli.

Þvílík slepja og femínistakjaftæði !

Það hlýtur að fara að líða að því að karlmenn upp til hópa teljist úrelt fyrirbæri að mati þessa liðs sem stöðugt telur sig vera í stríði við helminginn af mannkyninu.

Eitt er víst alveg fyrir hendi, sem örugglega er körlum til mikils vansa, í augum styttubandsstorða af þessu tagi, það er jú karllægur miðpunktur á þeim flestum !

 

 

 


EKKI MANNI MINNA !

 

Mikið þykjast nú yfirvöld á Akranesi montin með sig og stolt af því að hafa nýlega tekið á móti heilum 29 palestínskum flóttamönnum frá Írak, í tengslum við fjölmenningarstefnu stjórnvalda, á lítilfjörlegan kostnað okkar landsmanna.

Þau sýnast svo hátt uppi í sjálfumgleði sinni, að þau virðast enganveginn átta sig á því hvað framtakið er lítið og vesallegt. Eiginlega bara stór vottur um himinhrópandi smásálarskap og aumingjadóm.

Að hugsa sér - talan nær ekki einu sinni 30 manns !

Hún hlýtur að minnsta kosti að vera tífalt of lág miðað við að meiningin sé að gera eitthvað gagn í þessum efnum !

Hverskonar hundskinns-útnára-hengilmænu-háttur er þetta eiginlega - ég bara spyr ?

Óttalega finnst mér þetta ræfilslegt framtak og það hjá svona menningarlega stórmyndarlegu og stöndugu sveitarfélagi !

Þar sem fyrir hefur legið, eftir því sem sagt er, mikill og magnaður vilji meðal Akurnesinga almennt fyrir hjálpargjörningi af þessu tagi, átti auðvitað að gera eitthvað sem um munaði.

Það átti auðvitað að hafa flóttamennina 300 - ekki manni minna !

Jafn fordómalaust, víðsýnt og upplýst fólk og það sem býr á Akranesi, á auðvitað ekki að sætta sig við neitt minna.

Því átti Gísli bæjarstjóri bara að koma í sjónvarpið og tilkynna þar með breiðu brosi, auðvitað með tilskyldu leyfi frá Gunnari bakara, að tekið yrði á móti 300 flóttamönnum á Akranesi, ekki manni minna !

Svo átti hann að segja hæverskur og afsakandi, eins og besti landsfaðir :

 " Þetta er nú það minnsta sem við getum gert ! "

Það hefði verið bragð að því, í stað þess að dúkka upp með 29 hræður og þykjast vera að gera eitthvað stórt í málinu.

Þessir flóttamenn sem voru að koma hingað frá Írak eru hinsvegar, þegar vel er að gáð, að sumu leyti nokkuð sérsaumaðir fyrir Akranes.

Knattspyrnulið þeirra Skagamanna hefur til dæmis verið kallað ÍA sem er nákvæmlega helmingur landsnafnsins Írak. Það væri kjörið framtak til áréttingar um enn frekari stuðning við blessaða flóttamennina, að breyta bara í einum hvelli nafni félagsins í - Írak !

Þá væri engin hætta á því að nokkur gleymdi því hvað fólkið á Akranesi hefur verið og er gott við þá sem eiga bágt og sérstaklega hann Gísli bæjarstjóri, sem er eins og  margir vita, nokkuð velstæður, sjálfstæður samfylkingarmaður.

Þá mætti líka fljótlega hætta að tala um Skagamenn í fótbolta, enda er það löngu orðin gamaldags lumma - og í staðinn mætti þá bara tala um  - Íraka !

Það yrði nú aldeilis sprengikraftur í liðinu þegar svo væri komið, ef að líkum léti.

Út við Kalmansvíkina, sem er stutt frá Esjubrautinni, þar sem ég held að góðmennið hann Gísli bæjarstjóri sé búsettur, er heilmikið landrými og mætti þar eflaust byggja heila Bagdað á vegum Flóttamannafrelsunar Akraness.

Þar gætu 300 manns auðveldlega eignast heimili og svo væri hægt að taka við svona 100 flóttamönnum á ári til að fylla í skörðin þegar þeir sem fyrir eru hafa flutt til Reykjavíkur !

