Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009
29.8.2009 | 18:23
Kaldhæðni sögunnar
Þegar sameinuð auðvaldsöfl landsins ákváðu á sínum tíma að bjóða aðstöðu hér fyrir erlent herlið, lá auðvitað fyrst og fremst að baki sú hugsun að þéna á hlutunum hvort sem svínaríið yrði meira eða minna. Þjóðleg sjónarmið áttu þar engan hlut að máli og þjóðaratkvæðagreiðsla um málið kom ekki til greina, því menn í hernámsflokkunum vissu að mikill meiri hluti þjóðarinnar var á móti þessu.
Ástæðan fyrir því að Bandaríkjamenn vildu fá aðstöðu hér var fyrst og síðast ótti þeirra við Sovétríkin og þannig varð tilvist kommanna fyrir austan alla tíð meginforsendan fyrir því að íslenska auðvaldið gat vaðið í bandarísku fé í fulla hálfa öld. Allt hermangið og þessi mikla auðsuppspretta byggðist á því að Óvinurinn væri til staðar.
Þegar Sovétríkin voru lögð niður 1991 var forsendan fyrir bandaríska herliðinu hér brostin og Kanar vildu bara fara að haska sér burt.
En íslenska auðvaldið barðist við það í nokkur ár að reyna að halda í þá og vildi umfram allt ekki missa spenana sem það hafði tottað af áfergju í heilan mannsaldur. Sumir svínaldir kapítalistar á suðvesturhorninu fóru jafnvel að tala af tregasárri eftirsjá um " hina góðu tíma þegar Sovétríkin voru til !"
Það fór nefnilega smám saman að renna upp fyrir þeim að það voru Sovétríkin sem höfðu með tilvist sinni skapað þeim þann ofsagróða sem þeir höfðu haft í öll þessi ár. Bandaríkjamenn voru ósparir á dollarana meðan þeir voru haldnir af óttanum við vofu kalda stríðsins, en þegar Sovétríkin liðu undir lok hvarf sú vofa með þeim.Það var engin ástæða lengur til að moka bandarískum fjármunum í einhverja hægri karla hérlendis - það var ekki lengur nein hætta á ferðum.
En við þessar breyttu aðstæður urðu hinir oföldu hermangarar alveg grútfúlir út í " verndarana ", sem svo hikstalaust hlupu frá heilögum skyldum sínum, og völdu þeim hin verstu orð. Þannig reyndist hin vestræna bræðralagsást tál eitt og froða, þegar peningarnir lágu ekki lengur á lausu í Pentagon fyrir undirtyllur heimsvaldastefnunnar bandarísku norður í Dumbshafi.
Jafnvel Davíð hinn almáttugi gat ekki talið Könum hughvarf þó hann færi til Washington og grátbæði Bush og Rumsfeld báða tvo, um framlengingu á hervistinni hér. Samt voru þessir þrír menn áreiðanlega í einum anda varðandi flest önnur mál.
Suðurnesin sukku í víl og volæði þegar herinn var farinn og grétu sín Gósen ár.
" Ó, bara að Sovétríkin hefðu ekki liðið undir lok, þá værum við enn í gulldyngjunni miðri " hljómaði víða frá munni manna og jafnvel inn í miðri Keflavík !
Svona er kaldhæðni Sögunnar oft mikil.
Menn bíða eftir því að einhver eða eitthvað lognist út af, en þegar það gerist verður það stundum með þeim hætti að þeir standa sjálfir miklu verr að vígi á eftir. Það er aumt að vita harðsvíraða, Pentagon-innmúraða kaldastríðsgaura, óska þess nú heitt og innilega að gömlu, góðu tímarnir, þegar dollararnir runnu stanslaust í hendur þeirra, komi aftur.
Og samraddaðir tauta þeir ofan í bringu eins og heilaþveginn sértrúarsöfnuður:
" We want the Soviet Union back and an open Pentagon purse !!!
Í hugum slíkra virðist stöðugt hljóma slitin plata frá liðinni tíð, plata sem gengur út á stefið " Give me the Old Time Religion " !
Stórkapítalistarnir hér voru nefnilega einskonar íslenskir aðalverktakar sem gerðu út á kommagrýluna. Þegar hún hvarf hætti bandaríska gullgæsin fljótlega að verpa eggjum sínum í skaut þeirra og því fór sem fór.
Sic Transit Gloria Mundi...................!
9.8.2009 | 11:51
Palladómur um pólitíska atburðarás síðustu ára
Aðalástæður þess efnahagshruns sem átti sér stað hérlendis í fyrrahaust, voru kvótakerfið og einræðisvald Davíðs og Halldórs yfir flokkum sínum.