Akurnesingar megi ekki láta smásálarleg yfirvöld smækka sig. 30 sálna pakki er allt of lítill innspýtingarskammtur af flóttafólki fyrir jafn stórt og öflugt bæjarfélag. Það er skammarlegt að leggja af stað í fordómalausa og víðsýna ferð með svo lítið veganesti.

Ég skora á Akurnesinga að endurskoða málið og taka við a.m.k. 300 flóttamönnum. Ekki manni minna.

Allt undir 300 er svo lítið, að sómatilfinningu manna á Akranesi hlýtur að vera stórlega misboðið.

Sennilega er það þetta sem hefur gert Magnús Þór Hafsteinsson svo fráhverfan málinu sem raun virtist vitni bera. Honum hefur náttúrulega ofboðið aumingjaskapurinn og talið best að vera ekkert að þessu fyrst ekki var hægt að standa að þessu með stæl !

Nei, menn verða nú að sýna metnað í svona þjóðþrifamálum.

Akurnesingar mega ekki láta lítilmennsku bæjarstjórnarmanna leiða sig í þessu mikla hjálparverkefni í fjölmenningargeiranum. Þeir verða að sýna tápmikil tilþrif sjálfir, sýna að þeir hafi hjartað á réttum stað og viti í hvað best er að eyða peningum þjóðarinnar.

300 Íraka á Skagann - ekki manni minna !!!

 


Um kaldastríðsmál

 

Það er bæði svo að tímarnir merkja menn og menn merkja tímana. Á þeim árum sem kennd voru við kalda stríðið, þegar risaveldin stóðu grá fyrir járnum hvort gegn öðru, urðu margir merktir af tímunum og það sennilega fyrir lífstíð.

Það var með ólíkindum hvað hægt var að telja mönnum trú um í nafni vestrænnar samvinnu til hægri handar og roðans í austri til vinstri handar.

Menn gleyptu jafnvel við lygum vitandi vits í þeirri argvítugu einfeldni að allt væri gjaldgengt fyrir málefnið og sannleikurinn þyrfti ekki alltaf að vera sagna bestur. En það málefni sem þarf að nærast á lygum til að haldast við, hlýtur að vera meinum bundið á margan hátt.

Nú hefur einn af þeim mönnum sem stýrðu nokkuð umræðu mála á tímum kalda stríðsins, gert dagbækur sínar eða hluta þeirra að lestrarefni fyrir þá sem vilja.

Þegar hefur komið í ljós að sumt af efni því sem þar hefur trúlega verið fært inn í einfeldni hugarfarsins, virðist nokkuð úr lausu lofti gripið og hefur litla staðfestingu hlotið frá þeim sem sagðir eru koma þar við sögu.

Í þessu vil ég vísa til máls varðandi mann sem mun hafa starfað á Þjóðviljanum sáluga á sínum tíma og þar af leiðandi haft nokkuð vafasaman stimpil á sér í augum postula vestrænnar samvinnu. Ef draga skal lærdóm af umræddu máli um gildi viðkomandi dagbókarfærslna, verður að segjast að miklar efasemdir hljóta að vakna varðandi þær hugsanapælingar sem þar er að finna.

Nú er það svo að tíminn líður hratt og menn sem hafa lengi staðið í flóðljósum umræðusviðsins una því kannski illa þegar aldurinn fer að skola þeim út af vellinum. Það eru því líklega mannleg viðbrögð að reyna hvað hægt er til að tolla í tengslum og halda í áhrif. En stundum reyna menn slíkt með þeim hætti að það skilar sér illa jafnt fyrir þá sjálfa og þann málstað sem þeir hafa staðið fyrir. Marktækni þeirra geldur afhroð í hugum manna og umsagnir þeirra um menn og málefni verða kannski aðeins eitthvað sem kastað er á milli manna í hálfkæringi, á grundvelli einhvers skemmtunargildis í besta falli.

Það hlýtur að vera erfitt fyrir gamla höfuðsmenn í kaldastríðs varnarsveit vestrænnar samvinnu að upplifa það að upplifun þeirra á þessum árum sé ekki talin merkilegri en raun ber vitni í samtímanum.