Kvótakerfið er alræmdasta mismununarkerfi Íslandssögunnar og var sett á fót og byggt upp af hálfu sérhagsmuna-aflanna til að tryggja aðgang útvalinna gæðinga að nánast ótakmörkuðu fjármagni. Eftir tilkomu þess gátu ríkisómagarnir, sem fitnuðu á kerfinu, lagt peninga í nánast alla hluti. Þannig fór græðgisvæðingin af stað.
Síðan kom síhækkandi krafa frjálshyggjunnar um að allt sem gefið gæti af sér einhvern gróða yrði einkavætt. Og eftir að frjálshyggjan gleypti Sjálfstæðis-flokkinn í heilu lagi og Davíð var orðinn æðstiprestur í musteri hennar, var allri trú á önnur gildi kollvarpað í Valhöll. Stefnan eina var fundin og Foringinn með.
Halldór Ásgrímsson sem alltaf hefur verið hægri maður og kapítalisti, mun strax upp úr 1990 hafa farið að dást að Davíð Oddssyni og öfunda hann af þeirri dýrkun sem hann bjó við í sínum flokki. Þar sá hann þær aðstæður sem hann vildi búa við sem flokksformaður. Þegar svo Halldór varð formaður í sínum flokki og loksins laus við forvera sinn, byrjaði hann strax á því að færa flokkinn til hægri.
Hann valdi sér samstarfsfólk sem annaðhvort var hægri sinnað eins og hann, eða fólk sem í orði kveðnu var talið heldur fráhverft hægri stefnu, en samt ekki svo heilsteypt í þeirri afstöðu, að það slægi hendi móti vegtyllum af hugsjónaástæðum. Í fyrri hópnum var fólk eins og Finnur Ingólfsson og Valgerður Sverrisdóttir, í þeim seinni Guðni Ágústsson og Páll Pétursson.
Smám saman urðu orð Halldórs að lögum í Framsóknarflokknum. Hann fór í einu og öllu eftir Davíðslínunni og dró öll völd til sín og þeirra sem hann taldi sér trygga. Þetta einræðisbrölt formannsins varð brátt að innanflokksmeini.
Framsóknarflokkurinn varð nefnilega smám saman, í gegnum þetta ferli, verri en Sjálfstæðisflokkurinn, þar sem hann taldist sögulega séð vera félagshyggju-flokkur. Auðvaldið í Framsókn hefur þó oft tekið þar völdin þó aldrei hafi það verið til eins mikils skaða fyrir þjóðina og í formannstíð Halldórs.
Davíð sá hvernig Halldór hagaði málum sem formaður og gerði sér grein fyrir að hann væri maður sem yrði ólíkt betri og traustari bandamaður en Jón Baldvin.
Á þeim tíma var Davíð satt að segja orðinn þreyttur á Viðeyjarvininum og fannst erfitt við hann að eiga. Jón Baldvin var nefnilega ekki haldinn neinni sérstakri aðdáun á Davíð og vildi ekki síður en hann koma fram í sviðsljósið í eigin nafni.
Þannig rugluðu Davíð og Halldór saman sínum pólitísku reytum. Frá upphafi var það ljóst að Davíð var keisarinn en Halldór svona hálfgildings varakeisari.
Það er til dæmis um það hvað Halldór var Davíð í raun leiðitamur, að Davíð gerði nokkuð fyrir hann sem hann hefði líklega ekki gert fyrir nokkurn annan mann. Hann leyfði honum að vera forsætisráðherra í eitt ár !
Og jafnframt því sem Halldór var svona leiðitamur við Davíð, var Framsóknarflokkurinn leiðitamur við Halldór. Formaðurinn deildi út bitlingum og drottnaði í flokknum og enginn sagði orð. Steingrímur Hermannsson sá þetta og kunni ekki við þetta einræðisástand í flokknum, gagnrýndi það á nokkrum fundum, en lét svo kyrrt liggja. Það þótti heldur ekki við hæfi, að fyrrverandi formaður væri að gera eftirmanni sínum lífið leitt. Það duldist þó engum að það voru engir kærleikar milli þeirra félaga þrátt fyrir langt samstarf á fyrri árum.
Þannig var staðan skömmu fyrir aldamótin, Davíð var búinn að finna það sem hann vantaði til að ráðskast með allt þjóðarbúið - Halldór tryggði honum það pólitíska afl sem hafði skort upp á það. Báðir ríkisstjórnarflokkarnir lutu forustu manna sem réðu þar lögum og lofum. Lýðræði innan þeirra var bara til að sýnast. Svo fóru Stóri Davíð og Litli Davíð í þessari samtengingu hagsmuna-kærleikans, að skipta út til kjörinna gæðinga þeim ríkiseignum sem einna eftirsóknarverðastar þóttu.
Þannig fór með bankana okkar - þannig fór með símann okkar - o.fl.
Allt þetta sem hafði verið byggt upp á fólksins kostnað og þjónaði fólkinu, var nú tekið eignarnámi í nafni sérhagsmunanna. Lögum var breytt og þeim hagrætt til þess að menn væru nógu frjálsir gjörða sinna. Og það urðu gífurleg veisluhöld í hallarsölum auðvaldssinna, þegar búið var að hirða af þjóðinni hennar helstu eignir, eignir sem hafði tekið áratugi að byggja upp með miklum tilkostnaði fólksins í landinu. Já, það var kátt í höllinni hjá kvótaaðlinum og öðru heimatilbúnu yfirstéttarhyski við þessar endalausu gjafir, sem voru látnar renna á færibandi stjórnkerfisins beina leið upp í gráðugan kjaftinn á því.
Allt gerðist þetta fyrir tilverknað hinna pólitísku Síamstvíbura Davíðs og Halldórs ! Þeir ríktu yfir öllu eins og Tvíburaturnar hins íslenska stjórnmála-landslags. Og allir undirmenn þeirra beygðu sig og bugtuðu - og hlýddu !
Í vaxandi hroka sínum fóru svo þessir leiðtogar að taka ákvarðanir um örlagamál þjóðarinnar tveir einir - svo sem varðandi þátttöku í tryggingu bandarískra hagsmuna í Írak ! Af hverju áttu þeir að vera að kalla aðra til - hversvegna - það var bara tímasóun - réðu þeir ekki öllu ?
Utanríkismálanefnd, sei, sei, nei. Við erum bara að fara í stríð með vinum okkar fyrir westan. Bush á eftir að meta það við okkur !
En svo kom að því að Davíð fann að hann var að mjakast yfir hápunkt valdastöðu sínnar. Hann skynjaði það í gegnum eitt og annað. Davíð er nefnilega næmur á veðrabrigði. Hann fór að hafa það á tilfinningunni að hann væri pínulítið á niðurleið ! Það var vond tilfinning og hann fékk aðkenningu að niðurgangi í nokkra daga. Hvað gat hann gert í stöðunni ?
Og honum hugkvæmdist auðvitað ráðið - að hætta á toppnum - hætta sem keisari !
Hann ætlaði ekki að kalla það yfir sig að óþolinmæði bíðandi framagosa yrði of mikil ! Hann var náttúrulega búinn að reyna á þolrif manna í allan þennan tíma.
Og Davíð sá þetta alveg rétt. Það var kominn tími fyrir hann að hætta.
Hans eigin flokksmenn voru orðnir þreyttir á einræði hans - svo til allir, nema auðvitað Hannes Hólmsteinn og helstu sálufélagar hans !
Þeir stóðu náttúrulega sinn Davíðsvörð í áróðursmálaráðuneytinu sem fyrr - bláir fyrir járnum og foringjatryggðin uppmáluð.
En sem sagt, Davíð hætti og hugsaði með sér : " Skítt með Halldór, hann verður að bjarga sér sjálfur héðan af !"
Já, það var vissulega alveg rétt af Davíð að hætta, en hann gerði þau mistök að fara í Seðlabankann. Það átti hann auðvitað ekki að gera. Hann átti ekki að vera með puttana í þessu áfram úr því að hann var hættur.
En í Seðlabankanum sat hann þegar syndafallið kom sem hlaut að koma.
Og náttúrulega varð hann óskaplega sár yfir að fá á sig gusur hinnar gífurlegu reiði almennings, - af hverju voru svona margir illir út í hann, það gat hann bara alls ekki skilið, því auðvitað var hann alltaf að vinna fyrir fólkið í landinu - heill og óskiptur - eða þannig !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook
4.8.2009 | 12:49
Skiljum okkur frá þeim
Eitt af því sem greinilega reynist mörgum erfitt í ljósi þess sem gerst hefur síðustu mánuðina - eða allt frá bankahruninu í fyrrahaust, er hvaða afstöðu menn eigi að hafa til svokallaðra útrásarvíkinga. Þeir eru nefnilega svo ótal margir sem dáðust að þessum mönnum, töldu þá fjármálasnillinga og afburðamenn og ekkert væri athugavert við að þeir væru með tugmilljónir í mánaðarkaup.
Allt frá forsetanum og niður allan þjóðfélagsstigann, voru menn að lofsyngja þessa græðgisfullu yfirgangsseggi sí og æ. Gullhamraslátturinn varð svo mikill að almenn dómgreind fékk hvergi komist að í neinu með sín varnaðarorð. Öryggisventill þjóðarinnar nr. 1, forsetinn sjálfur, virtist yfir sig heillaður af útrásarhyskinu og á að hafa sagt heldur betur kampakátur erlendis : " You Ain´t Seen Nothing Yet !"
Ísland átti víst bara að leggja undir sig heiminn !
Og þetta gagnrýnislausa hrifningarviðhorf var í reynd básúnað út um allt íslenska samfélagið og það án afláts. Nánast öll umfjöllun fjölmiðla þjónaði útrásinni í gegnum linnulausan áróður fyrir markaðshyggju, auðvaldi og græðgi.
Jafnvel í dag, eftir hrikalegt skipbrot frjálshyggju-glæframennskunnar, virðist enn reynt í fjölmiðlum að hefja þessa menn upp aftur þegar þeir eru að fjárfesta stórt, eins og nýleg dæmi sanna. Því ekki vantar þá peningana, enda nýttu þeir tímann undir lokin vel til undanskotanna.
Þeir sem stöðugt eru að reyna að mæla þeim bót sem hruninu ollu, gera það líklegast vegna þess að þeir hafa sjálfir eitthvað að fela í sambandi við þessi mál. Flestir þekkjast af þeim sem þeir binda vinskap við og stundum svíkja menn eigið manngildi með því að halda sig í illum félagsskap gegn betri vitund.
Og þar sem svo margir féllu í þá gildru að hrífast með í vitleysunni, eru slíkir með skömmustutilfinningu og þessvegna einna helst tilbúnir að reyna að milda málin gagnvart þeim sem sekir eru. En þeir hinir sömu eru hinsvegar einna heiftugastir út í þá sem miklu minna er við að sakast. Þannig hef ég hitt marga sem fara ekki mörgum orðum um gerendur þjóðarhrunsins, en verða alveg brjálaðir ef minnst er á Steingrím J. Sigfússon. Í augum slíkra manna er hann vondi maðurinn, sem er að halda illa á málum fyrir Ísland !
Svona geta menn nú umsnúið staðreyndum þegar samviskan er ekki góð !
Þessi afstaða á sér reyndar ýmsar sögulegar hliðstæður, því þegar menn vita upp á sig skömmina með eitthvað, hlaupa þeir stundum beint yfir í forherðinguna og vilja ekkert af neinu vita sem heitir iðrun.
Ég var aldrei hrifinn af þessum græðgisfullu gangsterum sem óðu hér yfir allt. Þeir voru að öllu leyti fulltrúar viðhorfa sem ég hef alla tíð haft himinhrópandi skömm á og ég hef aldrei getað viðurkennt neinn mann merkilegri fyrir það eitt að hann eigi peninga.
Það er líka skoðun mín, að flestir þeir sem eiga eitthvað verulegt af peningum, hafi komist yfir þá með þeim hætti að ég myndi ekki treysta mér til að eiga peninga á þeim forsendum. Ég hef séð marga menn sem hafa aukið hroka sinn í beinum tengslum við vaxandi fjármuni, en manngildið hefur yfirleitt minnkað að sama skapi. Það er alltaf leitt að sjá !
Einn daginn eru þessir aurapúkar svo dauðir eins og aðrir og hafa eytt lífi sínu í tilbeiðslu verðmæta sem mölur og ryð fá grandað.
Þá er of seint að iðrast - eftir ævilangt fjárgræðgi og forherðingarferli !
Í mínum augum eru þeir sem kallaðir hafa verið útrásarvíkingar einfaldlega þjóðníðingar ; menn sem léku sér að fjöreggi lands og þjóðar gjörsamlega ábyrgðarlaust og vísuðu afleiðingum breytni sinnar á okkur öll. Á okkur öll sem erum hin íslenska þjóð í dag - og myrkvuðu framtíðarvonir okkar og barna okkar !
Það sem þeir gerðu þjóðinni má aldrei gleymast - né hvernig þeim var gert fært á örfáum árum að splundra lífsmynd okkar og framtíðarheill.
Hvar sem Íslendingar koma saman um ókomin ár - þeir menn sem íslenskir vilja heita, ættu allir að hafa það hugfast að eiga engin samskipti við þá menn sem ekki hafa reynst samfélagshæfir ; þá menn sem hafa sagt sig úr lögum og frá allri ábyrgð gagnvart okkur hinum.
Þeir sem hafa sjálfir dæmt sig í þá stöðu með verkum sínum og gjörðum, ættu framvegis að búa við fyrirlitningu og algjöra samskiptalega útlegð af hálfu þjóðarinnar. Þeir hafa afneitað þjóðinni og þjóðin á að afneita þeim !
Það er ekki hægt að byggja upp neitt til framtíðar með svo eitruð og skemmd epli í þjóðarkörfunni !
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 69
- Sl. sólarhring: 117
- Sl. viku: 638
- Frá upphafi: 365536
Annað
- Innlit í dag: 65
- Innlit sl. viku: 550
- Gestir í dag: 65
- IP-tölur í dag: 63
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)