Sumir átta sig ekki á því að það eru komnir nýir menn inn á völlinn og leikbrögð liðins tíma eru jafnvel talin hlægileg nú til dags. Krossferðarandinn sem í þeim bjó á ekki við lengur og það þýðir ekkert að reyna að hita upp nýjan völl með gömlum áróðurslummum.

Sumir deyja fyrir tímann að sagt er, en aðrir deyja eftir tímann - lifa sjálfa sig og þá samtíð sem átti þá með húð og hári. Það er ekki á færi slíkra manna að tengja sig við allt aðra samtíð og reyna að vera þar í æðstaprests hlutverki.

Dagbókarfærslur af því tagi sem hér eru gerðar að umræðuefni eru því vafasöm sagnfræði en geta hinsvegar verið töluverður fróðleikur um hugsanagang þess sem ritar þær, ef menn hafa áhuga á að kynnast þeim viðhorfum.

Það hefur ekki vantað í ákveðnum hópum að Moggaritstjórarnir gömlu hafi verið lofsungnir fyrir að hafa opnað Morgunblaðið sem almennan umræðugrundvöll - og leyst blaðið þannig undan flokksræði og pólitísku valdi !

Ég held hinsvegar að þar sé farið nokkuð frjálslega með staðreyndir.

Það er nefnilega skýr skoðun mín, að báðir hafi þessir menn í raun verið helbláir kaldastríðsgaurar og séu það að miklu leyti enn. Þeir munu sennilega aldrei breytast eða losna úr því móti sem þeir fengu steypingu í á tímum McCarthys og hans líka.

Matthías og Styrmir opnuðu vissulega Morgunblaðið, en þeir gerðu það fyrst og fremst vegna þess að þeir sáu að það var lífsnauðsyn fyrir blaðið sjálft ef það ætti að halda velli til framtíðar. Sú ákvörðun bjargaði líklega blaðinu á sínum tíma en enn er þó ekki víst að það haldi velli til lengdar.

Ritstjórarnir voru fyrst og fremst að bjarga blaðinu, vinnu sinni og annarra og reyna um leið að halda áfram í þau miklu áhrif sem Morgunblaðið óneitanlega hafði haft. Tímarnir voru breyttir, heimurinn var orðinn annar og aðstæður kröfðust aðlögunar.

Ég hygg að innst inni myndu þeir Matthías og Styrmir báðir helst óska þess að blaðið gæti áfram verið jafn rígbundið Sjálfstæðisflokknum og það var í gamla daga - en það var einfaldlega ekki hægt að reka það þannig lengur  - og það sáu þeir þó blindir væru á margt.

Það gæti vissulega verið fróðlegt að fá að sjá dagbókarfærslur frá Styrmi Gunnarssyni og bera þær saman við lýsingar Matthíasar Johannessen þar sem það á við.

En ég hef hingað til lifað við það að þekkja lítið til Matthíasar og get vel hugsað mér að halda því áfram. Hvernig hann lýsir atburðarás í liðnum tíma getur enganveginn orðið mér trúverðugt mál eða hugstætt.

En ég hef haft nokkur samskipti við Styrmi og tel honum ýmislegt til gildis í gegnum þau kynni, en seint hygg ég að ég muni taka gildar atburðalýsingar hans frá tímum liðinnar stjórnmálasögu. Það skilur einfaldlega of mikið á milli skoðana okkar til að traust geti skapast í þeim farvegi.

En eins og ég hef sagt hér að framan, ef einhverjir finna eitthvað skemmtunargildi í einnota umbúðalýsingum tiltekinnar atburðarásar, er ekkert við það að athuga.

Hver og einn velur sér þá afþreyingu sem hann telur við sitt hæfi og í sumum tilfellum getur - eins og dæmin sanna - verið um nauðaómerkilega afþreyingu að ræða.

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 148
  • Sl. sólarhring: 194
  • Sl. viku: 717
  • Frá upphafi: 365615

Annað

  • Innlit í dag: 143
  • Innlit sl. viku: 628
  • Gestir í dag: 143
  • IP-tölur í dag: 141

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband